Nýliðun í landbúnaði

0
92

Líkt og í öðrum atvinnugreinum er landbúnaði nauðsynlegt að stöðug og jöfn endurnýjun rekstraraðila eigi sér stað. Atvinnugrein þar sem engin nýliðun á sér stað verður ekki langlíf. Lengi hefur verið rætt og ritað um hversu nýliðun í landbúnaði sé erfið. Einkum þar sem fjárþörfin sé gríðarleg fyrir þá sem vilja koma inn í greinina. Áður en raunhæft er að leita leiða til að hjálpa fólki við að komast af stað er ekki úr vegi að skoða hvernig fjárþörfin er til komin.

Björn Halldórsson
Björn Halldórsson

 

Eðlilegt er að skipta þeirri fjárfestingu sem fara þarf í upp í nokkra flokka. Með því að gera sér grein fyrir í hverju er verið að fjárfesta er líklegra að eðlilegt verð finnist. Ef t.d. er um að ræða bú með miklum framleiðslurétti er verðið hærra en ella þar sem framleiðsluréttur er, illu heilli, verðlagður mjög hátt. Sama er að segja ef byggingar eða tæki eru ný og fullkomin þá er eðlilegt að verð sé hærra en ella. Hin seinni ár hefur land einnig hækkað talsvert í verði, en misjafnt eftir landshlutum. Eðlilegt er að verð sé að einhverju leyti í takt við verðmæti hlunninda, ef þau eru til staðar.

 

Vandamálið við nýliðun er líklega í mörgum tilvikum frekar fjármögnunarvandamál en of hátt verð . Á þessu sviði líkt og öllum öðrum virðist íslenska fjármálakerfið vera úr öllum takti við raunveruleikann. Lán til kaupa á bújörðum í rekstri eru í raun algerlega fáránleg, bæði hvað varðar lengd þeirra og kjör. Að ekki sé tekið tillit til, við ákvarðanir á lengd lána og kjörum, í hverskonar rekstur er verið að lána segir margt um skynsemi þeirra sem þar um véla.  Vart er hægt að hugsa sér öruggara veð en land. Dæmi síðustu ára sanna það. Það er því afar lítil, ef nokkur, áhætta fólgin í því að lána fjármuni með veði í landi, ef verðið er eðlilegt. Það ætti því að vera hægt að lána á lægri vöxtum en í flest annað. Því miður er svo ekki.

En hvað er til ráða? Sú ákvörðun sem tekin var, í landbúnaðarráðherratíð Guðna Ágústssonar, að selja Lánasjóð landbúnaðarins var í alla staði kolröng og  ríkinu mjög kostnaðarsöm vegna mistaka við framkvæmdina. Með þeirri ákvörðun var öll lánastarfsemi til landbúnaðarins sett í hendur viðskiptabankanna. Reynslan af því er slæm.

Vinstrihreyfingin- grænt framboð telur að stefna beri að því að endurvekja  sérstakan lánasjóð til landbúnaðarins, einkum til að skapa nýliðum eðlilega  innkomu í greinina. Ýmsar leiðir má hugsa sér til að fjármagna verkefnið, s.s. með þátttöku ríkisins, Lífeyrissjóðs bænda, með hluta af beingreiðslum, hluta af hagnaði fjármálafyrirtækja, framlögum frá þjónustufyrirtækjum landbúnaðarins og fleira mætti telja.

Að okkar mati er brýnt að skoða þessa hugmynd sem fyrst og finna þær leiðir sem færar teljast. Það er brýnt vegna þess að landbúnaður er og verður einn af hornsteinum atvinnustarfsemi í landinu, einkum á landsbyggðinni. Í anda þess að Vinstri græn er hreyfing sem vill sjá lausnir í atvinnumálum sem leiða til fjölgunar lítilla og meðalstórra fyrirtækja er eðlilegt að stuðla að eflingu landbúnaðarins og þá er öflug nýliðun forsenda þess að vel takist til.

Björn Halldórsson

Höfundur skipar 5. sæti á framboðslista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi