Ný stjórn Þingeyingafélagsins í Reykjavík – Aðventukaffi 2. desember

0
697

Ný stjórn hefur tekið til starfa í Þingeyingafélaginu í Reykjavík og nágrenni. Dögg Matthíasdóttir tók við formennsku af Andra Val Ívarssyni. Aðrir í stjórn eru: Andri Valur Ívarsson, Friðgeir Bergsteinsson, Anna Karen Unnsteinsdóttir, Guðrún Hulda Jónsdóttir, (hún er því miður ekki á meðfylgjandi mynd) Teitur Erlingsson, Una María Óskarsdóttir og Guðný María Arnþórsdóttir.

Þeirra fyrsta verk er aðventukaffið vinsæla og árlega sem er haldið nú í ár á Hótel Natura sem áður hét Hótel Loftleiðir, Nauthólsvegi, 101 Reykjavík þann 2.desember 2018.
Þráinn Árni Baldvinsson tónlistarkennari í Norðlingaskóla og gítarleikari Skálmaldar mun flytja okkur fáein lög. Þráinn er úr Torfunesi í Köldukinn.

Hrannar Pétursson sonur hjónanna Péturs Skarphéðinssonar og Sólveigar Jónsdóttur flytur hugvekju um bernskujólin á Húsavík. Hrannar er ráðgjafi og fyrirlesari og hefur víða komið við. Hann hefur starfað sem aðstoðarmaður ráðherra, framkvæmdastjóri, sjónvarpsfréttamaður og upplýsingafulltrúi svo fátt eitt sé nefnt.

Hildur Knútsdóttir er dóttir Knúts Árnasonar sem ættaður er úr Kinninni og Guðrúnar Sigurjónsdóttur, dóttur Sigurjóns Jóhannessonar fyrrum skólastjóra og Herdísar Guðmundsdóttur á Húsavík. Hildur kynnir nýja bók sína Ljónið sem er fyrsta bókin í nýjum þríleik eftir þennan margfalda verðlaunahöfund.

Guðný María Arnþórsdóttir tónlistarkona úr Garðshorni í Köldukinn flytur frumsamin jólalög sem heita Jólin splunkuný og Það eru jól. Tónlistarsnillingurinn Reynir Jónasson verður með nikkuna og stýrir fjöldasöng að venju.

Þetta verður notaleg stund á aðventunni með fjölskyldu og vinum og hefur verið fjölmenni síðustu ár. Verið velkomin.