Helgi Héðinsson sveitarstjórnarmaður í Skútustaðahreppi ritaði pistil á Facebook í grækvöldi sem vakið hefur athygli. Þar gagnrýnir hann m.a. fréttaflutning Kastljós af skolpmálum í Mývatnssveit undnfarna daga. Pistilinn má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Í ljósi fréttaflutnings síðustu daga af málefnum Mývatns get ég ekki lengur orða bundist. Allt frá því Veiðifélag Laxár og Krákár sendi frá sér ályktun þann 30.04.2016 hefur fréttaflutningur úr Mývatnssveit verið með hreinum ólíkindum. Af honum má skilja að hér renni skólp ómeðhöndlað úti náttúruperluna Mývatn og sé með því eitt og sér ábyrgt fyrir því að lífríkið er í vanda og að slíkt hafi viðgengist árum saman og geri enn. Með öðrum orðum að Mývetningar séu krónískir drullusokkar sem ekki sé við bjargandi.

Í stuttu máli sagt er þetta fullkomið rugl en hér mun ég reyna að útskýra á mannamáli forsögu málsins, ástandið eins og það er í raun og hvernig ónákvæmur og arfaslakur fréttaflutningur hefur haft áhrif á gang mála.

Forsaga málsins

Forsagan er æði löng og teygir sig alla leið aftur til 1974 þegar, í kjölfar harðrar deilu vegna virkjunaráforma, voru sett lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu. Lögin voru endurskoðuð 2004 með lögum nr. 97. Markmið laganna er svohljóðandi sbr. 1. gr.

,,Markmið laga þessara er að stuðla að náttúruvernd á Mývatns- og Laxársvæðinu í samræmi við meginregluna um sjálfbæra þróun og tryggja að vistfræðilegu þoli svæðisins verði ekki stefnt í hættu af mannavöldum.
Lögin eiga að tryggja verndun líffræðilegrar fjölbreytni á vatnasviði Mývatns og Laxár ásamt verndun jarðmyndana og landslags með virkri náttúruvernd, einkum með tilliti til vísindalegra, félagslegra og fagurfræðilegra sjónarmiða.”

Þetta er auðvitað hið allra besta mál, enda vandfundinn sá einstaklingur sem ekki vill Mývatni vel, enda eitt merkasta vatn Norður-Evrópu með einstakt lífríki á heimsmælikvarða. Lífríkið hefur því miður um áratugaskeið átt undir högg að sækja, án þess að tekist hafi að skýra með einhverri vissu hvað veldur, og því síður að snúa þróuninni við. Ástandið lýsir sér þannig í sinni allra einföldustu mynd að breytingar í lífríkinu valda því að tvö af helstu einkennum vatnsins, silugurinn og kúluskíturinn, eiga undir högg að sækja og um tíma var talið að kúluskíturinn væri með öllu horfinn og meira að segja gengið svo langt að skrifa um hann minningargrein og líklega hefur sá síðasti verið jarðsettur í kyrrþey.

Því miður ná vísindalegar rannsóknir í Mývatni ekki nægilega langt aftur til að hægt sé að skilja nákvæmlega hvenær þetta hnignunarskeið hófst. Síðustu 50 ár hefur eitt og annað gengið á sem hefur bein að óbein áhrif á afdrif vatnsins. Til að stikla á stóru þá má nefna 9 ára eldgosaskeið í Kröflu sem gjörbreytti landslagi og innrennsli í vatnið, dæling Kísiliðjunnar, grynnkun vatnsins, aukið álag vegna byggðar, ferðamanna og landbúnaðar, hærri meðalhiti, breytt veðurfar, styttri viðvera íss á vatninu og svo mætti eflaust lengi telja.

Það vildi reyndar svo til að kúluskít skolaði á land í stórum stíl síðastliðið sumar, enda þekktur fyrir einstaka hæfileika til að rísa upp frá dauðum. Af silungnum er það að frétta að hann var ofveiddur áratugum saman fyrir tilstilli nútíma tækni, en glímdi á sama tíma við hrun lífríkisins og var því kominn í verulega klípu. Nú er staðan sú að rannsóknarveiðar hafa ekki sýnt meira af smásilungi síðan 1996 og holdafar silungsins hefur um árabil verið ákaflega gott eins og lesa má um í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar Silungurinn í Mývatni.

Mál málanna – 1%

Eins og áður sagði hefur fréttaflutningurinn af Mývatni síðasta árið eða svo verið algerlega fordæmalaus. Mál málanna eru fráveitumál og þau áhrif sem aukið innstreymi næringarefna, fosfórs og köfnunarefnis, hafa á vatnið.
Mývatn er gríðarlega næringarríkt stöðuvatn og frá náttúrunnar hendi nærri þeim mörkum að vera ofauðgað þ.e. að styrkur næringarefna sé slíkur að það kveiki atburðarrás sem vel er þekkt en var lengi af heimamönnum kölluð leirlos. Leirlos er blábakteríublómi sem myndar nokkurs konar teppi á yfirborð vatnsins og hefur áhrif á lífríki þess auk Laxár. Heimildir eru til fyrir því að þetta náttúrulega fyrirbrigði hafi sést reglulega í aldanna rás en nú er kenningin sú að vegna aukins álags sé magn næringarefna orðið hættulega mikið þ.e. að sú aukning sem orðið hefur í losun næringarefna sé dropinn sem fyllir mælinn.

Vegna ástands Mývatns skipaði Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra, samstarfshóp um Mývatn – ástand mála, orsakir vanda og mögulegar aðgerðir. Í skýrslu hópsins sem undirritaður sat í kemur fram að:

,,Í Mývatni er óvenju hár heildarstyrkur fosfórs og niturs af náttúrunnar hendi miðað við önnur íslensk stöðuvötn. Um 98% af fosfórinnstreyminu kemur með lindum í Mývatn. Útskolun fosfórs frá landbúnaði nemur 0,4%, loftborið 0,6% og samanlögð losun frá íbúum og ferðaþjónustu samsvarar 1%. ”

Enn fremur:
,,Þorri niturs sem mælist úti í Mývatni sjálfu er þó komið úr andrúmsloftinu fyrir milligöngu blábaktería í vatninu. Mest munar um sviflægar blábakteríur (þ.e. þær sem svífa lausar um í vatninu) og geta náð að fjölga sér mikið. Þegar slíkir blómar myndast binst mjög mikið af nitri í vatninu, og er áætlað að um 200 tonn berist þannig í Mývatn. Um 80 tonn koma frá uppsprettum. ”

Nú er ég nokkuð viss um að sá sem þetta les hugsi – getur þetta verið rétt í ljósi þeirra frétta sem ég hef séð – svarið er Já.

Nú kann einhverjum að þykja ansi rausnarlegt af fjölmiðlum og sérstaklega ríkisfjölmiðlinum að tileinka jafn miklu af athygli Mývatni og raun ber vitni. Í sjálfu sér er ekkert útá það að setja, en sú umfjöllun sem fram hefur farið síðasta árið er sorglega ónákvæm, farsakennd og einkennist af þorsta fjölmiðlanna til að koma skít á einhvern, bara einhvern!!

Tilgangurinn helgar ekki meðalið

Staða mála við Mývatn er sú að um 1% fosfórs kemur frá íbúum og ferðaþjónustu samkvæmt skýrslu sérfræðinganna. Hluti þess kemur frá frárennsli íbúa en einnig frá atvinnustarfsemi og ferðamannastöðum. Ég fullyrði að íbúar Mývatnssveitar eru afskaplega meðvitaðir um þetta, enda hefur málið verið gríðarlega fyrirferðamikið í umræðunni um ára skeið og unnið hefur verið að því að kortleggja hvað hægt sé að gera til að draga úr losuninni. Í þessu samhengi er nauðsynlegt að rifja upp að þangað til 10. júlí 2012 þegar reglugerð 665/2012 var sett voru frárennslismál við Mývatn í góðum farvegi og merkilegt nokk, nákvæmlega engu skólpi veitt í vatnið! Með undirritun reglugerðarinnar, sem hefur verið ansi umdeild fyrir ýmsar sakir, voru kröfur til hreinsunar frárennslis auknar verulega og í raun má segja að með einu pennastriki hafi ástandið í Mývatnssveit farið úr því að vera gott í að vera ólöglegt að stórum hluta og notendur klósetta orðnir sekir um lögbrot. Þess ber að geta að 24. grein reglugerðarinnar virðist hafa verið sett fram hugsunarlaust, en með henni voru settar verulega strangar og íþyngjandi kröfur án þess að nokkuð væri fjallað um þau kerfi sem fyrir voru eða að kröfunum fylgdi áætlun um hvernig ætti að greiða fyrir þær eða hvers konar búnað þyrfti til. Þetta er sérstaklega vandræðalegt í ljósi þess að í 9. gr. laga 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár stendur skýrt.

,,Kostnaður við framkvæmd laga þessara greiðist úr ríkissjóði eftir því sem fé er veitt til í fjárlögum.”

OK?

Þess bera að geta að Umhverfisstofnun kom ekki með leiðbeiningar um hvað gera skyldi fyrr en haustið 2014 – rúmum tvemur árum eftir að reglugerðin var staðfest. Enn fremur má benda á að margir horfðu til UST varðandi viðunandi búnað og úrvinnslu sem lá fyrir að byggja þyrfti en það var ekki fyrr en að sumri 2016 sem fyrsta hreinsistöðin á vegum UST, sem fer með umsjón verndarsvæðisins, leit dagsins ljós og nákvæmlega ekkert hefur verið birt eða kynnt varðandi virkni hennar. Það er reyndar lokað um þessar mundir vegna fjárskorts… Það er sérstaklega pínlegt til þess að hugsa að ríkið, sem setur þessa reglugerð og fjármagnar hana ekki, ber ábyrgð á einu allra afkastamesta salerni Mývatnsveitar við Dimmuborgir en þar er enga hreinsun að finna.

Svo það sé alveg á hreinu þá er einhugur um að vernda Mývatn og gera það sem í okkar valdi stendur til að ráða bót á þeim vanda sem stendur fyrir dyrum. Hins vegar þarf að vinna að vandaðri heildar lausn, en ekki misheppnuðum plástrum eins og lýst var í þætti Kastljóss um hroðvirknisleg vinnubrögð við Hótel Laxá.

Allt frá því veiðifélag Laxár og Krákár birti sína ályktun hafa aðrir lagst með þeim á árarnar til að vekja athygli á málinu og þrýsta á úrlausn þess. Sem dæmi má nefna ályktanir Veiðifélags Mývatn og Laxár en að auki hefur þetta verið það mál sem fulltrúr Skútustaðahrepps hafa barist hvað mest fyrir.

Í kjölfarið gripu fjölmiðlar svo málið á lofti og gerðu sér mat úr því að hér væri allt í skít og menn með allt niðrum sig og væru meðvitað að eyðileggja Mývatn á mettíma. Öll umfjöllun hefur verið með þessum hætti en náði nýjum hæðum síðustu daga þar sem starfsmaður Ríkisútvarpsins, fer mikinn um málefnið en gætir í engu að því að kanna málið sem hann fjallar um til hlýtar. Viðtöl eru klippt úr samhengi, viðmælendur og hann sjálfur fara með rangt mál m.a. hvað varðar undanþágur sem engar hafa verið veittar og snúið útúr niðurstöðum skýrslunnar sem vitnað er til hér að ofan. Þeir sem ekki hafa farið í að kynna sér málið til hlítar gleypa auðvitað við þessu umhugsunarlaust, enda treystir þorri íslendinga einhverra hluta vegna enn RÚV og í kjölfarið dynur á hryna ummæla sem níðir ímynd Mývatns og Mývetninga og undir því get ég ekki setið þegjandi og hljóðalaust. Undir ruglinu kyndir svo framkvæmdastjóri Landverndar sem virðist hafa gert að sérstöku áhugamáli sínu að fara rangt með og þvæla málefni Mývetninga. Vissulega setur þetta þrýsting á úrlausn þessara mála, en þegar umfjöllunin er jafn óvönduð, ónákvæm og ömurleg og raun ber vitni helgar tilgangurinn ekki lengur meðalið!