Nauðsynleg endurskoðun náttúruverndarlaga

0
78

Á næstu dögum mun frumvarp verða lagt fyrir Alþingi um að fella úr gildi náttúruverndarlög 60/2013, sem áttu að taka gildi 1. apríl 2014. Alþingi mun síðan taka afstöðu til frumvarpsins og verði það samþykkt verður engin breyting á, núgildandi náttúruverndarlög nr. 44/1999 halda áfram gildi sínu, sömu lög og gilda í dag. Frá þessu segir á heimasíðu Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegs-, landbúnaðar-, og umhverfisráðherra.

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson.

Í framhaldi mun ráðuneytið hefja vinnu við endurskoðun á náttúruverndalögunum og við þá vinnu styðjast við frumvarpið frá því í vor. Jafnframt er mikilvægt að farið verði vel yfir þær fjöldamörgu ábendingar og athugasemdir, sem bárust bæði ráðuneytinu og þingnefndinni sl. vetur, og reynt að leita leiða til skapa betri sátt um náttúruverndarmálin. Það skiptir miklu máli.

Til þess að vinna að því hyggst ráðherra skipa vinnuhóp hið fyrsta sem starfi með ráðuneytinu og hafi jafnframt víðtækt samráð við hagsmunaðila.

 

 

Margir hnútar voru á málinu sem þurfti að greiða úr – á endanum fannst lausn sem enginn var sáttur við í þinginu í sl. vor. Það sem fólst í lausninni var að gildistökunni var frestað um nokkra mánuði, sem gefur núna ráðrúm til að gera þær breytingar sem þarf að gera. Stefnt er að því að leggja fram nýtt og endurbætt frumvarp til náttúruverndarlaga á Alþingi vorið 2015. Þetta er yfirgripsmikið mál og því mikilvægt að gefa vinnunni þann tíma.

Um fjöldamörg atriði var ágreiningur, auk þess sem mörg atriðið eru ekki nægilega skýr og þarf að útfæra betur. Um það vitnar best hin mikla og gangnrýna umræða sem varð um málið sl. vetur.

Þar er af mörgu að taka. Frumvarpið lagði of mikla áherslu á boð og bönn, sem helsta stjórntæki náttúruverndarmála. Of lítið var lagt uppúr fræðslu, samráði við almenning og félagasamtök og aðrar slíkar leiðir. Ákvæði um hverrskonar umferð eru mjög óskýr og orsökuðu miklar deilur við útivistarfólk. Endanleg framsetning á kaflanum um utanvegaakstur er afar óskýr og ekki endilega til framfara. Mikill ágreiningur varð við ýmsa aðila um reglur um innflutning framandi lífvera sem hæglega hefði átt að vera hægt að leysa. Ágreiningur var um form á starfi við sveitarstjórnarstigið og hlutverk þess í náttúruverndarmálum, m.a. skipulagsvald sveitarfélaganna, hlutverk náttúrustofa og náttúruverndarnefnda. Skýra þarf betur hlutverk og verkaskiptingu opinberra stofnanna við framkvæmd laganna svo og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Kostnaður við innleiðingu laganna var mjög hár og hugsanlega vanáætlaður á opinberu stofnanirnar miðað við þær væntingar sem voru dregnar fram.

“Þetta eru allt atriði sem mikilvægt er að vinna betur. Til þess vil ég skipa vinnuhóp hið allra fyrsta sem fær það verkefni að endurskoða lögin, fara yfir allar ábendingar og athugasemdir, hafa samráð við hagsmunaðila og þannig, vonandi, endurbæta lagaramma náttúruverndar þannig að nýtt frumvarp geti komið til kasta Alþingis á vorþingi 2015. Til þessa hluta má ekki kasta höndunum og vinna að í pólitísku offorsi eins og reyndin varð því miður í lokameðförum fyrrverandi ríkisstjórnar daga og nætur fyrir þinglok í vor”, segir á heimasíðu Sigurðar Inga.