Næturgalinn

Sr Bolli Pétur Bollason skrifar

0
435

Ég man þegar ég las guðfræði var ég með kennara, Gunnlaug A. Jónsson að nafni, sem fjallaði mikið um áhrifasögu Biblíunnar. Gunnlaugur er prófessor í Gamla testamentisfræðum við guðfræðideild Háskóla Íslands.

Og það sem meira er, hann kenndi þessa áhrifasögu af ástríðu og smitaði nemendur með áhuga sínum.  Það er eitt af því sem gerir kennara að góðum kennara þegar hann sjálfur hefur óþreytandi áhuga á efninu, það á sannarlega við í tilviki Gunnlaugs.

Hvað er ég annars að tala um þegar ég nefni áhrifasögu Biblíunnar?

Svarið við því má m.a. finna í bók eftir Gunnlaug er ber titilinn Áhrifasaga Saltarans, Saltari er sem sagt annað orð yfir Davíðssálma og verður til út frá gríska orðinu psalterion sem merkir strengjahljóðfæri. Bókin kom út árið 2014, mikill doðrantur, eigulegt rit.

Um er að ræða sögu þeirra áhrifa sem textinn hefur haft á lesendur sína í áranna rás og hafa birst í mörgum myndum í allskyns miðlunarformi á löngum tíma eins og það er skilgreint í fyrrnefndri bók. Áhrif Biblíunnar á menningu heims eru ótrúlega mikil sem segir okkur að Biblían er miklu meira en venjulegt rit.  Og ekki nóg með það, svo margt af því sem við segjum dags daglega sýnir hin sterku áhrif Biblíunnar, margvísleg orðatiltæki sem við notum nánast óafvitandi koma af síðum ritningarinnar.

En mig langaði í tilefni af Biblíudegi kirkjunnar á öðrum sunnudegi í níuviknaföstu til að draga fram einn sálm úr hinu vinsæla sálmasafni sem kennt er við Davíð konung, það er safn sem hefur verið mest lesið og rannsakað af öllum ritum Gamla testamentisins. Sálmur 23 hefur ósjaldan verið sunginn og lesinn, „Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.”

Ekki veit ég hversu mörg fermingarbörn hafa flutt þessi orð sem fermingarvers á fermingardaginn. Ekki veit ég hversu oft þessi sálmur hefur verið fluttur yfir lífs sem liðnu fólki um heim allan. Og hvað þessi sálmur hefur verið ríkulegur innblástur mörgu stórskáldinu á listasviðinu.

  1. Davíðssálmur hefur verið kallaður næturgalinn meðal Davíðssálma vegna þess að hann hefur hljómað svo fagurlega í eyrum fjölmargra syrgjenda á erfiðum andvökunóttum að vakið hefur von þeirra um gleði að morgni og er hér vitnað í geðþekk ummæli breska prédikarans Charles Spurgeon sem flutti áhrifamiklar prédikanir um 38 ára skeið í The New Park Street Chapel í London.

Þjóðarleiðtogar hafa gert huggunarrík orð sálmsins að sínum þegar þeir hafa flutt þjóð sinni váleg tíðindi. George Bush yngri vitnaði í sálminn að kvöldi 11. september  2001 þegar hann ávarpaði bandarísku þjóðina í sjónvarpi.

Sálmurinn næst á undan 23. Davíðssálmi er harmþrunginn sálmur, þar sem við lesum m.a. þessi orð: „Guð minn, Guð minn hví hefur þú yfirgefið mig.” Jesús vitnaði í þessi orð sálmsins á krossinum. Litið er á sálm 23. sem hjálpræðissvar eða huggun við inntaki sálms 22 og uppröðun sálmanna því engin tilviljun.

Sálmur 23 skiptist í tvær myndir, sú fyrri er myndin af hirðinum sem verndar, sú síðari er Drottinn sem gestgjafi sem undirbýr mikla máltíð, hinn barmafulli bikar er vísar til gestrisninnar sem var í hávegum höfð í Landinu helga á tímum Gt. og þó óvinir hafi verið nærri naut gesturinn samt sem áður gestrisni og verndar gestgjafa síns.

Mig langar til að greina frá áhrifum sálmsins á lag, ljóð og kvikmynd, þetta þrennt, þannig sjáum við dæmi þess hversu máttug orðin eru sem hafa vakið vonir syrgjenda um gleði að morgni.

Kirkjukórinn á Grenivík söng á Biblíudegi lag Margrétar Scheving við sálm 23.  Margrét starfaði um tíma sem sálgæsluþjónn í Laugarneskirkju í Reykjavík og síðar við heimahjúkrun hjá Reykjavíkurborg. Hún og eiginmaður hennar Þorvaldur Halldórsson, sem söng m.a. lagið „Á sjó” við góðan orðstír, eru kristin vel og hafa unnið saman mjög óeigingjarnt starf í þágu kirkju og kristni.  Þau hafa m.a. leitt helgihald í Kolaportinu um helgar og þjónað í hinum rómuðu Tómasarmessum í Breiðholti.

Lagið varð þannig til hjá Margréti að hún hafði notað sálminn sem íhugunarefni á bænastund og allt í einu kom lagið til hennar, andinn kom yfir hana.  Þorvaldur söng það inn á plötu og síðan hefur það verið sungið oft og mörgum sinnum við útfarir en jafnvel líka við brúðkaup, söngvarar eins og Björgvin Halldórsson og Pál Rósinkrans hafa sungið lagið bæði inn á plötu og við ýmis tækifæri. Margrét leggur áherslu á það að henni hafi þótt vænt um það hvað lagið hafi átt sinn þátt í að stuðla að útbreiðslu sálmsins.

Skáldið Matthías Johannessen, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, er einn afkastamesti rithöfundur samtíðar okkar. Matthías orti út af sálmi 23 en ekki eins nákvæmlega og margir aðrir. Fjórða og síðasta erindið hljóðar svona:

„Ung voru augu þín, vitja
enn þeirra daga er snertir
vor hugsun við hugarveröld
sem hvítnar af rísandi sól
syngjum þér, sólarhjörtur,
sífelldan klið af vori
er hnígur að veglausum vötnum
vængjaður skuggi og nótt.”

„Augu þín” eru augu Davíðs. Í kvæðinu er mikil sólríkja, sólin kemur oft fyrir.  Sólarhjörtur er Kristslíking. Í öðru erindi yrkir Matthías, „gengur með hörpu að grænum grundum og hvílist við sprota hirðis,” sem er ein skýrasta samfylgd við sálm 23 í ljóðinu.

Prófessor Gunnlaugur innti Matthías eftir merkingu ljóðsins og svaraði Matthías því án umhugsunar að þetta væri ástarjátning til konunnar hans Hönnu  Johannessen. Gunnlaugur leit svo á að svar skáldsins hafi ekki verið nein tæmandi lýsing enda hefur Matthías sagt að skáldskapur geri ekki ráð fyrir rökum og að hann krefjist ekki útskýringa.

Og að lokum komum við að einni af fjölmörgum þeim kvikmyndum þar sem sálmurinn er fyrirferðarmikill.  Kvikmyndin sú ber titilinn Liberty Heights, er frá árinu 1999, og eftir kvikmyndaleikstjórann Barry Levinsson sem gerði myndir á borð við Rain Man og Good Morning Vietnam. Liberty Heights gerist í gyðingaúthverfinu Liberty Heights í Baltimore haustið 1954 og lýsir gyðingaandúð og fordómum í garð blökkufólks.

Bekkjarsystkin á unglingsaldri verða ástfangin, hann gyðingur, hún svört á hörund. Meginefni myndarinnar er samspil ólíkra kynþátta og tilraunir til að brjóta niður múra og fordóma þeirra á milli.  Sálmur 23 er notaður með skemmtilegum hætti í myndinni þar sem farið er með hann þrisvar sinnum. Fyrst í skólastofu en sálmurinn hefur löngum verið hluti af morgunbænum bandarískra skóla. Þá fer gyðingadrengurinn einmitt að gjóa augum á blökkustúlkuna og tekur eftir því hversu innlifuð hún er þegar farið er með sálminn.

Á einum stað í myndinni eiga þau samræður um sálminn í strætisvagni, stúlkan spyr þar piltinn hvaða merkingu sálmurinn hafi fyrir hann sem Gyðing, hann segir sálminn vera fyrir sér sem þjóðsöngur. Kvikmyndin Liberty Heights er skýr vitnisburður um sterka stöðu sálms 23 í bandarísku þjóðlífi.

Hér hefur verið stiklað á stóru og áhrifasaga 23. Davíðssálms kynnt í fáeinum dæmum.  Í guðfræðilegri niðurstöðu um sálminn segir Gunnlaugur, minn gamli kennari, m.a.

„Sálmurinn hefur reynst mörgum huggun á erfiðum sorgarstundum og ekki síst í tengslum við dauða. Þar ræður miklu afar áhrifamikil þýðing á einu af lykilversum sálmsins þar sem rætt er um „dauðans skugga dal”. En enn meiru skiptir fyrirheitið sem kemur í kjölfarið „því að ég er með þér.” Hér hljómar kröftuglegar og í áhrifameira samhengi en annars staðar í Biblíunni það fyrirheit sem þó svo víða er gefið á lykilstöðum í þeirri sögu sem hin helga bók hefur að geyma: „Ég mun vera með þér.” Þarna er um sannkallað fagnaðarerindi að ræða.”