Mývetningar bæta Fjöreggi í landsþekkt eggjasafn sitt

0
281

Löng hefð er fyrir notkun fuglseggja einkum andareggja í Mývatnssveit. Rekja má sjálfbæra nýtingu á eggjum til matar jafnt ferskum sem úldnum eða kæstum allt frá landnámsöld. Þann 27. febrúar bættu heimamenn svo enn í eggjasafn sitt þegar stofnað var félag sem hlotið hefur nafnið Fjöregg, félag um náttúruvernd og heilbrigt samfélag í Mývatnssveit.

Andarhreiður. Mynd: Ólafur Þröstur Stefánsson
Andarhreiður. Mynd: Ólafur Þröstur Stefánsson

Markmið félagsins er verndun náttúru og umhverfis Mývatnssveitar. Sjálfbær umgengni sem byggir á öflugri umhverfisvitund, þekkingu og verndarvilja. Markmiðum sínum hyggst félagið ná með því að stuðla að fræðslu um náttúruvernd, sjálfbærni og heilbrigt samfélag, vinna að umhverfisumbótum á svæðinu, fylgjast með hvers konar vá sem náttúrunni er búin af mannlegum inngripum og vekja athygli á henni. Auk þess er markmið félagsins að hvetja fólk og fyrirtæki til umhverfisvænna lífshátta og starfsemi og vera vettvangur fyrir umræðu og ályktanir um náttúruverndarmál.

Aðild að félaginu er með tvennum hætti.  Annarsvegar félagar með lögheimili eða eignarhald á jörð í Skútustaðahreppi og hinsvegar hollvinir óháð búsetu. Hægt er að skrá sig í félagið með tölvupósti á netfangið fjoregg@gmail.com eða með því að senda bréf á heimilisfangið: Fjöregg, pósthólf 4079 – 660 Mývatnssveit. Við skráningu þarf að koma fram nafn, kennitala, heimilisfang, netfang og sími.

Fyrsti aðalfundur félagsins er ákveðin 27. mars og sömuleiðis eru fyrirhugaðir fræðslufundir nú á vormánuðum um frárennslismál, sorphirðumál og fyrirhugaða jarðvarmavirkjun í Bjarnarflagi, en þetta eru þau málefni sem mest brenna á þeim sem staðið hafa að undirbúningi og stofnun félagsins.

Það er von þeirra sem standa að stofnun félagsins að hér sé komin vettvangur til að hlúa að því fjöreggi sem íbúum og gestum Mývatnssveitar er falið að gæta og koma því óskemmdu áfram í hendurnar á komandi kynslóðum.
Fundurinn fór hið besta fram. Fjölmenni var.
Undirbúningshópurinn.