Mývetningar á HM í handbolta

0
380

Eins og alþjóð veit stendur heimsmeistarakeppnin í handbolta núna yfir í Frakklandi. Í borginni Metz fer riðillinn sem Ísland keppir í fram, en um 2-300 Íslendingar hafa hvatt Íslenska landsliðið áfram og þar á meðal eru fimm Mývetningar. 641.is náði tali af Jóhönnu Jóhannesdóttur sem er ein af Mývetningunum í gær, sem gerðu sér sérstaka ferð til Frakklands gagngert til þess að fylgjast með keppninni og hvetja liðið til dáða.

Gunnhildur Stefánsdóttir, Jóhanna Jóhannesdóttir, Jóna Ósk Antonsdóttir, Daníel Ellertsson og Guðjón Vésteinsson.

Við vorum fimm Mývetningar hér um helgina en Gunnhildur Stefánsdóttir kom með hópi Íslendinga yfir helgina og fór svo heim aftur í gær, en ég, Jóna Ósk Antonsdóttir, Daníel Ellertsson og Guðjón Vésteinsson fylgjum liðinu út riðilinn. Við förum heim 20.janúar til að ná þorrablótinu í Mývatnssveit 21.janúar, þannig að við fylgjum liðinu ekki áfram í undanúrslit komist það þangað. Við fylgjumst með leiknum við Angóla í kvöld og endum á leiknum við Makedóníu á fimmtudaginn. “Vonum að það verði nú fleiri Íslendingar með í stúkunni en við munum láta vel í okkur heyra”, sagði Jóhanna í spjalli við 641.is í dag.

Í gær skrapp hópurinn til Parísar að fylgjast með leik Danmerkur og Svíþjóðar, en Ísland átti ekki leik í gær.

Fleiri Þingeyingar voru um helgina að hvetja Íslenska landsliðið, en hópur Húsvíkinga sem hvöttu landsliðið til dáða ásamt Mývetningum, fóru heim í gær.

Gunnhildur Stefánsdóttir, Eyja Elísabet Einarsdóttir, Sigmundur Hreiðarsson, Sigurður Illugason, Bjarni Gunnarsson og Ása Brina Ísfjörð
Eyja Elisabet Einarsdóttir, Guðni TH Jóhannesson forseti Íslands og Gunnhildur Stefánsdóttir