Mývatn komið á rauðan lista

0
58

Verndarsvæði Mývatns og Laxár er komið á rauðan lista Umhverfisstofnunar yfir svæði sem eru undir svo miklu álagi að talið er að bregðast þurfi strax við. Sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun segir að ekki komi til þess að svæðinu verði lokað fyrir ferðamönnum. ruv.is segir frá þessu.

logo_shadow

Umhverfisstofnun hefur eftirlit með fjölmörgum friðlýstum svæðum. Á undanförnum árum hafa viðkvæmustu svæðin verið sett á svokallaðan rauðan lista.

Þau eru undir svo miklu álagi að Umhverfisstofnun telur að bregðast þurfi strax við. Verndarsvæði Mývatns og Laxár hefur nú verið flutt af appelsínugulum lista yfir á þann rauða.

Ólafur A. Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir:  „Við höfum sérstakar áhyggjur af lífríki vatnsins og þá ber hæst að nefna ástand kúluskítsins í vatninu. Hann er að hverfa smám saman og þetta er friðlýst tegund og ef hann er að hverfa þá er hann að verða útdauður”.

Þá hafa menn áhyggjur af ágangi ferðamanna en ástandið er sérstaklega slæmt við Skútustaðagíga og í Dimmuborgum.

„Núna undanfarin ár höfum við fengið aukið fjármagn til þess að bregðast við þessum svæðum sem eru í þessari neikvæðu þróun og þess vegna munum við bara standa undir ákveðnum úrbótum og framkvæmdum á þessum svæðum og auka eftirlit”.

Ólafur telur þó ekki að loka þurfi þessum svæðum.   ruv.is