Moltugerð í Stórutjarnaskóla

0
353

Ákall til náttúrunnar
eftir Þórörnu og Siggu

Ég trúi á heilaga moltu,
heilaga almenna sorpu,
samfélag ruslakalla,
fyrirgefningu misflokkunar,
upprisu moldu
og eilífa rotnun.

Þetta sömdu tveir nemendur í Stórutjarnaskóla veturinn 2009 – 2010 en þá upphófst flokkun á matarúrgangi í skólanum. Ákveðið var að skipta honum í tvo flokka, annarsvegar að safna öllu úr jurtaríkinu og setja í moltugerð en kjöt, fiskur og fleira færi í hænsna- og hundafóður. Þetta hefur gengið vel undir stjórn og skipulagninu Heiðu matráðar en hún sér um að nemendur skiptast á um að tæma dalla úr eldhúsi út í Jóhönnu, moltutunnu.

Moltugerð. Mynd: Jónas Reynir Helgason
Moltugerð. Mynd: Jónas Reynir Helgason

Eftir tveggja ára söfnun var keypt önnur Jóhanna og nú sex árum síðar erum við komin með grunn að góðri mold úr því sem fyrst safnaðist. Þetta ferli hefur ekki verið alveg einfalt, stundum hefur fólk þurft að leggja höfuð í bleyti til að finna góðar lausnir en fyrir tveimur árum var gripið til þess ráðs að safna úr tunnunum í stórt fiskiker. Elstu nemendur skólans voru svo lánsamir að fá það hlutverk sem þeir framkæmdu af stakri prýði undir verkstjórn Þórhalls umsjónarkennara þeirra. Áfram safnaðist og enn þurfti að finna lausnir því ekki hugnaðist fólki að fjölga tunnum í langar raðir. Aftur voru elstu nemendur kallaðir til en nú undir verkstjórn Nönnu smíðakennara m.m. sem sá til að smíðaður var hörku fínn safnkassi með öllum þeim eiginleikum sem til þurfti. Í gær, 26. nóvember var svo ráðist til atlögu í annað sinn við að færa moltuefni úr tunnum og í nýsmíðaðan safnkassann. Að þessu sinni voru það nemendur Sigrúnar í útiskólanum sem fengu það hlutverk að brjóta niður greinar sem áður hafði verið safnað eftir grisjun við skólann og voru greinarnar látnar þekja vel botninn í kassanum. Verkstjórar voru Nanna og Friðrik húsvörður, enda þurfti alvöru tæki til verksins.

Nemendur voru ekki allir jafn miklir jaxlar þegar kom að því að afhjúpa herlegheitin, sumum lá við uppköstum á meðan aðrir létu sér hvergi bregða. Jafnframt því að yfirfæra moltuefnið settu nemendur viðbótar sag saman við, en til að vel takist til við moltugerð þarf að sjá til þess að nóg sé af stoðefnum sem auðvelda uppbrot og auðvelda súrefnisflæði.

Svona er hringrás náttúrunnar og segja má að þarna sé Stórutjarnaskóli að leggja sitt af mörkum við minnkun gróðurhúsalofttegunda en einnig eru árlega gróðursettar nokkrar trjáplöntur. Enn á eftir að finna þessari góðu moltumold verðskuldað hlutverk og aldrei að vita nema efnt verði til hugmyndasamkeppni í fyllingu tímans.

Moltugerð í Stórutjarnaskóla er sannkallað samstarfsverkefni starfsfólks og nemenda og nú í vetur stendur til að fara í verkefni sem snýst um matarsóun.

Fleiri myndir má skoða hér