Möguleg lækkun vaxta um 30 punkta rædd á aðalfundi Sparisjóðs Suður-Þingeyinga

Verði gjaldtöku til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta hætt

0
266

Aðalfundur Sparisjóðs Suður-Þingeyinga ses var haldinn í Skjólbrekku 11. apríl sl.

Sparisjóðurinn hefur eflst á undanförnum árum og nam efnahagsreikningur í árslok 2018 8.864 milljónum. Góður árangur var af rekstri sparisjóðsins á liðnu ári og nam hagnaður af reglulegri starfsemi fyrir skatta um 99 milljónum og tekjur vegna slita Tryggingarsjóðs sparisjóða reyndust 94 milljónir.  Bókfærður hagnaður sparisjóðsins eftir skatta er því 153 milljónir, sem er besta afkoma sjóðsins frá upphafi.

Fram kom á fundinum að vaxandi áhugi virðist í þjóðfélaginu fyrir rekstri þjónustustofnana á félagslegum grunni sem gæti gefið sparisjóðunum aukið vægi.  Niðurstaða stjórnskipaðrar nefndar um mögulegar lausnir á húsnæðisvanda er skýrt dæmi þar um, en nefndin lagði áherslu á mikilvægi byggingar- og leigufélaga sem ekki eru hagnaðardrifin.

Í skýrslu stjórnar kom fram að sparisjóðurinn glímir við stöðugt hækkandi eiginfjárkröfur sem setja vexti og umsvifum sjóðsins þröngar skorður. Kostnaður þessa vegna og einnig hárra opinberra gjalda er mjög íþyngjand og lendir að lokum á viðskiptavinum sparisjóðsins. Nú liggur fyrir Alþingi lagafrumvarp um lækkun iðgjalda til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Að mati stjórnar sparisjóðsins er tryggingarsjóður þegar offjármagnaður og ekki þörf á frekari innheimtu næstu ár. Var á aðalfundinum kynnt svohljóðandi samþykkt stjórnar sparisjóðsins frá 26. mars sl:

Verði gjaldtöku til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta hætt mun Sparisjóður Suður-Þingeyinga ses lækka útlánavexti allra útlána sjóðsins um 30 punkta.

Greinargerð:

Í umræðu síðustu mánaða um orsakir vaxtakostnaðar hefur komið fram að ekki sé sjálfgefið að lækkun gjalda á fjármálafyrirtæki skili sé í lægri vaxtakostnaði. Í því ljósi er ofangreind yfirlýsing gefin.

Alþingi mun á yfirstandandi þingi fjalla um breytingar á gjaldtöku  til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.  Að mati stjórnar Tryggingarsjóðs í ársbyrjun 2018 voru  sterk  rök fyrir að sjóðurinn hefði þá þegar náð hæfilegri stærð. Taldi stjórn sjóðsins að skoða þyrfti vel þörf fyrir áframhaldandi gjaldtöku. Á árinu 2018 hefur stærð sjóðsins aukist verulega umfram vöxt tryggðar innstæðna milli áranna 2017 og 2018. Því virðast full rök fyrir að hætta a.m.k tímabundið frekari innheimtu til sjóðsins. Gjaldtaka til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta er mjög  íþyngjandi fyrir fjármálafyrirtæki, ekki síst sparisjóðina, en greiðslur til Tryggingarsjóðs nema um 7% af rekstrarkostnaði þeirra.