Mjólkursöfnun gengur illa vegna veðurs og ófærðar

0
92

Að sögn Kristjáns Gunnarssonar hjá MS á Akureyri gengur mjólkursöfnun á svæði MS Akureyri illa. Tveir mjólkurbílar söfnuðu mjólk á bæjum í Aðaldal, Reykjahverfi og Tjörnesi í gær en komust ekki yfir Víkurskarðið í gær til losunar á Akureyri og bíða færis í Ljósavatnsskarði eftir því að Víkurskarð verði opnað. Víkurskarðið er ófært sem stendur og að sögn Kristjáns vonast menn til að það verði mokað í dag. Tómur mjólkurbíll er í Sveinbjarnargerði og bíður þess að geta sótt mjólk í Mývatnssveit og Reykjadal í dag.

Hrafn Sigurðsson mjólkurbílstjóri MS á Akureyri.
Hrafn Sigurðsson mjólkurbílstjóri MS á Akureyri.

Búast má við áframhaldandi ófærð víða um land í dag en spáð er norðan og norðvestanátt og snjókomu eða éljum norðantil á landinu. Mikill snjór er í Þingeyjarsýslu og enn óveður og var Kristján svartsýnn á að Víkurskarðið verði mokað í dag. Allir bændur á svæðinu hafa tankpláss til morguns og flestir til miðvikudags.

Ef ekki tekst að sækja mjólk í dag verður reynt að sækja hana á morgun, nýársdag.

 

Mjólkursöfnun í vetur hefur gengið illa vegna veðurs og ófærðar og eru mörg ár síðan jafn illa hefur gengið að safna saman mjólk á svæði MS Akureyri, að sögn Kristjáns Gunnarssonar.