Minningargjöf til Þorgeirskirkju

0
875

Kvenfélagi Ljósvetninga voru færðar höfðinglegar peningagjafir til minningar um tvær traustar kvenfélagskonur, þær Kristínu Sigurðardóttur og Ásdísi Jónsdóttur, sem létust báðar árið 2015. Fljótlega var ákveðið að nota þessa peningagjöf til að gera eitthvað fyrir Þorgeirskirkju. Á fundi var ákveðið að kaupa útiljós til að lýsa upp aðkomuna að Þorgeirskirkju, sem hefur verið heldur dimm. Nú er framkvæmdin komin í gegn og hefur kvenfélagið gefið til Þorgeirskirkju sex litla ljósastaura sem eru hannaðir og smíðaðir af Raflömpum á Akureyri. Þetta er táknræn gjöf þar sem þessar konur lýstu upp tilveru okkar, á meðan þær lifðu og nú lýsir minning þeirra upp aðkomuna að Þorgeirskirkju. Blessuð er minning þeirra beggja.

Kristín Sigurðardóttir fæddist 27. maí 1937 á Ingjaldsstöðum. Þar var hún húsmóðir alla sína tíð og unni sér vel með útsýni yfir Goðafoss. Í minningarorðum sem Þórey Ketilsdóttir skrifaði stendur: “Stína var mörgum hæfileikum búin. Heimilið var afar gestkvæmt enda hjónin samhent og einkar gestrisin. Þar nutu menn bæði góðgerða listakokksins Stínu og húmorsins sem geislaði frá henni á sinn hægláta hátt” Stína var virk kvenfélagskona, ósérhlífin og formaður um skeið. “Stínu þótti vænt um kirkjuna og tók stolt þátt í að bera kirkjumuni inn í hina nýju Þorgeirskirkju við vígslu hennar árið 2000”
Kristín lést 17. janúar 2015.

Ásdís Jónsdóttir fæddist 8. nóvember 1937 á Granastöðum. Lengst af var Dísa húsmóðir í Hriflu, undi hag sínum vel og bjó sér og fjölskyldunni fallegt og hlýlegt heimili sem öllum þótti gott að heimsækja, enda var þar gestkvæmt og vel tekið á móti gestum og gangandi. Dísa var dugleg að sækja sína kirkju og sinnti henni af alúð. Margrét S. Snorradóttir ritar minningarorð: “Dísa var glaðlynd og mikil félagsvera og tók alla tíð virkan þátt í starfi Kvenfélags Ljósvetnigna. Hún starfaði í stjórn félagsins um árabil og var dugleg að mæta á fundi og lét sig ekki vanta á samkomur og í ferðalög á vegum kvenfélagsins. Dísa hafði góða nærveru og sérstakt lag á að láta öðrum líða vel í kringum sig”
Ásdís lést 5. ágúst 2015.