Mikil umferð um Vaðlaheiðargöng – Örfáir keyra Víkurskarð

0
689

Eins og við var að búast hefur mikil umferð verið um Vaðlaheiðargöng síðan þau opnuðu kl 18.00 sl. föstudag. Samkvæmt myndavélum inni í göngum fóru 2.951 ökutæki í gegnum göngin fyrsta sólarhringinn. Alls fóru 1.562 ökutæki í austurátt og 1.389 í vesturátt. Skv. mælum á Víkurskarði fóru um 1050 ökurtæki yfir Víkurskarðið daginn áður en göngin opnuðu. Líklega má skýra mikla umferð um göngin að hluta til með því að fólk hafi verði að svala forvitni sinni og prufukeyra göngin, auk þess að frítt er í þau.

Umferð um Víkurskarð frá því að Vaðlaheiðargöng opnuðu. Skjáskot af vef Vegagerðarinnar. Smella á mynd til að skoða stærri útgáfu

Á sama tíma og Vaðlaheiðargöng opnuðu hefur umferð um Víkurskarð dottið niður í næstum ekkert eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan. Á myndinni má sjá að í gær laugardag, fóru í kringum 50 ökutæki um Víkurskarð og það sem af er degi hafa 25 ökutæki farið um Víkurskarð.

Gjaldtaka um Vaðlaheiðargöng hefst 2. janúar 2019 og eflaust má skýra mikinn áhuga á akstri um göngin núna með því að frítt er í Vaðlaheiðargöng. Hins vegar hefur Víkurskarðið verið greiðfært öllum ökutækjum frá því Vaðlaheiðargöng opnuðu og því ekki verið sá farartálmi sem Víkurskarðið getur stundum verið.

Óhætt er að segja að mjög áhugavert verði að fylgjast með því hvaða breytingar verða á umferð um Víkurskarð frá og með 2. janúar þegar gjaldtaka hefst í Vaðlaheiðargöngum.