Mikið tjón á raftækjum vegna rafmagnstruflanna

0
189

Fjölmörg heimili í Þingeyjarsýslu urðu fyrir tjóni á heimilistækjum vegna rafmagnstruflanna upp úr hádegi sl. laugardag. Rafmagnið fór amk. tvisvar af á laugardaginn og varð fólk greinilega vart við að ekki var allt með felldu þegar rafmagnið sló út í seinna skiptið og virtist sem alltof há spenna kæmi á rafmagnið rétt áður en sló út. Það heyrðis í sumum raftækjum óeðlilegur hávaði og ljós urðu óvenju sterk rétt áður en allt sló út.

Raflínurstaur réttur við í Víðikeri.
Mynd: Tryggvi Pálsson.

Rafmagnstruflanir af þessu tagi fara illa með raftæki og samkvæmt lauslegri könnun 641.is hefur tilfinnanlegt tjón orðið á mörgum heimilum og fyrirtækjum víðs vegar um Þingeyjarsýslu. Líklega hleypur tjónið á milljónum króna alls.

 

 

Í Stórutjarnaskóla eyðilagðist stór þvottavél sem kostar nokkur hundruð þúsund krónur, símkerfið í skólanum bilaði og ýmislegt fleira gaf sig. Straumbreytar, tölvuskjáir, tölvur, uppþvottavélar, þvottavélar, helluborð, loftræsti viftur í fjósum, mjaltakerfi í amk. einu fjósi bilaði og rafmagnsstýringar fyrir hin ýmsu tæki og tól skemmdust eða eru hreinlega ónýt eftir rafmagnstruflanirnar.

Rúv hefur eftir Pétri Vopna Sigurðssyni hjá RARIK á Norðurlandi að sé ekki komið í ljós hversu mikið tjón varð en ljóst að það sé töluvert. Til dæmis skemmdust dýr vinnslutæki hjá Útgerðarfélagi Akureyringa á Laugum í Reykjadal – sum eru ónýt. Þar er engin vinnsla í dag vegna þessa. Pétur Vopni segir að íbúar verði að koma tjónakröfum á skrifstofu RARIK á Akureyri, fylgja verði staðfesting frá löggildum rafverktaka á tjóni tækjanna.

Pétur Ísleifsson, er verkstjóri hjá Útgerðarfélagi Akureyringa á Laugum í Reykjadal. „Rafmagnið fór af í tvígang hjá okkur og svo þegar það kom tilbaka þá bara rauk spennan upp úr öllu valdi og stórskemmdi eða skemmdi fullt af tækjum; mjúkræsibúnað, tölvu og bara allskonar dót sem fór hérna. Við getum ekkert unnið í dag og við erum með svokallaðan færibandaklefa sem við þurrkum bein og annan fisk hérna. Þar þurrkum við 100 tonn á viku og hann verður alveg úti þessa vikuna held ég.“

Pétur telur að tjónið hjá þeim hlaupi á milljónum króna. Venjulega eru um 200 tonn unnin á Laugum í hverri viku, en nú liggur helmingur vinnslunnar alveg niðri. Og fleiri hafa orðið fyrir tjóni.  „Ég hef frétt að það kviknaði í einhverjum þvottvélum, dvd-spilurum, Bensíndælur fóru út og tölvur. Ég held það sé mjög víða sem eitthvað hefur gefið sig.“

Samkvæmt upplýsingum frá Rarik er málið í skoðum og getur fólk komið tjónakröfum á skrifstofu Rarik á Akureyri.