Nú er hafin vinna við gerð skólastefnu fyrir Þingeyjarsveit. Liður í þeirri vinnu eru hugarflugsfundir með nemendum, foreldrum og starfsfólki skólanna í sveitarfélaginu. Í byrjun vikunar voru haldnir hugarflugsfundir í Stórutjarnaskóla og í Þingeyjarskóla. Arnór Benónýsson og Ingvar Sigurgeirsson stýrðu fundunum og var Arnór mjög sáttur með hugarflugsfundina. “Á þeim öllum var unnið gífurlega vel og ég sit eftir með mikið efni til úrvinnslu”, sagði Arnór Benónýsson í samtali við 641.is í gær.

“Það kom margt áhugavert fram og við gerum okkur betur grein fyrir stöðunni eins og hún er núna. Eins er ljóst að það eru marvíslegar hugmyndir um framtíðina. Ég á þó eftir að vinna úr þessu og fá gleggri mynd af efninu”, sagði Arnór ennfremur.

Arnór vildi koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem tóku þátt í þessari vinnu og hann vonar að allir verði virkir í framhaldinu. Arnór hvetur íbúa til þess að senda inn tillögur í tölvupósti til sín, en hann hefur þegar nokkrar ábendingar í gegnum netfangið sitt. Þær mega gjarnan vera fleiri.
Netfang Arnórs er: arnor@thingeyjarveit.is