Miðasala hófst á Tónkvísl 2018 í dag – Æfingar hafnar með keppendum

0
312

Miðasala á Tónkvíslina 2018, söngkeppni Framhaldsskólans á Laugum, hófst á hádegi í dag og fer fram rafrænt á miðasöluvefnum tix.is. Þar er hægt að borga með greiðslukorti eða í gengum smáforritin Aur og Kass. Söngvarinn og leikarinn Helgi Björns, verður sérstaktur gestur Tónkvíslarinnar í ár og standa æfingar yfir af fullum krafti fyrir einn af flottari menningarviðburðum Norðurlands.

Hljómsveit Tónkvíslarinnar, sem mun kynna nafnið sitt inn á Snapchat aðgangi keppninnar núna á sunnudaginn, hefur verið að æfa stíft en seinustu helgi fóru fram fyrstu æfingar keppenda fyrir Tónkvíslina og gengu þær einstaklega vel. Þökk sé því hversu seint Tónkvíslin verður í ár hafa keppendur, hljómsveitarmeðlimir og tónlistarstjóri fengið góðan tíma til að undirbúa flott show. Tónlistarstjóri Tónkvíslarinnar, Guðjón Jónsson, stýrði þessari fyrstu æfingarhelgi Tónkvíslarinnar.

“Af því sem ég sá seinustu helgi hafa þessir einstaklingar verið að nýta undirbúningstímann mjög vel. Annar undirbúningur hefur þá líka gengið mjög vel og fólk svo sannarlega komið í gírinn, enda aðeins tvær og hálf vika til stefnu” sagði Gabríel Ingimarsson framkvæmdastjóri Tónkvíslarinnar 2018 í spjalli við 641.is í dag.

Það skal tekið fram að hægt er að nota sömu aðferð við miðakaup á Tónkvíslina og hefur verið seinustu ár, þ.e. að senda tölvupóst á tonkvislin@laugar.is og fá leiðbeiningar um hvernig sé hægt að nálgast miðann í pósti til baka. Miðinn kostar 3.000 kr. í forsölu.

Tónkvílsin 2018 fer fram í íþróttahúsinu á Laugum laugardaginn 17. mars og verður viðburðinum sjónvarpað beint á sjónvarpssöðinni N4.