Metþáttaka í Tónkvísl 2018 – Sérstök undankeppni í febrúar

Aðalkeppnin verður í beinni sjóvarpsútsendingu á N4

0
636

31 söngatriði eru skráð fyrir Tónkvíslina 2018, söngvakeppni Framhaldsskólans á Laugum, sem fram fer í íþróttahúsinu á Laugum laugardagskvöldið 17. mars. Að sögn Gabríels Ingimarssonar framkvæmdastjóra Tónkvíslarinnar 2018 hafa aldrei áður verið svona mörg söngatriði skráð til leiks.

“Í fyrra voru 21 söngatriði með í Tónkvísl og 17 árið 2016, þannig að þetta er algjört met í ár. Það verður því haldin sérstök undankeppni í fyrsta sinn í sögu Tónkvíslarinnar fyrstu helgina í febrúar, þar sem valin verða 20 bestu atriðin sem komast í aðalkeppnina þann 17. mars”, sagði Gabríel í spjalli við 641.is.

Að sögn Gabríels mun undankeppnin fara þannig fram að flytjendur munu syngja sín lög á Laugum og verður upptöku af því komið til sérstakrar dómnefndar, sem velur síðan 20 bestu lögin fyrir aðalkeppnina.

14 söngatriðið koma frá nemendum Framhaldsskólans á Laugum, en 17 söngatriði frá grunnskólum í nágrenninu. Mörg söngatriði koma frá nemendum Borgarhólsskóla á Húsavík, en einnig verða keppendur frá Öxarfjarðarskóla, Stórutjarnaskóla og Þingeyjarskóla með í Tónkvíslinni í ár.

Gabríel vildi ekkert tjá sig um hver yrði gestur Tónkvíslarinnar í ár, en í gegnum tíðina hafa landsþekktir söngvarar skemmt áhorfendum, eins og Jón Jónsson, Friðrik Dór, Eyþór Ingi og Herbert Guðmundsson svo að einhverjir séu nefndir.

Tónkvísl 2018 verður í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni N4, líkt og í fyrra og geta því allir landsmenn fylgst með þessari tónlistarveislu sem nú er haldin í 13. skiptið.

Hér fyrir neðan má sjá siguratriðið frá Tónkvísl 2017.