Meira um Grímsstaði og Kárhól – Eru vanskil á ársreikningum og kennitöluflakk í lagi?

0
140

Það kom heldur betur vel á vondann, að GáF ehf skilaði ársreikning sínum fyrir árið 2012 þann 21 nóvember s.l. og var það sama dag og Skarpur kom út í þar síðustu viku með grein minni þar sem vanskil ársreikningsins var gagnrýnd. Í lögum um ársreikninga stendur: Skilafrestur á ársreikningi er eigi síðar en einum mánuði eftir samþykkt hans en þó eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs. Er því reikningur GáF tæpum 3 mánuðum á eftir áætlun. Slíkt mun þó ekki vera óalgengt.

Guðmundur Vilhjálmsson
Guðmundur Vilhjálmsson

Hinsvegar er það óalgengt að hægt sé að rekja vanskil rekstaraðila tæpan áratug aftur í tímann. Ég mun hér gera frekari grein fyrir því hvað ég á við og færa rök fyrir máli mínu. Athuga skal það að ég vitna í gögn sem eru opinber úr fyrirtækjaskrá og hver og einn getur séð ef hann kærir sig um.

Hvað fullyrðingar mínar um ársreikningaskil fyrirtækja Halldórs Jóhannssonar varðar, þá skilaði fyrirtækið Teikn á Lofti ehf síðast ársreikning 31 mars 2006 og var sá reikningur fyrir árið 2004, þá var Teikn á Lofti í rekstri undir þessu nafni og kennitölunni 650297-2379.

Það fyrirtæki var úrskurðað gjaldþrota 6 ágúst 2010. Við rekstrinum tók fyrirtækið Emem ehf sem síðar var skírt Teikn á Lofti, ráðgjöf og hönnun ehf kt:691206-4400. Það fyrirtæki var síðan lýst gjaldþrota ári síðar, eða 5 ágúst 2011, en leyst úr gjaldþroti 8 feb 2012 eftir að hafa m.a. fengið endurálagningu opinberra gjalda í kjölfar skila á ársreikningum, þann 3 mars 2011 fyrir árin 2006-2007 og 2008. Síðan hefur fyrirtækið ekki skilað árreikning.

Ég hef undir höndum ársreikning 2008 sem var núllreikningur, enda var fyrirtækið ekki í rekstri og hafði aldrei verið. Það einfaldlega beið eftir að taka við þegar eldri kennitalan dygði ekki lengur. Teikn á Lofti hið síðara fékk VSK númer 01 júlí 2009. Þá virðist þessi kennitala hafa tekið við rekstri teiknistofunnar og hefur því teiknistofan ekki skilað ársreikning af rekstri frá árinu 2004 rekin á tveimur kennitölum og að hluta áður undir kennitölu Inter-map á Íslandi ehf sem varð gjaldþrota 19.04.2005.

Norðurslóðagáttin tók síðan við hluta af rekstri árið 2010. Fyrirtækið skiptir um nafn 09.04.2010 og fær þá nafnið Norðurslóðagáttin. Hinsvegar er síðasti innskilaði ársreikningur 2010 á núlli, með eigið fé neikvætt upp á tæpar 3 milljónir. Ársreikninginn fékk ég strax og honum var skilað, en hann er ekki lengur aðgengilegur í fyrirtækjaskrá einhverra hluta vegna.

Ég var á dögunum spurður að því hvernig það geti verið að fyrirtæki Halldórs Jóhannssonar hafi unnið skipulagsvinnu fyrir Langanesbyggð löngu eftir að hann var kominn með þessi mál í óefni. Því get ég ekki svarað. Ég margbenti stjórnendum Langanesbyggðar á þetta atriði, en þeir kærðu sig kollótta, gerðu lítið úr athugasemdum og hreinlega hundsuðu að gera áreiðanleikakönnun á bæði Halldóri sjálfum og fyrirtækjum hans. Á þessum tíma var fyrirtæki Halldórs, Teikn á Lofti hið fyrra, löngu komið út fyrir þann ramma að teljast hæft til opinberra viðskipta, gögn um kröfulýsingar í þrotabúið sanna það. Þegar hið fyrra fór í þrot, fóru greiðslurnar inn á hið síðara, án þess að gerður væri nýr verksamningur, eða sveitarstjórnarmönnum gerð grein fyrir breytinguna. Var það að sama skapi vanhæft, því það var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu sýslumannsins á Akureyri eins og ég nefni hér fyrr í greininni.

Rök sveitarstjóra, Gunnólfs Lárussonar og Halldórs sjálfs voru þau að fyrirtækin væru ekki skipulagsráðgjafarnir, heldur Halldór sjálfur persónulega. Þó var ekki gerð áreiðanleikakönnun eða hæfnisathugun á honum. Ég hef gögn í höndunum sem staðfesta það. Ljóst er að stjórnendur Langanesbyggðar brutu innkaupareglur sveitarfélagsins ef litið er til 16 gr þeirra, þar sem segir að ekki megi semja við fyrirtæki sem sætir gjaldþrotaskiptum, er í vanskilum með opinber gjöld eða lífeyrissjóðsiðgjöld.

Á sama tíma var jarðvinnuverktaki sem var að grafa úr götum fyrir lægri upphæð en skipulagsvinnan kostaði, látinn skila bæði ársreikning, kvittunum frá sýslumanni og yfirlýsingu um skuldleysi hjá lífeyrissjóðum til sveitarfélagsins til að sanna að hann stæðist hæfisviðmið sem sett eru í lögum um opinber innkaup og innkaupareglur sveitarfélagsins. Ekki mikið jafnræði þar. Þetta í raun ber sveitarfélögum að gera ef litið er tilsjónarmiða laganna um opinber innkaup og taka innkaupareglur sveitarfélaganna yfirleitt mið af þeim lögum. Með sama hætti hefði Þingeyjarsveit borið að gera það með tilliti til sömu laga, því fyrirtæki Þingeyjarsveitar teljast opinber samkv skilgreiningu laganna, eins er það með Atvinnuþróunarfélögin. Þetta á líka við um sveitarfélögin sem stóðu að GáF ehf í aðdraganda Grímsstaðaævintýrisins.

Atvinnuefling Þingeyjarsveitar og GáF ehf teljast t.d. opinber félög, því í lögnum segir í 3 gr:

,,Lög þessi taka til ríkis, sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra opinberra aðila, sbr. 2. mgr. Lögin taka einnig til samtaka sem þessir aðilar, einn eða fleiri, kunna að hafa með sér. Aðili telst opinber ef hann getur borið réttindi og skyldur að lögum og sérstaklega hefur verið stofnað til hans í því skyni að þjóna almannahagsmunum, enda reki hann ekki starfsemi sem jafnað verður til starfsemi einkaaðila, svo sem á sviði viðskipta eða iðnaðar“.

Einnig eru í lögunum tíunduð nokkur atriði svo sem að aðili telst opinber ef hann lýtur yfirstjórn ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila.

Kennitöluflakk er mikil meinsemd í Íslensku atvinnulífi. Kennitöluflakk gæti ekki þrifist ef aðilar eins og sveitarfélögin héldu vöku sinni og útilokuðu þá sem slíkt stunda frá opinberum innkaupum og bent skal á að opinberum aðilum er heimilt að kanna rekstarsögu stjórnenda fyrirtækja áður en viðskiptasamingar eru gerðir. Sveitarfélögin og önnur opinber fyrirtæki á þeirra vegum, geta ekki litið fram hjá eigin innkaupareglum og lögum um opinber innkaup. Ef það er gert, þá er það einfaldlega brot á lögum og reglum sem sveitarfélögunum og kjörnum fulltrúum þeirra ber að fara eftir. Sama gildir um atvinnuþróunarfélögin sem leiða má rök fyrir að séu í opinberri eigu, þó þar sé ekki um 100% eign opinberra aðila að ræða.

Með gjörningum sínum varðandi verkefnin um Grímsstaði og Kárhól, hafa sveitarfélögin sem að þeim standa og atvinnuþróunarfélögin gefið ráðdeildarsömum rekstaraðilum á svæðinu langt nef. Í frétt á Akureyri Vikublað gagnrýnir framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga umræðu um málið. Hann talar um sorglega og órökstudda gagnrýni á verkefnið og segir þar að viðskiptasaga hluta stofnaðila skipti ekki máli.

Við Reinhard vil ég segja, maður líttu þér nær…

Virðingarfyllst. Guðmundur Vilhjálmsson Lyngbrekku 13 Húsavík.