Með viljann að vopni

0
81

Róbert Wessman var í viðtali í Silfrinu á sunnudaginn síðasta. Þar ræddi hann um hinn svokallaða snjóhengjuvanda, það er eignir erlendra aðila í íslenskum krónum. Þessar eignir tilheyra þrotabúum föllnu bankanna og nema um 800 til 1000 milljörðum. Til viðbótar eru erlendar eignir þrotabúanna, allt að 2000 milljarðar. Til að kröfuhafarnir, eigendur þrotabúanna, geti komið þessum eignum í verð, verða þeir að semja við stjórnvöld á Íslandi um uppgjör búanna. Róbert telur að í þeim samningum eigi íslenska ríkið að taka við öllum innlendu eignunum gegn því að kröfuhafarnir haldi þeim erlendu.

Gílsi Sigurðsson
Gílsi Sigurðsson

Með þessu vinnst tvennt. Losað er um þann þrýsting sem þessar krónueignir sem vilja út úr landinu, setja á gengi krónunnar. Í öðru lagi fengi ríkið út úr þessu verulegt fjármagn sem hægt væri að verja til ýmissa hluta. Ljóst er að þessi vandi er raunverulegur og verður að leysa. Það er því erfitt að skilja það fólk sem talar eins og þarna sé um sjónhverfingar að ræða.

Í fast að fjögur ár hafa nokkrir stjórnmálamenn bent á þessa stöðu og talað um nauðsyn þess að ljúka þessu uppgjöri. Þeir hafa uppskorið hnútukast og hæðni, svo að sumir hafa jafnvel verið hraktir út úr stjórnmálum. Forystumenn eins flokks hafa þó staðið í lappirnar og haldið áfram baráttunni.

Og nú er svo komið, rétt fyrir kosningar, að flestir aðrir hafa hrakist til að viðurkenna að þeir hafi í raun rétt fyrir sér. Með semingi þó, og verður vart séð að þeir skilji allir raunverulega hvað um er að ræða. Enda hafa þeir nú tekið upp mikinn áróður fyrir því að ekki sé nokkurt vit í að fara þær leiðir sem þeir, sem upphaflega bentu á vandan vilja fara. En benda þó sjálfir ekki á neinar betri.

Samhliða lausn snjóhengjuvandans er hægt að leysa annan vanda sem stöðugt hefur farið vaxandi síðan um hrun. Það er skuldavandi þeirra sem tóku verðtryggð lán fyrir hrun og sitja nú uppi með skuldir sem eru allt að 55% hærri en það sem tekið var að láni, þrátt fyrir að vera í skilum. Og það á sama tíma og hagvöxtur hefur verið lítill sem enginn og neikvæður sum ár. Engin skynsemi er í því að láta fólk sitja uppi með þessi ofvöxnu lán sem það aldrei tók nema að hluta. Froðuskuldir sem hrunið bjó til. Þetta verður að leiðrétta. Þrjár íbúðir á dag hafa verið boðnar upp allar götur frá hruni. Þrjár á dag hvern einasta dag, og ekkert lát er á þessum uppboðum. Þessu verður að linna, það er einfaldlega allt of dýrt að halda svona áfram.

En þá segja sumir að rangt sé að leiðrétta lán þeirra sem mögulega geta borgað froðuna. Menn stilla jafnvel upp höfuðborg gegn landsbyggð í þessu sambandi, vegna þess að stærstu lánin hafi verið tekin í höfuðborginni. Þetta finnst mér fráleitt. Sama vísitalan hefur hækkað öll verðtryggð lán í sama hlutfalli og þau á að leiðrétta í sama hlutfalli líka. Það er búið að gera meira en nóg af því að handvelja þá sem fá leiðréttingar. Þegar neyðarlög voru sett til að bjarga innistæðum fjármagnseigenda, þá var einskis spurt. Ekki spurt hvort þú kæmist mögulega af án innistæðunnar. Ekki spurt hvar þú ættir heima. Ekki spurt hvort nágrannar þínir væru líka innistæðueigendur. Einfaldlega öllum innistæðum bjargað, orðalaust.

Ég legg til að við treystum þeim sem lengst hafa barist fyrir lausn þessara vandamála, til að leysa þau eftir kosningar. Ég sé ekki að aðrir séu betur til þess fallnir, eða líklegri til að ná ásættanlegum árangri. Þeir sem haft hafa fjögur ár til að leysa vandann en ekki gert, þeir hafa fengið sitt tækifæri, þeirra tími er liðinn. Og þeir sem hafa jafnvel hvorugan vandann séð eða viðurkennt þar til fyrir fáum dögum, af hverju ætti þeim að vera treystandi til að ganga í málið? Það er kominn tími til að hleypa þeim að sem lengst hafa bent á skuldavandann og snjóhengjuna, og leiðir til að leysa hvoru tveggja. Það verður að leysa þetta, það er hægt að leysa þetta, vilji er allt sem þarf.