Málverkið “Ungur Hrafn” vann Boldbrush keppnina

Sigríður Huld listakona úr Bárðardal vekur athygli erlendis

0
936

Málverkið Ungur Hrafn (Young Raven) eftir Sigríði Huld Ingvarsdóttur frá Hlíðskógum í Bárðardal vann alþjóðlegu Boldbrush málverkakeppnina nú nýlega en Boldbrush keppnin er mánaðarleg keppni þar sem fólk frá öllum heimshornum tekur þátt. Keppnin fer fram á netinu og yfirleitt eru í kringum 3000 verk sem taka þátt í hverjum mánuði. https://faso.com/boldbrush/

Ungur Hrafn komst einnig í úrslit í keppni sem er haldin einu sinni á ári, The ARC Salon, en þar keppa einnig listamenn frá öllum heimshornum. Þetta árið bárust yfir 4300 verk frá 73 löndum og um 1500 verk sem komust í úrslit þar á meðal Ungur Hrafn. Út frá þeirri keppni er gefin út bók með öllum þeim sem unnu og komust í úrslit og um 100 verk verða valinn til að vera á sýningu sem opnar í Barcelona og fer svo til New York en það er ekki búið að velja inn á sýninguna. “Ég krosslegg fingur og vona að Hrafninn minn verði valinn” sagði Sigríður Huld í spjalli við 641.is í dag.

The ARC (The Art Renewal Center) eru samtök sem vinna að því að endurreisa raunsæismyndlist (realism) til dæmis styðja við bakið á listaskólum sem kenna aðferðafræði raunsæislistar en það eru skólar (atelier skólar svokallaðir) sem hafa almennt ekki fengið viðurkenningu. Hér má fræðast meira um það.

“Að vinna til verðlauna eða bara komast í úrslit í svona keppnum er fyrst og fremst viðurkenning fyrir mig og eykur sjálfstraut mitt sem listamaður. Í þessum keppnum, þá sérstaklega The ARC Salon, hafa listamenn sem ég lít mjög upp til unnið og það að vera valin meðal þeirra er alveg frábær tilfinning. Hvað gerist svo í framhaldinu veit ég ekki. Ég mun bara halda áfram að skapa og vinna verk eftir minni sannfæringu og því sem veitir mér innblástur og hlakka til að sjá hvað gerist í framtíðinni. Þetta er auðvitað einnig mjög góð auglýsing og reyni ég að nýta mér það eftir bestu getu”, sagði Sigríður Huld Ingvarsdóttir í spjalli við 641.is í dag.

Sigríður Huld hefur þegar haldið nokkrar sýningar hér á landi og í Svíþjóð, þar sem hún býr og á facebooksíðu hennar má skoða fleiri málverk eftir hana.

“Eyjan” – Sigríður Huld Ingvarsdóttir
“Heimkoman” Sigríður Huld Ingvarsdóttir
“Við bíðum” Sigríður Huld Ingvarsdóttir