Ljósleiðaravæðing Þingeyjarsveitar – Beðið eftir stefnumótun Alþingis

0
96

Á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar 26. mars s.l. var samþykkt að ráða Snorra Guðjón Sigurðsson verkefnastjóra vegna ljósleiðararvæðingar Þingeyjarsveitar til að vinna útboðsgögn vegna hugsanlegrar ljósleiðaralagningar í sveitarfélaginu. Snorri Guðjón hefur nú lokið sinni vinnu og skilað útboðsgögnum með hnitsetningu á hugsanlegri lagnalínu vegna ljósleiðara á alla bæi í Þingeyjarsveit, til sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar.

Rör plægt niður fyrir ljóleiðarann. Mynd: Lárus Björnsson.
Rör plægt niður fyrir ljóleiðara í Mývantssveit. Mynd: Lárus Björnsson.

 

Í spjalli við 641.is sagði Snorri Guðjón að nú væri verkefnið í biðstöðu þar sem beðið væri eftir stefnumótun Alþingis um framkvæmd ljósleiðararvæðingu alls landsins, eins og forsætisráðherra hefði boðað um sl. áramót. Ekki þætti rétt að fara í útboð fyrr en stefnumótunin liggi fyrir.

Snorri sagði að hugsanleg línulögn á ljósleiðaranum hefði verið miðuð við vegi og heimreiðar á alla bæi í sveitarfélaginu til þess að geta gert sér betur grein fyrir umfangi verksins og heildarlengd á línulögninni. Ekki væri þó víst að í öllum tilfellum yrði lögnin sett meðfram vegum eða heimreiðum.

Taka þyrfti tillit til annarra lagna á hverjum stað fyrir sig og hugsanlegra annarra nýrra línulagna sem til stendur að leggja á næstunni til að hafa möguleika á að geta samnýtt þær, þegar hafist verður handa.

Stýrihópur vegna ljósleiðaravæðingar Þingeyjarsveitar var skipaður í júní og skipa þeir Árni Pétur Hilmarsson, Eiður Jónsson og Ari Teitsson hópinn. Samkvæmt heimilidum 641.is er það talið afar líklegt að ekki væri hægt að reikna með því að ríkið muni styrkja framkvæmdir eftir á vegna ljósleiðaralagningu sem sum sveitarfélög hafa ráðist í á undanförnum árum. Þess vegna væri eðlilegt að hinkra eftir stefnumótun frá Alþingi, sem vonast er til að liggi fyrir nú á haustþingi.

Nú þegar er búið að leggja ljósleiðara á alla bæi sem á annað borð vildu fá ljósleiðara til sín, í Skútustaðahreppi og Tjörneshreppi og ólíklegt verður því að teljast að ríkið muni styrkja þær framkvæmdir þar sem þeim er þegar lokið.