Ljósleiðaravæðing Þingeyjarsveitar – 150 heimili líklega tengd fyrir árslok

0
265

Fjarskiptasjóður opnaði sl. miðvikudag styrkumsóknir frá sveitarfélögum vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar þeirra á ljósleiðarakerfum árið 2016 í verkefninu Ísland ljóstengt.  Norðurþing og Þingeyjarsveit voru meðal þeirra sveitarfélaga sem sendu inn styrkumsókn til sjóðsins á Norðaustursvæði og eru umsóknir þeirra allra merktar með grænum lit, eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. Niðurstöðu opnunarfundar er að finna hér. Grænn litur gefur til kynna umsóknir sem líklegt er að hljóti styrk að uppfylltum skilyrðum. Frá þessu segir á vef Fjarskiptasjóðs.

Ljósleiðari skjal
Norðaustursvæði.

 

 

 

 

 

Þegar umsókn Þingeyjarsveitar er skoðuð nánar sést að hún miðast við nýlögn á ljósleiðarastreng inn fyrir húsvegg og hún nær til 150 tenginga (heimila) og er styrkupphæðin alls fyrir þessum 150 tengingum upp á 75 milljónir króna og þá að meðaltali 500.000 krónur á hverja tengingu (heimili) fyrir sig.

Á 188. fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar sem haldinn var 31. mars kemur fram að sótt hafi verið um styrk til Fjarskiptasjóðs og að drög að endanlegu útboði, kostnaðaráætlun og staðfesting um styrk frá ríkinu verða lögð fram til afgreiðslu á næsta sveitarstjórnarfundi. Í framhaldinu er svo reiknað með að auglýsa útboð.

Ísland ljóstengt er landsátak í uppbyggingu ljósleiðarakerfa í dreifbýli utan markaðssvæða. Markmiðið er að 99,9% þjóðarinnar eigi kost á 100 Mb/s þráðbundinni nettengingu árið 2020. Fjarskiptasjóður, fyrir hönd innanríkisráðuneytisins, hyggst styrkja sveitarfélög um samtals 450 milljónir króna vegna styrkhæfra framkvæmda á þeirra vegum árið 2016.

Á morgun 11. apríl mun Fjarskiptasjóður staðfesta umsóknirnar og ganga svo með formlegum hætti frá samningum við umrædd sveitarfélög á næstu dögum.

Fjarskiptasjóður. Mikilvægar dagsetningar í apríl.
11. apríl kl. 15:00: Formleg staðfesting á gildi umsókna og upphæðum sem standa einstaka sveitarfélögum til boða birt á vef fjarskiptasjóðs.
15. apríl kl. 15:00: Lokafrestur fyrir sveitarfélög til að skuldbinda sig til að þiggja styrkinn eða hafna honum.
22. apríl: Samningar frágengnir milli fjarskiptasjóðs og sveitarfélaga vegna styrkveitingar 2016.

Skipaður var starfshópur um ljósleiðaravæðingu Þingeyjarsveitar í fyrra og starfshópurinn hefur haldið marga fundi á þessu ári. Engar fundargerðir starfshóps um ljósleiðaravæðingu Þingeyjarsveitar er þó að finna á vef Þingeyjarsveitar.

Til stendur að halda íbúafund eða fundi, til að kynna stöðu ljósleiðaramála í Þingeyjarsveit, en dagsetning á þeim fundi eða fundum hefur ekki verið kynnt.

Norðurþing sótti um styrk fyrir 22 tengingar á sömu forsendum og Þingeyjarsveit og gera má ráð fyrir að um sé að ræða tengingar (heimili) í Reykjahverfi. 641.is hefur þó ekki fengið það staðfest.

Styrkumsóknir 2016
Allar styrkumsóknir fyrir árið 2016