Lifum heil

0
147

Um árabil hefur verið haldið æskulýðsmót í febrúar, samstarf safnaða á Norðausturlandi og Austurlandi og er komin góð reynsla á mótshaldið. Það eru æskulýðssamtök Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastdæmis, ÆSKEY og æskulýðssamtökin á Austurlandi, ÆSKA sem vinna saman að þessu góða verkefni.

Fyrirlestur Hjalta Jónssonar
Fyrirlestur Hjalta Jónssonar

 

Síðastliðna helgi 19.-21. febrúar var æskulýðsmót haldið í Valsárskóla á Svalbarðsströnd. Saman voru komin um 90 ungmenni og leiðtogar sem unnu saman að ýmsum verkefnum en yfirskrift mótsins var “Lifum heil”. Ungmennin hlýddu á fyrirlestur Hjalta Jónssonar sálfræðings við Verkmenntaskólann á Akureyri um andlega líðan og hvaða úrræði séu í boði til að takast á við það sem kann að koma upp í lífi ungs fólks í dag. Þar bar á góma kvíði og þunglyndi og hvaða leiðir eru til að fyrirbyggja og vinna úr.

 

Erindi Hjalta var mjög gott, skilaboð þess dýrmæt og mikilvæg og áheyrendur fengu að vita að það er hægt að takast á við allar aðstæður sem upp koma m.a. með samtali og með hugrænni atferlismeðferð sem var útskýrð fyrir hópnum.

Þá var unnið í ýmsum hópum að ólíkum verkefnum, tónlist, dans, bakstur, fjölmiðlar, Dj, og leikir. Unglingar að austan héldu í stutta ferð til Akureyrar til þess að rannsaka þar verslunargrundir á Glerártorgi.

Stefán Bogi og Embla Björk Jónsdóttir
Stefán Bogi og Embla Björk Jónsdóttir

 

Hin rómaða hæfileikakeppni “HÆNA” var haldin og að þessu sinni voru það þau Embla Björk Jónsdóttir úr Valsársskóla og Stefán Bogi Aðalssteinsson úr Þingeyjarskóla sem báru sigur úr býtum með laginu “Imagine” við íslenska þýðingu Þórarins Eldjárn.

Mótið endaði á æskulýðsguðsþjónustu í Svalbarðskirkju þar sem fyrrnefnt lag “Imagine” við íslenskan texta Þórarins, var flutt af hópnum úr tónlistarsmiðjunni með margvíslegum hljóðfærum undir handleiðslu Helgu Kvam og Ingva Rafns Ingvasonar sem eru tónlistarkennarar við tónlistarskóla Svalbarðsstrandar.

Flutningurinn var glæsilegur og ungmennin landi og þjóð til sóma.

Frá æskulýðsguðsþjónustu í Svalbarðskirkju
Frá æskulýðsguðsþjónustu í Svalbarðskirkju

Vindar blésu hressilega á heimfarardegi sem varð til þess að austanmenn nældu sér í aukadag en ófært var austur og margt var gert sér til dundurs og vel viðeigandi að ljúka ævintýrinu öllu á því að horfa saman á lokaþætti Ófærðar á stóru tjaldi í sal skólans.

Það er margt sem þarf að smella saman til að mót af þessu tagi gangi sem best og má þar nefna góða samvinnu leiðtoga sem að mótinu koma og svo þátttakenda sem gengu að verkefnum sínum með jákvæðu hugarfari.

 

Þess skal sömuleiðis geta að mótið var haldið með mjög góðum stuðningi skólastjórnenda Valsárskóla sem lánuðu skólann, Svalbarðsstrandarhrepps, Kjarnafæðis sem gaf rausnarlega til mótsins hamborgara, pylsur og álegg, Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófasdæmis sem styður við verkefnið með góðu fjárframlagi, Benedikts og Kristínar í Ártúni sem elduðu dásemdarmat ofan í þátttakendur og Björns Ingasonar húsvarðar skólans sem var mótsgestum innan handar allan tímann.

Bollo Pétur Bollasons og Sunna Dóra Möller
Bollo Pétur Bollasons og Sunna Dóra Möller

Það er mat okkar að æskulýðsmót sem þetta sé kirkjunni gríðarlega mikilvægt og skili miklum gæðum og gleði. Það að koma saman á þessum vettvangi, vinna með ungu fólki að uppbyggjandi verkefnum, koma þeim skilaboðum áleiðis að það sé merkilegt, hæfileikaríkt og dýrmætt sem og að það skipti máli innan kirkjunnar er sérdeilis sterkt veganesti og forvörn. Þarna finna þau að þau eru sem ein grein á þeim stofni sem kirkjan er og byggist á.

Við megum aldrei gleyma þessu mikilvægi og halda áfram að hlúa að. Það er ósk okkar sem stóðu að þessu móti að þetta samstarf haldi áfram að eflast og dafna og við hlökkum til að heimsækja Austurland að ári.

Sunna Dóra Möller og Bolli Pétur Bollason, Laufási.