Líf og fjör í gamla barnaskólanum Skógum

0
650

Mikið líf og fjör var í Gamla barnaskólanum Skógum laugardaginn 12. jan. sl. þegar fram fór formleg opnunarhátíð í Vaðlaheiðargöngum. Við skipulagningu var ákveðið að hafa opið hús í gamla barnaskólanum svo fólk hefði bækistöð austan ganganna. Heitt var á könnunni og boðið upp á hluta af þeim smákökum og kleinum sem konur í kvenfélögum Fnjóskdæla og Svalbarðastrandar bökuðu fyrir Vaðlaheiðargöng. Fólk kunni svo sannarlega að meta þetta því um 300 manns komu í Skóga á milli klukkan 12:00 – 17:00.

Mynd: Sigrún Jónsdóttir

Það var glatt og ánægt fólk sem kom gangandi, hjólandi eða akandi í Skóga. Í Skógum var búið að setja upp myndir og leggja fram efni safnsins, fræðsluefni og myndasafn. Af þessu tilefni voru sérstaklega prentaðar út og hafðar til sýnis myndir af eldri leiðum yfir Vaðlaheiðina, Þingmannaveginum og gömlu góðu beygjunum. Auk skólahúsnæðisins var opið í Bjarmasalinn en hann var byggður við skólann af ungmennafélaginu Bjarma árið 1937 og var nýttur fyrir leikfimi og hlaupaleiki í frímínútum á dögum skólans en einnig sem samkomusalur sveitarinnar. Í dag er salurinn í eigu jarðeigenda sem gerðu á honum góðar endurbætur í vetur. Á borðum voru steinmolar sem féllu til úr göngunum.

Mynd: Sigrún Jónsdóttir

Björgunarsveitin Súlur á Akureyri var á svæðinu og ferjaði fólk frá skólanum að metanstrætó í göngunum en einnig kom björgunarsveitin að góðu gagni þegar þurfti að kalla eftir viðbótar kökum frá Valsárskóla á Svalbarðsströnd. Sú sending barst hratt og örugglega með björgunarsveitinni.

Haft hefur verið á orði að ástæða væri til að loka göngunum fyrir umferð eins og einn dag á ári svo fólk geti notið þess að vera þar og stundað ýmiskonar list- og hreyfiviðburði.

Mynd: Sigrún Jónsdóttir

Texti og myndir: Sigrún Jónsdóttir