Lengi getur vont versnað

0
589

Mannaráðningar við Þingeyjarskóla hafa verið í brennidepli að undanförnu. Á ýmsu hefur gengið. Gerðir hafa verið starfslokasamningar við fráfarandi skólastjóra og kennara sem ekki var pláss fyrir við stofnunina nú þegar Þingeyjarskóli hefur starfsemi á einum stað næsta haust. Misjafnt er hve langir starfslokasamningarnir eru, en þeir eru frá fjórum upp í tólf mánuði í tilfellum kennaranna samkvæmt heimildum 641.is. Ekki fæst uppgefið hve langur starfsloksamningur fráfarandi skólastjóra er því sveitarstjóri Þingeyjarsveitar neitar að gefa það upp. Samkvæmt óstaðfestum heimildum 641.is er hann til 12 mánaða.

Hermann Aðalsteinsson ritstjóri 641.is
Hermann Aðalsteinsson ritstjóri 641.is

Lengi getur vont versnað.

En miðvikudaginn 27. maí gerast óvæntir hlutir. Þann dag var fráfarandi skólastjóri ráðinn til eins árs í 50% stjórnunarstöðu sem verkefnastjóri hjá Þingeyjarskóla og á samkvæmt heimildum 641.is, að vera teymisstjóri yfir 4-7. bekk, án kennsluskyldu. Hann á auk þess að vera staðgengill skólastjóra þegar hann er ekki við. Sama dag skrifaði aðstoðarskólastjóri við Litlulaugadeild Þingeyjarskóla undir starfslokasamning eftir að ýtt hafði verið mjög á hana að gera það og helst ekki seinna en á þeim degi.

Tilviljun ? Nei, það var engin tilviljun. Það var nefnilega tilkynnt um ráðningu fyrrverandi skólastjóra í þessa 50% stöðu þennan sama dag eftir hádegi á kennarafundi. Aðstoðarskólastjóri Litlulaugadeildar Þingeyjarskóla, með 30 ára flekklausan starfsferil hafði lýst yfir áhuga á einhverri stjórnunarstöðu við Þingeyjarskóla og einhverri kennslu líka, en fékk ekki. Það var alveg gengið framhjá henni sem er illskiljanlegt.

Þessi verkefnastjórastaða, sem er í raun ígildi aðstoðarskólastjórastöðu, var ekki auglýst laus til umsóknar, sem er furðulegt þar sem um nýtt starf er að ræða innan Þingeyjarskóla. Það var bara handvalið í stöðuna.

Nú er það svo að gerður var starfslokasamningur við fráfarandi skólastjóra um leið og auglýst var eftir nýjum skólastjóra við Þingeyjarskóla í vetur. Það var vissulega undarlegt að auglýsa þyrfti eftir nýjum skólastjóra við Þingeyjarskóla í vetur þegar skólinn hafði starfandi skólastjóra. Ekki er hægt að túlka þá ákvörðun meirihluta sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar öðruvísi en svo að fráfarandi skólastjóri hafi ekki notið trausts og meirihlutinn hafi viljað fá annan aðila til að stjórna Þingeyjarskóla. Það varð úr.

Samkvæmt staðfestum heimildum 641.is eru ákvæði í starfslokasamningum amk. tveggja kennara við Litlulaugadeild Þingeyjarskóla, um að jafnvel þó að þeir fái vinnu áður en starfslokasamningurinn rennur út, skerðast greiðslurnar sem samningurinn kveður á um til kennaranna ekki. Og það jafnvel þó svo að þeir fái vinnu hjá Þingeyjarsveit, sem er sú sama Þingeyjarsveit og greiðir þeim laun samkvæmt starfslokasamningum. Gera má ráð fyrir að starfslokasamningur fráfarandi skólastjóra sé ekki lakari en við kennarana og því er líklegt að það sama eigi við í því tilfelli. Miðað við þetta er ekki hægt að draga neina aðra ályktun en að fráfarandi skólastjóri verði á einu og hálfu kaupi næsta starfsár við Þingeyjarskóla.

641.is sendi fyrirspurn til sveitarstjóra í dag og spurði hvort þetta væri rétt. Svar barst um hæl þar sem sveitarstjóri sagðist ekki vilja tjá sig um málefni einstakra starfsmanna Þingeyjarskóla. Á sveitarstjórnarfundi í dag spurðu fulltrúar minnihlutans þessarar sömu spurningar og vildu fulltrúar meirihlutans ekki tjá sig um hana heldur.

Fulltrúi minnihlutans í Fræðslunefnd Sigurlaug Svavarsdóttir, gagnrýndi þessa ráðningu á Fræðslunefndarfundi í sérstakri bókun þann 1. júní sl.

“Ég undirrituð (Sigurlaug Svavarsdóttir) vil koma á framfæri óánægju með þá aðgerð að ráða til stjórnunarstarfa og sem verkefnisstjóra fráfarandi skólastjóra Þingeyjarskóla sem gerður hafði verið starfslokasamningur við. Í ljósi þess að störf aðstoðarskólastjóra voru lögð niður og því ekki endurráðið í þau og ekki var auglýst eftir starfsmanni til þessara starfa. Því tel ég þessa ráðstöfun afar neikvæða í ljósi aðstæðna”.

Öðrum fulltrúum í Fræðslunefnd þótti þetta bara vera hið besta mál og lýstu yfir stuðningi við þessa ráðningu. Ekki er þó víst að Fræðslunefndarfulltrúar hafi gert sér grein fyrir því hvað þeir voru að leggja blessun sína yfir. Ekki er þó um þessa ráðningu neitt getið í fundargerð Fræðslunefndar og kom hún upp á yfirborðið vegna fyrirspurnar frá einum fulltrúa sem sat fundinn. Ekki var ætlunin að þessi ráðning kæmi fram á fundinum. Kanski var það vegna þess að hún er vafasöm svo ekki sér meira sagt.

Sama varð uppi á teningnum þegar málið var tekið fyrir á sveitarstjórnarfundi í dag. Á þeim fundi lögðu fulltrúar minnihlutans í T-listanum fram eftirfarandi bókun:

„Fulltrúar T-listar taka undir bókun Sigurlaugar í fundargerð Fræðslunefndar. Þar sem núverandi meirihluti sveitarstjórnar taldi nauðsynlegt að skipta út fráfarandi skólastjóra verður sú ráðstöfun nýs skólastjóra að ráða fyrrverandi skólastjóra í stjórnunarstöðu við Þingeyjarskóla án auglýsingar að teljast athugaverð.“

Fulltrúar meirihlutans lögðu þá fram eftirfarandi bókun:

„Fulltrúar A-lista benda á að starfsmannamál og mannaráðningar einstakra starfsmanna stofnanna sveitarfélagsins eru ekki á forræði sveitarstjórnar. Fulltrúar A-lista lýsa yfir stuðningi sínum við störf Jóhanns Rúnars Pálsson við uppbyggingu Þingeyjarskóla.“

Gott og vel. Meirihlutinn telur sem sagt að þetta komi þeim ekki við. Það er þó sveitarsjóður sem borgar laun starfsmanna við Þingeyjarskóla og á þeim sjóði ber meirihlutinn ábyrgð.

En svona er sem sagt farið með fjármuni Þingeyjarsveitar. Það er gerður starfslokasamningur við fráfarandi skólastjóra sem kostar væntanlega eitthvað á annan tug milljóna króna, ráðinn nýr skólastjóri og þar með eru tveir skólastjórar við sama skólann á fullum launum. Svo til að bæta gráu ofan á svart er fráfarandi skólastjóri ráðinn í nýtt 50% starf við skólann, án auglýsingar og er þá líklega með ein og hálf mánaðarlaun út komandi skólaár.

Finnst lesendum þetta vera góð stjórnun á fjármálum Þingeyjarsveitar ?

Hermann Aðalsteinsson ritstjóri.