Laugapælingar

0
96

Þegar einstaklingur kemur inn í nýtt umhverfi, nýtt samfélag, tekur það hann alltaf einhvern tíma til þess að komast að því hverjar hinar óskráðu reglur samfélagsins eru. Þetta eru svona atriði eins og hvers konar hegðunar er ætlast til, hvað sé óásættanlegt, um hvað má tala, hverjum maður mótmælir ekki o.s.frv. Um slíkar óskráðar reglur er líka yfirleitt ekki rætt og því er nánast eina leiðin til þess að finna út hverjar reglurnar eru að brjóta þær. Þá tekur maður eftir því að þeir sem vita betur og þekkja reglunar gefa frá sér merki sem manni er ætlað að lesa í og þannig átta sig á mistökunum.

Aðalsteinn Már Þorsteinsson
Aðalsteinn Már Þorsteinsson

 

Flestir virða óskráðu reglurnar í sínu samfélagi, enda er þeim fáu sem gera það ekki nánast haldið utan hópsins og þeir þannig stöðugt minntir á stöðu sína á jaðri samfélagsins. Slíkt er sjaldnast til stórra vandræða, jafnvægi næst þar sem þessir aðilar sætta sig þennan kostnað þess að vera öðruvísi.

Hins vegar skapar það oft stór vandamál þegar nýir einstaklingar neita bæði að samþykkja reglu og að vera settir út í kuldann fyrir það eitt að vilja uppræta eitthvað sem þeim finnst byggja á fáranleika og einþykkni, en það gera einmitt margar óskráðar reglur – það má bara sjaldnast ræða það.

 

Ég hef aldrei geta áttað mig á því hvers vegna sumir í Þingeyjarsveit verða skrítnir í framan, flissa kjánalega eða setja upp hneykslunarsvip þegar talað er um Lauga sem þéttbýliskjarna. Vissulega eru Laugar það ekki út frá skilgreiningu, enda þarf byggðakjarni að ná 200 lögíbúum til að teljast þéttbýli samkvæmt Hagstofu Íslands. Reyndar má alveg benda á í þessu sambandi með skilgreininguna að ef litið er á nemendurnar í heimavist  Framhaldsskólans sem íbúa (en þeir eru ekki skráðir þar með lögheimili og teljast því ekki með) þá falla Laugar vissulega undir það að vera þéttbýli í u.þ.b. 8 mánuði á ári. En þetta er nú aukaatriði því það sem málið snýst raunverulega um er hvaða augum íbúar Þingeyjarsveitar líta Laugar. Eru Laugar þjónustukjarni í sveitarfélaginu? Hvaða hlutverki gegna þeir? Skipta Laugar og hlutverk þeirra einhverju máli fyrir sveitarfélagið?

 

Það er auðvitað fullkomlega eðlilegt að þeir sem búa nærri þéttbýliskjörnunum Húsavík og Akureyri sæki þangað þjónustu og eigi því sjaldan erindi í Laugar. Þessir íbúar þurfa fyrir sínar persónulegu þarfir ekkert á Laugum að halda og fá ekki svo glöggt séð að Laugar séu einhver kjarni sem veiti einhverja þjónustu. Íbúar á og nærri Laugum sækja líka mikla þjónustu annað og gætu vel sótt hana alla annað, líkt og hinir. Á sama tíma verður því ekki neitað að það er mikið hagræði fólgið í því fyrir þá íbúa Þingeyjarsveitar sem geta nýtt sér það að ýmis þjónusta er í boði á Laugum. Mér finnst þetta ekki heldur bara snúast um það hvort fólk þarf og/eða notar Laugar heldur miklu frekar hvaða hugarfar fólk hefur. Skipta Laugar einhverju máli fyrir Þingeyjarsveit? Skipta þeir meira máli en aðrir staðir? Er rekstur og uppbygging sveitarfélagsins á einhvern hátt tengdur Laugum? Þetta eru stórar spurningar og ég hef grun um að íbúar Þingeyjarsveitar svari þeim á ansi ólíkan hátt en hvernig við svörum þeim ræður sjálfsagt miklu um það með hvaða huga hver og einn lítur Lauga.

 

Til að rekstur sveitarfélagsins okkar gangi upp og að það haldist búsældarlegt í Þingeyjarsveit skipta atvinnutækifæri mestu máli. Ég efa það ekki að fleiri myndu vilja búa í Þingeyjarsveit en gera það í dag. Þetta fólk bíður eftir húsnæði og atvinnutækifærum. Um allan heim hefur þróun síðustu áratuga verið flutningur fólks úr dreifðri byggð í þéttbýli. Störfum í landbúnaði fækkar með tilkomu meiri tækni sem kallar á stærri bú á bak við hvern rekstur. Þingeyjarsveit er ekki undanskilin þessari þróun og á sama tíma og íbúum sveitarfélagsins utan Lauga hefur fækkað um rúm 10% á síðustu 10 árum hefur íbúum á Laugum fjölgað um 18%. Einhverjir kunna að sjá þessa þróun sem einhvers konar ógn við hinar blómlegu dreifðu sveitir og telja að rétt sé að berjast gegn þessari þróun af þeim sökum. Ég tel miklu frekur að við eigum að efla það sem er í vexti og þá muni hitt fylgja með. Kæru sveitungar byggjum saman upp, verum framsýn og finnum leiðir til nýrra atvinnutækifæra í sveitarfélaginu okkar. Berum hag heildarinnar fyrir brjósti, skoðum hug okkar og hjörtu. Látum leiðast áfram af vilja til að standa öll saman að uppbyggingu.

Burtu með fordóma!    Aðalsteinn Már Þorsteinsson.