Landsmót UMFÍ 50+ íþrótta- og heilsuhátíð á Húsavík 20.-22.júní

0
163

Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið að mestu leiti á Húsavík dagana 20.-22. júní næst komandi. Hluti mótsins mun fara fram í Þingeyjarsveit. Þetta er fjórða Landsmót UMFÍ 50+ sem haldið er og það fyrsta á norðausturhorninu. Fyrri mót voru haldin á Hvammstanga, Mosfellsbæ og Vík í Mýrdal.

Kynning 11 mars

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í dag, þriðjudaginn 11. mars, verður kynningarfundur um Landsmót 50+ í íþróttahúsinu á Húsavík frá kl.17-19. Þar verður skrifað undir samning milli UMFÍ, Norðurþings, Þingeyjarsveitar og HSÞ, ásamt því að fólki verður boðið uppá að prófa hinar ýmsu greinar. Einnig verður boðið uppá ýmsar heilsufarsmælingar. Landsmótsnefnd 50+ hvetur Þingeyinga til að fjölmenna á þennan kynningarfund og prófa nokkrar skemmtilegar greinar sem verða í boði á mótinu í sumar.

Þó nokkuð er síðan að Landsmót hefur verið haldið á Húsavík, en það var árið 1987 og tókst með eindæmum vel og var það ekki síst veðurguðunum að þakka. Fyrir það mót var ráðist í miklar framkvæmdir í sveitarfélaginu og m.a. byggð bráðabirgða 25 m sundlaug. Unglingalandsmót var haldið að Laugum í Reykjadal sumarið 2006 og var þar einnig ráðist í miklar framkvæmdir á vegum Þingeyjarsveitar og unnu sjálfboðaliðar gríðarlega mikið verk við að koma á nýjum frjálsíþróttavelli. Fyrir Landsmót 50+ á Húsavík verður flíkkað uppá þá aðstöðu sem er til staðar og vonandi verður það íþróttamannlífi til góða að Landsmóti 50+ loknu.Vonir standa til að þátttaka Þingeyinga sem eru komnir um og yfir miðjan aldur verði góð á mótinu og Þingeyingar noti þetta mót sem hvatningu til að auka hreyfingu og heilbrigðan lífsstíl í framhaldinu. Landsmót 50+ er ekki einungis íþróttamót heldur einnig heilsuhátíð og verður boðið upp á fyrirlestra um heilbrigðan lífsstíl og ýmsar heilsufarsmælingar. Fjölmargar keppnisgreinar verða í boði á Lansmóti 50+ á Húsavík, en það eru: almenningshlaup, boccia, bridds, bogfimi, blak, frjálsar, hestaíþróttir, línudans, golf, pútt, ringó, skák, starfsíþróttir, skotfimi, sund, sýningar, stígvélakast og þríþraut. Markmið mótsins er að skapa fólki 50 ára og eldri vettvang til að koma saman og keppa í hinum ýmsu íþróttagreinum og kynna um leið þá möguleika sem eru í boði til þess.

Héraðssamband Þingeyinga var stofnað 31. október árið 1914 og fagnar því aldaramæli sínu á þessu herrans ári 2014. Landsmót 50+ er stærsti einstaka viðburðurinn sem haldinn verður á vegum HSÞ á þessu ári, en einnig mun koma út afmælisrit og boðið til veislu í kringum sjálfan afmælisdaginn. Sett verður upp sýning í Safnahúsinu á Húsavík og mun hún standa frá byrjun júní og fram yfir Mærudaga. Þar verður m.a. í gangi myndband af Landsmóti UMFÍ sem haldið var á Laugum árið 1961 og myndbrot af Ásbyrgismóti sem haldið var 1974. Það efni sem til er af þessum mótum verður sett yfir á DVD disk og verður hann til sölu í Safnahúsinu meðan á sýningu stendur, en einnig á skrifstofu HSÞ í íþróttahúsinu á Húsavík þar sem afmælistreyja HSÞ er einnig til sölu.

Hlökkum til samstarfs og samvinnu við ykkur Þingeyingar góðir að Landsmóti 50+. Nú er að taka frá dagana 20.-22. júní og mæta til Húsavíkur með fjölskylduna þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi þessa skemmtilegu helgi.

Fyrir hönd Landsmótsnefndar 50+,

Jóhanna S. Kristjánsdóttir og Anna S. Mikaelsdóttir.