Læðumst yfir brú

0
1048

Síðastliðið sumar var gert við Skjálfandabrúna í Kinn. Eins og fólk man þá var brúin lokuð á tímabili og hámarkshraðinn var lækkaður niður í 30 km/klst. Aðspurðir svöruðu viðgerðamenn því til að þetta væri tímabundin lækkun og aðeins á meðan viðgerðin væri „að þorna“, hvað sem það nú þýðir.

Nú ber svo við að 30 km/klst. hefur verið viðvarandi í allan vetur fólki bæði til talsverðrar furðu og hrellingar. Hér áður var ef ég man rétt, enginn sérstakur hámarkshraði yfir brúna sem þýðir að almennur 90 km/klst. hefur gilt. Þetta er því vanabundnu fólki talsverð breyting. Ekki það að ég vilji skrökva lögbrotum upp á fólk en þá sagði maður* sem þekkir til í vegamálum mér að „það fer enginn á 30 km/klst. yfir brúna.“

Skjálfandafljótsbrúin.

Þessi „lögbrot“ hafa orðið til þess að fólk hefur bæði verið sektað og svipt ökuréttindum vegna hraðaksturs á brúnni.

Nú erum við í Þingeyjarsveit ekki hálaunafólk svo okkur munar um aurana. Við búum líka flest í dreifbýli og þurfum að sækja nauðsynjar um langan veg. Ökuleyfið skiptir okkur því miklu.

Nú tel ég mig löghlýðna konu og er öll af vilja gerð að fara að lögum. Hins vegar vil ég að boð og bönn byggi á rökum og satt að segja skil ég ekki rökin á bak þennan hámarkshraða. Ég gerði ráð fyrir að brúin væri orðin það léleg að hún þyldi ekki hraðann, þ.e. því meiri hraði því meiri hristingur og því hraðar liðaðist brúin í sundur. Það sem mælir gegn þessum skilningi er að hinn sami hámarkshraði er látinn gilda um flutningabíla og þungavinnuvélar. Nú er ég enginn eðlisfræðingur en ég er nokkuð viss um að ef brú er orðin svo léleg að hún þolir ekki að fólksbíll aki yfir hana nema á 30 km/klst. þá þolir hún alls ekki að flutningabíll keyri yfir hana á 30 km/klst. Það eru ekki heldur neinar þungatakmarkanir yfir brúna.

Mér þótti þetta furðu sæta og hringdi í Vegagerðina til að spyrjast fyrir um ástæður 30 km/klst. hámarkshraðans. Þar var mér sagt að hann væri ekki vegna þess að brúin væri svo léleg heldur þess að handriðið er svo lélegt. Rökin eru þau að ef bíll ekur á meira en 30 km/klst. á handriðið þá fari hann í gegnum handriðið og út í fljótið. Mér líður óneitanlega snöggtum betur, þótti það heldur óþægileg tilhugsun að brúin myndi liðast sundur hvenær sem væri. Það breytir samt því ekki að ég enn undrandi á að sami hámarkshraði gildi um fólksbíla og flutningabíla. Ef fólksbíll á 50 km/klst. fer í gegnum handriðið þá er nokkuð ljóst að flutningabíll á 30 km/klst. fer í gegnum handriðið ekki satt?

Ef handriðið er orðið svo lélegt að það tollir uppi af vananum einum saman þá skil ég ekki að það sé forsvaranlegt að hafa brúna opna. Þá skil ég ekki heldur að þar sem hraðaskiltið var sett upp í haust og hér var óvenju góður vetur framan af að tækifærið væri ekki notað til að styrkja handriðið. Svo ekki sé nú talað um af hverju ekki var gert við handriðið þegar verið var að gera við brúna síðastliðið sumar. Það er ekki mikil hagkvæmni í þessari viðgerðaáætlun. Er kannski verið að safna fyrir viðgerðinni með hraðasektum?

Ég held, og mér getur vissulega skjátlast, en ég held engu að síður að Vegagerðin hafi farið hér offari í hraðalækkun. 30 km/klst. hámarkshraðinn eigi að gilda um bíla yfir ákveðinni þyngd en venjulegum fólksbílum sé óhætt að fara yfir á 50 km/klst.

Óska ég hér með eftir að þetta mál verði skoðað.

*Ég vil ekki gera heimildamanninn persónugreinanlegan.

Ásta Svavarsdóttir