Kynningaropnun Norðurljósabaðanna á Laugum 18-21. mars

0
224

North Aurora Baths í samvinnu við Þingeyjarsveit bjóða til kynningaropnunar norðurljósabaðanna á Laugum 18.-21.mars. Opið er frá kl 22.00-01.00 öll fjögur kvöldin. Boðið er uppá heitt lífrænt kakó,kaffi og te, sem og baðsloppa og floatbúnað.

Norðurljósaböðin 1

Hluti upplifunnar felst m.a. í að hámarksfjöldi gesta verður takmarkaður við 40 gesti í senn og slökkt verður á öllum ljósum og kösturum sem eykur enn tækifæri til að upplifa kyrrð og myrkur og njóta norðurljósa þegar þau eru sýnileg. Lengri opnunartími, dempuð/slökkt ljós í nærumhverfi og umgjörð sem býður upp á slakandi og rólegt andrúmsloft er heilt yfir ekki það sem gestir þekkja í sundlaugum landsins.

 

Þingeyjarsveit er eigandi að sundlauginni að Laugum og hefur veitt vilyrði fyrir því að sundlaugin verði nýtt í þetta verkefni.

Í fréttatilkynningu segir að verkefnið „North Aurora baths“ geti skapað a.m.k. 4 hlutastörf, það er að segja fjögur 25% störf. Störfin verða til frá og með 1. september 2016. Ný störf auka fjölbreytni og atvinnutækifæri á Laugum. Einnig mun ný þjónusta auka nýtingu gistirýmis á þeim gistiheimilum og hótelum sem eru starfandi á svæðinu á veturnar. Þar að auki hafa miðnæturböð í sundlauginni á Laugum jákvæð áhrif á aðra ferðaþjónustu og afþreyingu á svæðinu, meðal annars skoðunarferðir (norðurljósaferðir), veitingaþjónustu og aðra þjónustu.

Norðurljósaböðin 2

Nýnæmi verkefnisins felst í að gestir geta notið aðstöðunnar í sundlauginni á Laugum með öðrum hætti en hefur verið gert hingað til í sundlaugum landsins. Sundlaugin verður opnuð með formerkjum baða í stað sundlaugar.

Talið er að Norðurljósaböðin séu vel til þess fallin að lengja dvalartíma ferðamanna á Norðurlandi og stuðla að auknum fjölda gesta á svæðinu og er liður í dreifingu ferðamanna á Norðurlandi um leið og boðið er uppá nýja afþreyingu.

Boðið verður upp á þjónustuna alla daga vikunnar frá 1. september til 31. desember 2016 og ákvörðun með framhaldið tekin í kjölfarið. Opnunartími er frá kl. 22:00 – 01:00.

Markhópurinn verður fyrst og fremst erlendir ferðamenn, ýmist gestir á eigin vegum, gestir sem gista í grennd við Lauga og gestir ferðaskrifstofna sem eru t.d. að selja norðurljósa ferðir á svæðinu. Það eru aðilar t.a.m með ferðir frá Akureyri, Húsavík og Mývatnssveit. Bygging Norðuljósa rannsóknarstöðvarinnar á Kárhóli í Reykjadal er svo talin styrkja Norðurljósaböðin enn frekar þegar stöðin verður tilbúin.