Kristnilíf við Vestmannsvatn í 50 ár

0
306

Í tilefni af 50 ára afmæli sumarbúða við Vestmannsvatn 28. júní 2014. Framundan er afmælishátíð haldin 21. september 2014. Í hlíðinni suður af bænum Fagranesi í Aðaldal standa byggingar, sem verða fimmtíu ára gamlar á árinu  2014. Þær voru áður nýttar fyrir sumarbúðastarfsemi á vegum Þjóðkirkjunnar. Hlutverk staðarins hefur hins vegar breyst með tíð og tíma og nú er þarna starfrækt kirkjumiðstöð. Um er að ræða sjálfseignarstofnun, sem er rekin á eigin ábyrgð fyrir ýmsa starfsemi á vegum Þjóðkirkjunnar og er ætlað að stuðla að aukinni samvinnu safnaðanna í Eyjafjarðar-og Þingeyjarprófastsdæmi.

Við Vestmannsvatn.
Við Vestmannsvatn.

Kirkjuleg starfsemi við Vestmannsvatn á sér ríka sögu allt frá því fyrrum biskupar hr. Pétur Sigurgeirsson og hr. Sigurður Guðmundsson hrundu þeirri góðu hugmynd í framkvæmd að sækjast eftir sælureit til þess að reisa híbýli undir sumarbúðastarfsemi á vegum Þjóðkirkjunnar. Það gerðu þeir í góðu samráði við landeigendur í Fagranesi og Fagraneskoti og með dyggum stuðningi Sigurðar Péturs Björnssonar (Silla) fyrrum bankastjóra á Húsavík, en barna-og ungmennastarf kirkjunnar var mönnum þessum afar hugleikið.

Pétur Sigurgeirsson greinir frá staðarvalinu í viðtali, sem tekið var við hann á heimili hans í Reykjavík árið 1988 og birtist í bók Sverris Pálssonar um sögu Akureyrarkirkju. Pétur var að koma frá Grímsey í aprílmánuði 1959 og kom við á Húsavík þar sem hann var þátttakandi á kirkjudegi hjá séra Friðrik A. Friðrikssyni. Morguninn eftir fór hann með rútu áleiðis til Akureyrar og frásögn Péturs heldur áfram, þar sem hann segir svo orðrétt frá:

“Þegar komið var fram að Vestmannsvatninu og mér varð litið til vinstri upp í hlíðina austan við vatnið, varð ég hugfanginn af víðáttu dalsins, vötnum og gróðri. Kom ég þá sérstaklega auga á Vestmannsvatn, hólmana og trén og hlíðina suður af Fagranesi. Þá sagði ég við sjálfan mig: “Þetta er tilvalinn staður fyrir sumarbúðir!” Ég var ekki fyrr kominn heim en ég hringdi til séra Sigurðar á Grenjaðarstað og sagði honum, að mér hefði sýnst, að þarna væri einmitt staðurinn – og innan marka prestakalls hans og heimasóknar! – Þá sagði hann: “Ég hef einmitt lengi hugsað þetta sama!”

Þáverandi ábúendur Fagraness og Fagraneskots, Þuríður Guðmundsdóttir, Guðný Friðfinnsdóttir og Sigurður Guðmundsson, Unnur Baldursdóttir og Jón Þórarinsson lögðu til hið fagra land undir kristilegt æskulýðsstarf við Vestmannsvatn. Jón Geir Ágústsson byggingafulltrúi Akureyrar teiknaði húsin á staðnum og gaf fyrstu teikningarnar í nafni Rotaryklúbbs Akureyrar. Byggingaframkvæmdir hófust 28. maí 1962, yfirsmiðir voru þeir Sigurpáll Ísfjörð á Húsavík og Þorsteinn Svanur Jónsson frá Halldórsstöðum í Laxárdal.

Biskup Íslands hr. Sigurbjörn Einarsson vígði búðirnar að viðstöddu miklu fjölmenni 28. júní 1964 og strax daginn eftir kom fyrsti barnahópurinn til dvalar. Sumarbúðastjórar hafa verið ófáir og má þar m.a. nefna sr. Bolla Gústavsson, Gunnar Rafn Jónsson lækni, sr. Gylfa Jónsson, sr. Jón Helga Þórarinsson, Magnús Aðalbjörnsson yfirkennara, sr. Pétur Þórarinsson, sr. Svavar Alfreð Jónsson,
sr. Baldur Kristjánsson, sr. Bjarna Karlsson, sr. Jónu Hrönn Bolladóttur, Jón Eyfjörð Friðriksson kennara, sr. Lenu Rós Matthíasdóttur, o.fl.

Á þeim tíma er sumarbúðirnar risu var slíkur rekstur við Vestmannsvatn þýðingarmikil vítamínssprauta og kjölfesta í æskulýðsstarfi norðan heiða. Mörg börn og ungmenni, sem síðan hafa vaxið úr grasi, horfa til sumarbúðanna í ljóma og þökk. Hver man ekki eftir því að hafa siglt á kanó um spegilslétt vatnið, vaðið út í eyjarnar á heitum sumardögum, já hver man ekki eftir nestisferðunum upp í skóg, boltaleikjum við starfsfólkið í litríkum búningum úti á velli, kvöldvökunum, varðeldinum við vatnið, biblíusögunum og bænunum?

Allt eru þetta bjartar myndir, sem gott er að eiga í hugskoti og sem örva og hvetja okkur til að næra og byggja upp staðinn áfram, afmæli framundan býður upp á það, og þrátt fyrir margvíslegar hindranir af öllum stærðum og gerðum að þá er gott að gera sér grein fyrir því að náttúrufegurð við Vestmannsvatn og náttúrulíf býður upp á ótal möguleika til að skapa hugmyndir og búa þannig enn til kærar minningar.

Það er ekki úr vegi að grípa aftur niður í fyrrnefnt viðtal við Pétur um starfsemina við Vestmannsvatn, en því lýkur á þessum orðum hans:

„Og þetta hefur allt saman haldið áfram á vissan hátt, kannski með eitthvað öðru sniði, en starfið hefur samt blessast og blómgast. Auðvitað er nú við önnur öfl að glíma, sem vilja taka huga unga fólksins frá trúarlegum efnum. Alltaf koma öðru hverju upp stefnur og straumar, sem gera starfið erfiðara.  Þetta er ekki alltaf sléttur og lygn sjór og hefur sennilega aldrei verið.“

Þrátt fyrir þá breytingu sem orðið hefur á hlutverki starfsseminnar við Vestmannsvatn, þá skiptir hún ennþá mjög miklu máli fyrir söfnuði í nýlega sameinuðu Eyjafjarðar-og Þingeyjarprófastsdæmi og ekki hvað síst fyrir æskulýðsstarf innan þess.

Aðstöðuna við Vestmannsvatn má leigja í lengri eða skemmri tíma fyrir barnahópa, fermingarhópa og hverskonar skólahópa, fyrir kóra og sem funda-og fræðsluaðstöðu fyrir starfsmenn safnaða, svo fátt eitt sé nefnt. Þarna er einnig gott að halda fjölskyldumót og fleira það er eflir mannlíf og samfélag á kristnum grunni. Tilvalin helgardvöl!

Við óskum staðnum hjartanlega til hamingju með tímamótin á þessu afmælisári 2014!

Bolli Pétur Bollason.

Heimildir:  Sverrir Pálsson 1990. Saga Akureyrarkirkju.  Útgefandi: Sóknarnefnd Akureyrarsóknar. Akureyri. Prentverk Odds Björnssonar.