Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar var haldinn í gærkvöldi. Að venju var fundurinn málefnalegur og góður.Auk venjulegra aðalfundarstarfa urðu miklar umræður um kjaramál sjómanna, starfsmenntamál, sjómannafsláttinn, viðbótarálögur á útgerðina og framkomu LÍÚ í garð sjómanna sem hafa verið samningslausir í tvö ár.

Fundurinn taldi fulla ástæðu til að álykta um málið enda framkoma útgerðarmanna í garð sjómanna varðandi kjaramálin þeim ekki til sóma. Á fundinum var Jakob Gunnar Hjaltalín kjörinn formaður deildarinnar. Aðrir í stjórn verða: Kristján Þorvarðarson, Stefán Hallgrímsson, Haukur Hauksson og Björn Viðar.
Ályktun
Um kjaramál sjómanna
“Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar skorar á LÍÚ að láta af boðuðum hugmyndum um lækkun á kjörum sjómanna sem fram koma í tillögum þeirra sem lagðar hafa verið fram. Þá undrast aðalfundurinn hótanir LÍÚ um verkbann á sjómenn til að knýja á um að þeir taki þátt í auknum sköttum á útgerðina.
Aðalfundurinn hvetur LÍÚ til að ganga þegar í stað til viðræðna við Samtök sjómanna um gerð kjarasamnings fyrir sjómenn sem hafa verið samningslausir í tvö ár. Slík staða er óásættanleg með öllu og á ekki að líðast að mati aðalfundar Sjómannadeildar Framsýnar.”
Hér má lesa meira frá aðalfundi Sjómannadeildar Framsýnar.