Kraftmikið fólk í Útkinn

0
352

Mannlífið í sveitinni.

Á Granastöðum í Útkinn búa Svanhildur Kristjánsdóttir  frá Böðvarsnesi  í Fnjóskadal og Arngrímur Páll Jónsson frá Árteigi í Útkinn, þau eiga þrjú börn Írisi, Óðinn og  Auði Friðriku. Svanhildur og Arngrímur eru í daglegu tali kölluð Svana og Addi. Þau eiga og reka brauðgerð undir nafninu Sveitabrauð. Þar framleiða þau steikt og soðið brauð. Svana hefur bakað í um 20 ár, hún byrjaði að baka með Helgu Vilhjálmsdóttur, en Svana og Addi hafa bakað saman  síðan 1998. Fyrir nokkrum árum fór svo Svana að gera veislutertur fyrir vini og vandamenn. Það hefur síðan spurts út og aukist jafnt og þétt. Svana gerir tertur fyrir öll tækifæri s.s fermingar og brúðkaup. Þetta eru ýmist tertur með karamellugljáa eða klæddar marsipani. Svana hefur einnig í nokkur ár bakað kökur fyrir kaffihúsið á Fosshóli, Goðafossveitingar.

Fermingartertur
Fermingartertur með karamellugljáa

 

 

 

 

 

 

 

Marsipan brúðarterta
Marsipan brúðarterta

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Svana og Addi hafa verið dugleg að gera upp húsið á Granastöðum sem var byggt 1948 og hafa ræktað þar fallegan garð og gert allt í kring um húsið fallegt. Þau keyptu fyrir nokkru gróðurhús af Skógrækt Ríkisins í Vaglaskógi, það gróðurhús var orðið nokkuð lélegt, þau gerðu það upp og klæddu nýtt gróðurhúsaplast á það. Þau settu vökvunarkerfi í húsið  “og það er alveg snilld  það er tímastillt við stillum bara hvaða daga á að vökva, klukkan hvað og hve lengi, og það gefur manni meira frelsi, við getum alveg skroppið frá í nokkra daga án þess að hafa áhyggjur af vökvun. Gróðurhúsaræktunin byrjaði fyrir 20 árum síðan, þegar ég fékk jarðarberjaplöntur frá Hildi tengdamóður minni og þetta eru bestu jarðarber sem til eru (að mínu mati)  stór og sæt, þegar plönturnar eru ungar og sterkar“ segir Svana. „Auðvitað hefur maður mis mikinn tíma til að sinna þessu, en það að rækta, hefur góð áhrif bæði á andlegu og líkamlegu hliðina.“

Svana í gróðurhúsinu
Svana í gróðurhúsinu

 

 

 

 

 

 

 

Núna eru í gróðurhúsinu ýmsar skemmtilegar tegundir blóma og trjáa.  Svana hefur oft keypt Kirsuberja-tómatplöntur á Hveravöllum og áframræktað þær og fengið mikla og góða uppskeru, alveg fram í október. Það er gaman að koma inn í gróðurhúsið, Svana var þó að afsaka sig vegna þess að hún hefði ekki gefið sér nógu mikinn tíma í að hirða vel um það að undanförnu, en þó er mjög ræktarlegt þarna inni og fallegt. Hún er með perutré, eplatré og kirsuberjatré auk birkis og greni sem hún er að ala upp til útplöntunar. Nytjaplönturnar eru af ýmsum tegundum, kryddjurtir, salat, graslaukur, jarðarber, blægjuber og hindber.

Rósir og tóbakshorn
Rósir og tóbakshorn

 

 

 

 

 

 

 

ilmandi lilja
ilmandi lilja

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fremst i gróðurhúsinu er rúmgóður trépallur, þar er hægt að setjast niður og njóta suðræns loftslagsins inni í gróðurhúsinu, alveg sama hvernig íslenka veðrið lætur útifyrir. Á pallinum hefur Svana m.a. tekið á móti gestum og haldið þar saumaklúbb.

Pelagóníur og fleira fallegt
Pelagóníur og fleira fallegt

 

 

 

 

 

 

 

Gróðurhús eru víða hér um sveitina, af öllum stærðum og gerðum, þau geta gefið mikið af sér, bæði gleði og ávexti og sennilega sér engin eftir því að fá sér gróðurhús.

Í vor var Svana svo heppin að verða valin í hóp 35 kvenna í atvinnurekstri á landsbyggðinni, til að fara á ráðstefnu í Brussel. Ráðstefnan var um nýsköpun og fleira, þær fengu kynningu á ESB, heimsóttu bændabýli sem m.a. sérhæfir sig í að taka á móti skólafólki. Þessi heimsókn til Brussel víkkaði svo sannarlega sjóndeildarhringinn segir Svana.

Svana hefur starfað með Urði tengslaneti kvenna í Þingeyjarsýslum og verið þar í stjórn. Markmið félagsins er að efla samstöðu og samstarf kvenna, efla konur í stjórnar-rekstrar og félagsstörfum eða öðru sem styrkt getur  persónulega og faglega færni þeirra. Félagið hefur staðið fyrir viðburðum, fundum og námskeiðum,  miðlað upplýsingum og tengslaveitu á netinu og annarri fræðslu- og upplýsingastarfsemi
Starfssvæði félagsins nær frá Vaðlaheiði í vestri til Bakkafjarðar í austri.

Svana og Addi hafa mikinn áhuga á allri útivist og ferðalögum, en vildu þó hafa miklu meiri tíma til að sinna því. Eins og sjá má á þessu er lífið í sveitinni hvorki rútína né einhæft,  það er alltaf nóg við að vera, fyrir hugmyndaríkt og skapandi fólk.

Auður Friðrika, Addi og Svana.
Auður Friðrika, Addi og Svana í Kverkfjöllum að ganga á Biskupsfell í rjómablíðu.

 

 

 

 

 

 

 

 

Myndirnar ef tertunum og úr Kverkfjöllum eru frá Svönu og Adda.