Kosið til fortíðar eða framtíðar

0
166

Atvinnuuppbygging og styrking byggðar úti á landi eru málefni sem liggja mér ofarlega í huga, bæði af samfélagslegum og sjálfselskum ástæðum. Samfélagslegu eru þær að ég tel það dýrmætt fyrir okkur sem þjóð að fólk hafi tækifæri á að setjast að, búa og starfa sem víðast á landinu, sjálfselsku eru þær að mig langar sjálfan að setjast að úti á landi.

Stjórnmálamenn hafa ýmislegt gert til að reyna að auka atvinnu á landsbyggðinni, en fyrir mér eru stórar verksmiðjur, sem greiða lítið sem ekkert fyrir rafmagnsnotkun sína og koma verðmætum úr landi í gegnum skuldafléttur ekki kostur sem við getum horft á til framtíðar.

Kosningarnar í haust munu snúast um ákveðin grundvallargildi. Hvaða stefnu við sem samfélag eigum að taka til framtíðar, til að mynda hvernig við deilum og umgöngumst verðmæti landsins okkar og hvernig við styrkjum byggðir um landið allt. Matvælaframleiðsla er þáttur sem vert er að beina sjónum að og í mínum huga gæti hún orðið mikilvæg til þess að styrkja byggðir á heilbrigðari vegu en með því að planta verksmiðjum hér og þar líkt og hefur verið lausn tuttugustu aldar pólitíkusa.

Það ætti að vera kappsmál að við séum að mestu sjálfbær um matvælaframleiðslu. Styrking innlendrar matvælaframleiðslu er ekki aðeins byggðamál heldur hefur hún mikilvæga umhverfisverndar- og lýðheilsuvídd. Það er olíufrekt að flytja ávexti og grænmeti til Íslands og vistspor matvæla sem eru flutt hingað getur verið skuggalega stórt. Þá er yfirborðsvatn sem notað er við ræktun víða í Evrópu af misjöfnum gæðum og við útiræktun þarf að nota varnarefni og skordýraeitur sem hverfa hvorki úr plöntunum né jarðveginum. Við erum verulega lánsöm þjóð að eiga hreint vatn, jarðhitasvæði og nokkuð umhverfisvæna raforku. Hér eru aðstæður sem gera það spennandi að fara í framsæknar aðgerðir til að auka innlenda matvælaframleiðslu í gróðurhúsum og skapa atvinnu á landsbyggðinni. Matvælaframleiðslu sem gæti gert okkur að mestu sjálfbær um ávaxta- og grænmetisneyslu þjóðarinnar, minnkað vistspor neyslu okkar og skilað okkur vöru sem er ræktuð án notkunar varnarefna. Hér eru kjör aðstæður til að vera skapandi, það vantar aðeins pólitískan vilja.

Við þurfum að skapa verðmæti á skynsaman og ábyrgan máta sem þjónar sem flestum og gæta þess að falla ekki fyrir skammtímalausnum. Innlend matvælaframleiðsla er engin töfralausn en hún er spennandi kostur sem er fyllilega þess virði að skoða.

Við fáum að kjósa í haust. Fólkið sem við kjósum mun taka ákvarðanir um leiðir til að styðja við uppbyggingu á landsbyggðinni. Hvort að tuttugustu aldar leiðin, að pota niður einni verksmiðju, verði farin eða hvort að lögð verði áhersla á nýsköpun og stefnt að sjálfbærni. Við fáum að kjósa um gamlar lausnir, eða nýja framtíðarsýn.

Sindri Geir Óskarsson
Höfundur gefur kost á sér í 3. sæti lista VG í Norðausturkjördæmi