Tveir Bandarískir ferðamenn komu á Tjaldstæði Lífsmótunar á Laugum í Þingeyjarsveit í gærkvöld eftir óvenju langan akstur til þess eins að sjá Dettifoss. Þeir voru á hringferð um landið og voru staðráðnir í því að sjá Dettifoss og voru tilbúnir til þess að gera allt til þess að sjá Dettifoss. Aðalsteinn Már Þorsteinsson sem rekur Tjaldstæði Lífsmótunar á Laugum segir frá þessu langa ferðalagi þeirra á Facebook í dag.

“Í fyrradag komu þeir að lokun á þjóðvegi 1 fyrir austan enda var bálhvasst á Möðrudalsöræfunum og skyggni lítið sem ekkert. Þar sem ein rúta hafði varið útaf og tvær lent í smá óhappi voru lokunarpóstar mannaðir til þess að tryggja að enginn héldi á öræfin.

Nú veit ég ekki hvort þessir 2 ferðamenn spurðust fyrir við lokunarpóstinn eða fengu
upplýsingar annars staðar en ef svo er hafa þær verið heldur ónákvæmar hvað varðar umfang lokunarinnar og lengd þess tíma sem vænta mátti að hún stæði yfir. Sjálfur mannaði ég lokunarpóst við Kröfluafleggjarann sem meðlimur í Hjálpasveit Skáta Reykjadal og veitti nokkrum ráðviltum ferðamönnum leiðbeiningar um það hvernig best væri fyrir þá
að bregðast við þessari lokun en flestir áttu bókaða gistingu fyrir austan og vissu ekkert hvernig þeir áttu að snúa sér enda sjálfsagt aldrei upplifað neitt þessu líkt áður.

Þessir tveir sem komu á tjaldsvæðið í gærkveldi höfðu brugðið á það ráð að keyra einfaldlega hringinn í kringum landið og óku því u.þ.b. 1300 km aukalega til að geta haldið ferð sinni áfram og séð Dettifoss. Aðspurðir voru þeir ánægðir með að hafa séð fossinn en þeir voru þreyttir, fóru snemma að sofa í gærkveldi og sváfu lengi í morgun”, skrifar Aðalsteinn.

Þegar 641.is náði tali af Aðalsteini nú í hádeginu voru ferðamennirnir farnir og vissi Aðalsteinn ekki hvert för þeirra væri heitið.