Karlmaður í Þingeyjarsveit hefur óskað eftir því að fá að heita Sigríður

Mannanafnanefnd mun úrskurða um málið

0
2224

Sigurður Hlynur Snæbjörnsson bóndi á Öndólfsstöðum í Reykjadal hefur með formlegum hætti óskað eftir því við Þjóðskrá Íslands að fá að taka upp eiginnafnið Sigríður, sem fyrra eiginnafn, í stað Sigurður. Ef orðið yrði við beiðni hans yrði fullt nafn hans: Sigríður Hlynur Snæbjörnsson Helguson.

Sigurði barst bréf frá Þjóðskrá Íslands í dag þar sem honum er tilkynnt það að umsókn hans um að taka upp nafnið Sigríður hafi verði vísað til mannanafnanefndar til úrskurðar. Í bréfinu segir að Þjóðskrá Íslands geti ekki orðið við beiðninni að svo stöddu þar sem eiginnafnið Sigríður sé ekki á mannanafnaskrá sem karlmannsnafn, en skilyrði upptöku nýs nafns sé að það hafi verið samþykkt af mannanafnanefnd.

Sigurður Hlynur Snæbjörnsson sagði í spjalli við 641.is í dag að hann hefði hugsað sér það nokkuð lengi að óska eftir þessari breytingu á fyrra eiginnafni sínu.

“Ég heiti Sigurður eftir ömmu minni heitinni eins undarlega og það hljómar en vil bera hennar rétta nafn en ekki afbökun af því. Af hverju ætti að draga fólk í dilka með því að flokka nöfn í karl eða kvenkyns”.

Sigurður Hlynur bætti því við að hann væri tilbúinn til þess að fara með málið lengra ef mannanafnanefnd myndi hafna umsókn hans um að taka upp nafnið Sigríður.

Samkvæmt gögnum Þjóðskrár Íslands ber enginn karl nafnið Sigríður. Nafnið kemur ekki fyrir í manntölum frá 1703-1920 sem karlmannsnafn.

Sigurður Hlynur verður því að bíða eftir úrskurði mannanafnanefndar um hvort hann fái að heita Sigríður, en ekki er vitað hvenær von er á þeim úrskurði.