Karl Eskil ráðinn ritstjóri Vikudags

0
124

„Þetta leggst vel í mig. Vikudagur er öflugt blað á Eyjafjarðarsvæðinu og nýtur virðingar fyrir vandaðan fréttaflutning,“ segir Karl Eskil Pálsson sem ráðinn hefur verið ritstjóri Vikudags. Hann sest í ritstjórastólinn nú um mánaðamótin. Hann er öllum hnútum kunnugur bæði í byggðum á Norðurlandi og sem fjölmiðlamaður, en hann starfaði í um tuttugu ár hjá Ríkisútvarpinu og síðustu árin sem sjálfstæður fjölmiðlamaður. „ Í mínum huga skiptir miklu máli hvernig ritstjórnarstefna blaðsins er, blaðið hefur að leiðarljósi að standa vörð um hagsmuni samfélagsins hér og miða umfjöllun sína um menn og málefni við það. Einnig skiptir máli að stærsti eigandi blaðsins er KEA og félagsmenn þar að baki eru næstum tuttugu þúsund. Það má því segja að eigendahópur Vikudags sé mjög stór og ræturnar eru norðlenskar. Sú staðreynd vó þungt þegar mér var boðið þetta starf,“ segir Karl Eskil.

 

Kristján Kristjánsson “Stjáni bóndi” er hér í leik með Miðbæingum á móti Torgurum í sumar á Mærudögum.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ætlum að efla blaðið

Bjarni Hafþór Helgason, stjórnarformaður Útgáfufélagsins ehf. sem gefur út Vikudag, segir áformað að efla blaðið. „Við höfum tröllatrú á Karli. Hann býr yfir víðtækri þekkingu á málefnum hérna við Eyjafjörðinn. Við viljum efla blaðið enn frekar og sömuleiðis vefsetrið vikudagur.is. Útliti blaðsins verður væntanlega breytt á næstu vikum og með nýjum ritstjóra breytast efnistökin án efa eitthvað. Það sem skiptir mestu máli er að við höldum áfram að þjóna hagsmunum okkar samfélags og stuðla að uppbyggingu þess.“

Fólkið leggur línurnar

Karl Eskil segir að útgáfa blaðs sé í eðli sínu verkefni sem kalli á samvinnu fjöldans. „Við sem störfum við blaðið og vefinn skrifum fréttirnar auðvitað ekki sjálf, það er í raun og veru almenningur sem það gerir að stórum hluta. Góð tengsl við almenning og fyrirtæki skapa fréttirnar og við munum leitast við að treysta sambandið enn frekar. Áskrifendur Vikudags hafa haldið tryggð við blaðið, þannig að ég legg bjartsýnn af stað í þennan leiðangur,“ segir Karl Eskil. Fráfarandi ritstjóri er Kristján Kristjánsson. Hann ákvað að láta af störfum og snúa sér að búrekstri. Hann stýrði Vikudegi í nærri sjö ár. „Við þökkum honum fyrir farsælt starf og óskum honum velfarnaðar á nýjum vettvangi,  um leið og við bjóðum nýjan ritstjóra velkominn til starfa,“ segir Bjarni Hafþór Helgason. Vikudagur.is

Kristján Kristjánsson knattspyrnumaður og fyrrverandi ritstjóri blaðsins mun flytja sig um set frá Akureyri í Aðaldalinn og gerast bóndi á Hraunkoti. Kristján er drengur góður og á örugglega eftir að gera góða hluti sem afburða bóndi enda alltaf haft bullandi metnað fyrir því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur um dagana. Kristján er boðinn velkominn í Aðaldalinn en hann spilaði um tíma knattspyrnu með Völsungum og reyndar Miðbæingum líka.  Framsýn.is