Jónas Egilsson kjörinn formaður HSÞ

0
682

Jónas Egilsson Ungmennafélagi Langnesinga var í dag kjörinn formaður HSÞ á ársþingi sambandsins sem fram fór í Ýdölum í Aðaldal. Jónas tekur við formennsku í HSÞ af Anítu Karin Guttesen sem gengt hefur formannsembættinu sl. þrjú ár. 58 þingfulltrúar frá 20 aðildarfélögum HSÞ sátu ársþingið sem er afar góð mæting. Aðeins vantaði þingfulltrúa frá tveimur aðildarfélögum HSÞ

Þingfulltrúar samþykktu m.a. tillögu um mótun íþrótta og æskulýðsstefnu HSÞ – “Æfum alla ævi” og einnig var samþykkt tillaga þar sem nýkjörin stjórn HSÞ er hvatt til þess að vinna að því að gera HSÞ að fyrirmyndarhéraði innan UMFÍ.

fulltrúar frá ÍSÍ og UMFÍ voru gestir ársþingsins og afhentu þeir þremur einstaklingum af starfssvæði HSÞ starfsmekri UMFÍ og silfurmerki ÍSÍ.

Guðrún Kristinsdóttir Völsungi var sæmd starfsmekri UMFÍ fyrir störf sín fyrir Völsung.

Í umsögn um Guðrúnu segir:

Guðrún kom fyrst til íþróttafélagsins Völsungs árið 1980 og sá þá um leikjanámskeið fyrir Völsung. Hún flutti svo til Húsavíkur árið 1986 og stofnaði þá strax fimleikadeild innan Völsungs og var formaður deildarinnar í um 20 ár. Hún hefur starfað sem þjálfari, stjórnarmaður og formaður deildarinnar í um 32 ár. Hún tók við sem formaður Íþróttafélagsins Völsungs árið 2010 og verið það síðan. Þar hefur hún unnið mikið og gott starf og meðal annars leitt félagið í gegnum þá vinnu að verða eitt af fyrirmyndarfélögum ÍSÍ, sem félagið varð árið 2015.

Guðrún hefur verið viðriðin starfið hjá Völsungi sem nefndarmaður, foreldri, og svo sem formaður félagsins frá árinu 2010 og komið að flestum íþróttagreinum sem sjálfboðaliði. Einnig hefur hún stundum leyst framkvæmdastjóra félagsins af.

Gunnar Gunnarsson frá UMFÍ afhenti Guðrúnu Kristinsdóttur Völsungi starfsmekri UMFÍ

Kolbrún Ívarsdóttir Mývetningi var sæmd silfurmerki ÍSÍ

Í umsögn um Kolbrúnu segir:

Kolbrún eða Kolla eins og hún er jafnan þekkt hefur unnið ötult sjálfboðastarf í þágu íþróttahreyfingarinnar í Mývatnssveit í mörg ár. Hún sat í stjórn Mývetnings íþrótta- og ungmennafélags í nokkur ár, bæði sem gjaldkeri og ritari. Hún hefur ávallt staðið við bakið á sínum börnum sem og öðrum börnum í sveitinni, fylgt þeim á æfingar og keppnir um land allt. Hún var einn af drifkröftunum þegar skíðastarf Mývetnings var keyrt af stað og var potturinn og pannan í allri vinnu tengdu starfinu. Eftir að starfið lagðist að mestu niður hefur Kolla keyrt allt að tvisvar til þrisvar í viku til Akureyrar yfir vetrartímann með drengi sína tvo á skíðaæfingar. Og þar hefur hún svo staðið vaktina á mótum og keppnisferðum Skíðafélags Akureyrar. Frá því að Mývatnsmaraþonið var fyrst haldið sumarið 1995 hefur Kolla ávallt verið við vinnu við það, ýmist á drykkjarstöð, skráningu eða í tímatöku. Kolla sat einnig í stjórn HSÞ árin 2014-2016 sem gjaldkeri. Sjálfboðastarfið er gríðalega mikilvægt í öllu íþróttastarfi og það er litlu íþróttafélagi eins og Mývetningi mjög mikilvægt að eiga svona frábæran sjálfboðaliða sem alltaf er klár í slaginn eins og hún Kolla er og hún er vel að þessari viðurkenningu komin.

Baldvin Kristinn Baldvinsson Hestamannafélaginu Þjálfa var sæmdur silfurmerki ÍSÍ.

Í umsögn um Baldvin segir:

Baldvin Kristinn Baldvinsson félagsmaður í Hestamannafélaginu Þjálfa hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu félagsins í áratugi.

Hann gekk til liðs við hestamannafélagið á unglingsárum og hefur starfað með og fyrir félagið allar götur síðan, hefur hann setið í stjórn félagsins þó nokkrum sinnum og gengt þar öllum stöðum.

Hefur hann setið í nefndum og ráðum LH fyrir hönd félagsins, komið að uppbyggingu  keppnisvæðisfélagsins sem og annari uppbyggingu vegna hestamennsku á svæðinu, á samt því að hafa byggt upp góða aðstöðu hjá sjálfum sér sem hann hefur aðstoðað félagið við að halda utan um starfsemi æskulýðsdeildar hestamannafélagsins Þjálfa, hefur hann þá lagt til aðstöðu og hross svo börn og unglingar sem ekki eiga hross geti einnig komist í kynni við hesta.

Baldvin byrjaði ungur í hestamennsku, hann er fæddur árið 1950 og þegar hann var tíu ára að aldri hafði hann safnað sér nægum aur til að fara vestur á Silfrastaðarétt þar sem hann keypti sitt fyrsta folald, ekki hefur Baldvin fengist til að tala mikið um gæði þessa hross en ári síðar eignaðist faðir hann meri og undan hann kom hryssan Toppa sem Baldvin tamdi og sýndi á landsmóti á Hólum 1966 og síðan þá hefur hrossarækt átt hug hans allan.

Baldvin hefur verið ötull við að halda merkjum hestamennskunar á lofti og alltaf stutt vel við bakið á þeim sem eru að stíga sín fyrstu spor á þeirri braut , hann er höfðingi heim að sækja og er alltaf reiðubúinn að miðla fróðleik og aðstoða í hverju sem upp kann að koma.

Ræktunarbú Baldvins í Torfnesi hefur marg oft verið tilnefnt sem rætunarbú árins og einnig hlotið slíka nafnbót, hefur hann ræktað mörg heiðursverðlauna hross og hafa hross frá honum getið sér góð orðs á keppnisbrautum bæði hér heima sem og erlendis.

Baldvin Kr Baldvinsson er vel að þessari viðurkenningu komin vegan brennandi áhuga síns og þrautseigju bæði í ræktunar sem og félagsstarfi í þágu hestamennskunar.

Meðfylgjandi myndir frá ársþingi HSÞ tók Sigurbjörn Ásmundsson og Hermann Aðalsteinsson.

Jónas Egilsson var kjörinn formaður HSÞ í dag
Íþróttafólk HSÞ 2017. (ekki gátu allir verið viðstaddir og sendur staðgengla í sinn stað)
Nýr formaður HSÞ Jónas Egilsson og fráfarandi formaður Aníta Karin Guttesen
Frá ársþingi HSÞ í Ýdölum