Ánægjulegt skref var stigið í samgöngumálum til Húsavíkur í sl. miðvikudag þegar ný 32 sæta skrúfuþota Flugfélagsins Ernis fór í sína jómfrúarferð undir stjórn Þráins Hafsteinssonar flugstjóra. Vélin lenti í Aðaldal síðdegis og var vel tekið á móti henni sem og farþegum og áhöfn. Norðurþing bauð viðstöddum upp á tertu sem Örlygur Hnefill Örlygsson forseti bæjarstjórnar sá um að skera. Frá þessu segir á 640.is
Hörður Guðmundsson forstjóri Flugfélagsins Ernis tók til máls sem og fleiri, t.am. Kristján Þór Magnússon bæjarstjóri Norðurþings og Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar.
“Þetta ein hraðfleygasta skrúfuvélin á markaðnum í dag. Hún er því mjög fljót í förum, þykir farþegavæn og er hljóðlát. Það má því í raun segja að þetta sé Rollsinn í þessum flokki flugvéla,“ segir Hörður um þessa nýju viðbót við flota félagsins en hún var keypt sl. vor.
Vélin er af gerðinni Dornier 328-100 og ber einkennisstafina TF-ORI. Vélin var framleidd árið 1998 en kom hún hingað til lands um mánaðamótin maí-júní og hefur frá þeim tíma verið unnið að því að koma vélinni inn í kerfi félagsins og þjálfa bæði flugmenn og flugvirkja.
Lesa nánar um þessi merku tímamót á 640.is, auk mynda.