Jólapistill sveitarstjóra Skútustaðahrepps

0
312

Kæru Mývetningar nær og fjær. Þar sem þetta er síðasti pistill ársins vil ég nota tækifærið og óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Þetta hefur verið einstaklega ánægjulegt og viðburðaríkt ár og Mývetningar geta litið björtum augum til framtíðarinnar. Hér í sveit hefur verið mikil uppsveifla undanfarin misseri sem endurspeglast í fólksfjölgun og betri afkomu sveitarfélagsins. Aðalatriðið er að byggja upp gott mannlíf og hlúa vel að kjarnastarfsemi okkar eins og grunnskóla og leikskóla, að starfsfólkinu okkar og bjóða upp á góða þjónustu þar sem gildin okkar eru leiðarljósið; Jafnræði – Jákvæðni – Traust – Virðing.

Þegar farið er yfir sviðið á þessu ári stendur upp úr að mínu mati hversu sveitarstjórn hefur verið samhent í sínum störfum og komið miklu í verk. Á þessu ári er meðal annars búið að: ljúka við gerð mannauðsstefnu, skólastefnu, húsnæðisáætlunar, umbótaáætlunar í fráveitumálum, umferðaröryggisáætlunar. Við erum heilsueflandi samfélag, búið er að stækka leikskólann og ganga frá lóðinni að mestu, nýtt gámasvæði var tekið í notkun, félagsstarf eldri borgara eflt m.a. með því að bjóða upp á ókeypis akstur og lögbundið frístundastarf er hafið í skólanum í samstarfi við Mývetning. Búið að skipta um gúmmíkurl á sparkvellinum, líkamsræktaraðstaðan var tekin í gegn, unnið hefur verið að viðhaldi á fasteignum, lagt í talsverða endurnýjun hjá hitaveitunni, hreppsskrifstofan fékk andlitslyftingu, ný heimasíða er komin í gagnið ásamt málakerfi og svo mætti lengi áfram telja. Á næsta ári blasa við miklar áskoranir eins og í fráveitumálum, viðhaldi, uppbyggingu innra starfs samkvæmt skólastefnu, unnið er að framtíðarstefnu í ferðamálum og ýmislegt fleira.

Verulegur viðsnúningur í rekstri sveitarfélagsins

Fjárhagsáætlun næsta árs var samþykkt á fundi sveitarstjórnar í morgun. Hún var unnin út frá markmiðum sem sveitarstjórn setti sér á 61. fundi þann 13. september 2017 að rekstur A hluta sveitarfélagsins verði í jafnvægi, þ.e. skatttekjur og þjónustutekjur standi undir rekstri málaflokka og sjóða A-hluta. Jákvæð rekstrarniðurstaða samstæðu, þ.e. A- og B hluta, sem jafnframt standi undir framkvæmdum án lántöku þannig að skuldahlutfall verði áfram undir 50% á tímabilinu.

Útsvar verður óbreytt eða 14,52%, fasteignaskattur verður einnig óbreyttur og almennar gjaldskrár hækka um 3%. Fjárhagsáætlunin var unnin af sveitarstjórn, sveitarstjóra, skrifstofustjóra auk þess sem samráð var haft við forstöðumenn stofnana sveitarfélagsins og endurskoðanda. Viðsnúningur hefur verið í rekstri sveitarfélagsins frá árinu 2014 en það ár var tap á rekstrinum. Síðan þá hafa bæði hagræðingaraðgerðir og talsverð tekjuaukning
vegna fólksfjölgunar breytt forsendum í rekstri sveitarfélagsins til hins betra. Allt stefnir í að reksturinn verði jákvæður fyrir rekstrarárið 2017 eins og áætlanir gerðu ráð fyrir.
Heildartekjur samstæðunnar (A og B hluta) er áætlað að verði 537 m.kr. á næsta ári, þar af
nemi tekjur A-hluta 494 m.kr. Rekstrargjöld samstæðu fyrir fjármagnsliði nemi 451 m.kr.,
þar af nemi rekstrargjöld A-hluta 419 m.kr. Fjármagnsliðir nettó þ.e fjármagnsgjöld nemi 4
milljónum. Rekstrarniðurstaða samstæðu verði jákvæð um rétt rúmar 81 m.kr., þar af verði
rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 75 m.kr.
Veltufé frá rekstri samstæðu nemi 119 mkr. og handbært fé frá rekstri samstæðu nemi 115
m.kr. Skuldahlutfall samstæðu nemi 47%.
Framlegðarhlutfall er áætlað 21%. Ekki er gert ráð fyrir nýjum langtímalántökum á árinu og
verða langtímaskuldir greiddar niður um 9 milljónir króna.

Fjárfestingaáætlun 2018:

Helstu framkvæmdir næsta árs verða malbikunarframkvæmdir, breytt aðkoma að skólum og íþróttamiðstöð, gerð gangstétta og bætt umferðaröryggi í Reykjahlíðarþorpi, endurbætur á hitaveitu á Skútustöðum, frágangur á gámasvæði og leikskóla/grunnskólalóð, viðhald í Skjólbrekku, viðhald í Reykjahlíðarskóla og íþróttahúsi, strandblakvöllur, ærslabelgur o.fl. leiktæki, ný skilti við innkomuleiðir í sveitina o.fl. Gert er ráð fyrir hönnunarkostnaði vegna fyrsta áfanga í umbótaáætlun vegna fráveitumála. Einnig er
gert ráð fyrir mótframlagi vegna umsóknar sveitarfélagsins í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða vegna fyrsta áfanga í uppbyggingu göngustíga í Höfða. Gert er ráð fyrir gerð viðskiptaáætlunar vegna nýrrar sundlaugar, sorpílátum á tilteknum ferðamannastöðum og sorphirðuúrræðum fyrir sumarhúsaeigendur, tækjabúnaði til
áhaldahúss o.fl. Jafnframt er á áætlun að ráða skipulags- og byggingafulltrúa í 100% starf á næsta ári vegna fjölmargra verkefna sem eru fram undan, m.a. í fráveitumálum.

 Unnið verður samkvæmt nýrri skólastefnu sveitarfélagsins.
 Unnið verður eftir nýrri húsnæðisáætlun sveitarfélagsins.
 Unnið verður eftir nýrri mannauðsstefnu sveitafélagsins.
 Unnið verður eftir nýrri umferðaröryggisáætlun sveitarfélagsins.
 Unnið verður eftir Bókun 1 í kjarasamningi grunnskólakennara.

Áfram verður boðið upp á ókeypis frístundaþjónustu eftir að skólatíma lýkur hjá
grunnskólanum og jafnframt upp á ókeypis ritföng næsta haust. Áfram verður boðið upp á
upp á akstur í félagsstarf eldri borgara á fimmtudögum. Reykjahlíðarskóli verður
tölvuvæddur, gert ráð fyrir áframhaldandi endurnýjun á húsgögnum, hljóðkerfi fyrir
kennara í íþróttahúsi o.fl. Nýjar heimasíður verða gerðar fyrir Reykjahlíðarskóla og
leikskólann Yl. Þá mun leikskólinn bjóða upp á leikskólaappið Karellen. Gert er ráð fyrir nýjum samningum við félag eldri borgara og Golfklúbb Mývatnssveitar. Keyptur verður
aðgangsstýribúnaður í íþróttamiðstöðina til að hafa sólarhringsaðgang að líkamsræktaraðstöðu.

Skólastefna Skútustaðahrepps 2017-2022 samþykkt í sveitarstjórn

Á sveitarstjórnarfundi 8. mars 2017 var bókað að skólanefnd skyldi sjá um mótun skólastefnu Skútustaðahrepps. Stýrihópur um skólastefnu var settur á laggirnar sem í sátu sveitarstjóri, skólastjóri, leikskólastjóri, formaður skólanefndar og fulltrúar foreldra frá bæði
leikskóla og grunnskóla. Í tengslum við gerð skólastefnunnar var m.a. haldinn íbúafundur,
nemendaþing og farið í skólaheimsóknir í leik og grunnskóla að Hrafnagili. Þá voru fyrstu drög skólastefnunnar lögð fram til almennrar umsagnar. Skólanefnd hefur samþykkt
skólastefnuna fyrir sitt leyti. Sveitarstjórn samþykkti skólastefnuna og þakkar stýrihópnum vel unnin störf. Sveitarstjóra er jafnframt falið að kynna skólastefnuna fyrir íbúum sveitarfélagsins. Skólastefnuna er m.a. hægt að nálgast á www.skutustadahreppur.is. Hún verður jafnframt send á alla foreldra/forráðamenn í tölvupósti. Þegar er farið að vinna eftir henni í fjárhagsáætlun sveitarstjórnar fyrir næsta ár.

Húsnæðisáætlun samþykkt til næstu 10 ára

Sveitarstjórn hefur samþykkt húsnæðisáætlun Skútustaðahrepps fyrir árin 2018-2027.
Sveitarstjórn bókaði á fundi sínum 13. september s.l. að gera húsnæðisáætlun fyrir
Skútustaðahrepp. Í því felst að greina stöðu húsnæðismála í Skútustaðahreppi og setja fram áætlun um hvernig þeim málum skuli háttað til næstu ára. Atvinnumálanefnd og sveitarstjóra var falið að halda utan um verkefnið. Í húsnæðisáætluninni kemur m.a. fram að í ljósi fólksfjölgunar vegna uppgangs ferðaþjónustu hafi verið talsverð eftirspurn eftir íbúðum í Skútustaðahreppi síðustu misseri. Atvinnurekandi hefur brugðist við með því að
byggja raðhús í Klappahrauni, hótel hafa farið þá leið að byggja starfsmannaíbúðir við hótelin eða starfsmannaherbergi inni á hótelunum. Hingað hefur flutt ungt barnafólk sem hefur fengið heilsársstörf. En ljóst er að hár byggingakostnaður í Skútustaðahreppi sem
ekki skilar sér í markaðsverði fasteigna er letjandi þegar kemur að uppbyggingu.

Á íbúðarsvæðum í Reykjahlíð í dag er rými fyrir um 35 nýjar íbúðir. Við gerð húsnæðisáætlunarinnar var gerð könnun á meðal rekstraraðila í Skútustaðahreppi
til þess að varpa ljósi á húsnæðisþörfina á næstu árum. Sendur var út spurningalisti til
27 aðila. Í svörum sem bárust frá 22 aðilum kemur m.a. fram að þörf er fyrir leiguhúsnæði
fyrir starfsfólk hjá um helmingi svarenda, samantekið í hæsta gildi fyrir 49 starfsmenn,
eða um 5 manns að meðaltali á ári næstu tíu árum. Atvinnurekendur kjósa almennt að byggja eigin starfsmannaíbúðir eða kaupa á almennum markaði þótt þar sé ekki mikið framboð þessa dagana. Miðað við svörin virðist ekki mikill áhugi fyrir öðru húsnæðisformi eins og t.d. húsnæðissjálfseignastofnun. Sveitarstjórn telur engu að síður þörf á að skoða þann flöt frekar, með tilliti til íbúðarhúsnæðis á almennum markaði. Lagðar eru fram tillögur í 14 liðum. Meðal annars þarf að huga að endurskoðun aðalskipulags eftir næstu kosningar, huga að stækkun byggðar austan við Múlaveg, skoða þéttingu byggðar á Skútustöðum og í Vogum, funda með rekstraraðilum vegna byggingu leiguíbúða, endurskoða skilmála varðandi byggingu íbúðarhúsa án tengsla við búrekstur á núverandi lögbýlum, að gatnagerðargjöld verði endurskoðuð o.fl.
Húsnæðisáætlun Skútustaðahrepps er aðgengileg á www.skutustadahreppur.is

Reglubundin tæming rotþróa

Sveitarstjórn hefur samþykkt að gera breytingar þegar kemur að skipulagi á hreinsun, tæmingu og eftirliti rotþróa í Skútustaðahreppi í samræmi við samþykkt um hreinsun og losun rotþróa á starfssvæði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra. Í stuttu máli sagt verða allar rotþrær í sveitarfélaginu, fyrir utan þær sem eru í eigu rekstraraðila, tæmdar hér eftir á þriggja ára fresti og verður kostnaðinum dreift niður á þrjú ár og innheimtur með fasteignagjöldum eins og heimilt er. Stefnt er að því að tæma allar rotþrær á næsta ári. Fyrir hverja fasteign innan marka Skútustaðahrepps með eigin fráveitu, eða fráveitu sem ekki er tengd holræsakerfi í eigu Skútustaðahrepps, skal greiða árlegt þjónustugjald. Greiða skal sérstakt gjald fyrir hverja rotþró, ef fleiri en ein rotþró er á sömu fasteign. Ef fleiri en ein húseign er tengd rotþró skal þjónustugjaldi deilt með jöfnum hætti á fasteignir, nema ef sýnt er fram á aðra eignareða notkunarskiptingu á þrónni. Undanþegnir frá gjaldskyldu eru rekstraraðilar með útgefin rekstrarleyfi fyrir veitinga- og gististaði (flokkur 1-IV og hótelleyfi) en þeir skulu semja um tæmingu rotþróa við viðurkenndan þjónustuaðila með gilt starfsleyfi heilbrigðiseftirlits, sbr. 3. gr. samþykktar um hreinsun og losun rotþróa á starfssvæði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra, að undanteknum Húsavíkurbæ. Slíkir
rekstraraðilar geta einnig samið við Skútustaðahrepp um reglubunda tæmingu og skal samið um það sérstaklega. Árlegt gjald fer eftir stærð rotþróa og er eftirfarandi miðað við þriggja ára losun:
– 0-4000 lítrar 15.000.
– 4001-6000 lítrar 20.000 kr.
– 6000 lítrar og yfir 1.800 kr. fyrir hvern rúm.
umfram 6000 lítra.
Endurkomugjald (þ.e. ef ekki er búið að greiða aðgengi og undirbúa þró fyrir tæmingu ) er 50% álag miðað við stærð þróar. Fjárhæð árgjalds miðast við að tæming og skoðun rotþróar eigi sér stað þriðja hvert ár. Komi fram beiðni um eða ef nauðsynlegt er að
tæma rótþró sérstaklega, skal eigandi fasteignar greiða samkvæmt reikningi beint frá
verktaka. Fjárhæð árgjalds miðast við að hreinsibíll þurfi ekki að nota lengri barka en 50 metra. Ef leggja þarf lengri barka en 50 metra þá leggjast við kr. 8.250. Rotþrær þurfa að vera aðgengilegur fyrir hreinsun. Allur aukakostnaður vegna tæmingar skal eigandi fasteignar greiða samkvæmt reikningi beint frá verktaka. Nánari upplýsingar verða sendar út síðar.

Aðventuhreyfingin sló í gegn

Alls mættu um 40 manns í aðventuhreyfinguna sem íþróttamiðstöðin stóð fyrir síðasta
laugardag. Mæld var 5 km braut þar sem hver og einn hreyfði sig eftir eigin áhuga og hvað
hentaði. Jólaandinn sveif yfir vötnum. Alls voru 25 vinningar dregnir út sem safnað var hjá
fyrirtækjum í Mývatnssveit og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Aðalatriðið var að hittast og hafa gaman saman í anda Heilsueflandi samfélags en Ásta Price hjá íþróttamiðstöðinni
hafði veg og vanda að skipulaginu og kunnum við henni bestu þakkir fyrir.

Unnið að framtíðarsýn Skjólbrekku

Á fundi sveitarstjórnar var lagt fram minnisblað frá félags- og menningarmálanefnd um
rekstrarfyrirkomulag Skjólbrekku. Um áramót rennur út leigusamningur við Mývatn ehf. um
rekstur Skjólbrekku og hefur leigutaki tilkynnt að hann muni ekki óska eftir endurnýjun á
samningnum. Sveitarstjórn samþykkti að samið verði við fráfarandi leigutaka um uppgjör á búnaði í húsinu. Sveitarstjórn þakkar nefndinni fyrir góða vinnu og samþykkti að sveitarstjóri, oddviti, Elísabet Sigurðardóttir og Sigurður Böðvarsson skipi stýrihóp til að koma með mótaðar tillögur fyrir sveitarstjórn sem byggja á tillögum félagsog
menningarmálanefndar. Sveitarstjóra var falið að semja erindisbréf fyrir stýrihópinn. Þess
má geta að í fjárhagsáætlun 2018 er gert ráð fyrir 5 m.kr. í viðhald í Skjólbrekku.
Ljóst er að sveitarfélagið mun taka a.m.k. tímabundið yfir rekstur Skjólbrekku. Til að
byrja með verður hægt að bóka Skjólbrekku fyrir viðburði á skrifstofu Skútustaðahrepps, í
síma 464 4163 eða á netfangið skutustadahreppur@skutustadahreppur.is

Beðið eftir nýjum ráðherrum vegna fráveitumála

Eftir að ný ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum sendi sveitarstjóri ósk til nýs umhverfis- og
auðlindaráðherra og nýs fjármála- og efnahagsráðherra þann 30. nóv. s.l. þess efnis
að teknar verði upp að nýju viðræður á milli Skútustaðahrepps og ríkisvaldsins um
fjárhagslega aðkomu ríkisins að fráveitumálum í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið fékk frest hjá heilbrigðiseftirlitinu til að skila inn fjármagnaðri umbótaáætlun til næstu áramóta. Í ljósi tafa á viðræðum við ríkisvaldið vegna ríkisstjórnaskipta, samþykkir sveitarstjórn að sótt verði um frest til að skila inn uppfærðri umbótaáætlun þar til niðurstaða er komin í
samningaviðræður við ríkisvaldið. Rétt er að taka fram að sveitarstjórn vinnur nú
þegar eftir umbótaáætluninni varðandi útfærslu lausna og skipulag. Samþykkt hefur verið
breyting á deiliskipulagi í Reykjahlíð vegna staðsetningar hreinsistöðvar. Í fjárhagsáætlun
sveitarfélagsins 2018 er gert ráð fyrir hönnunarkostnaði fyrir fyrsta áfanga sem er
fyrir fráveitu í Reykjahlíð, ásamt auknu stöðuhlutfalli skipulags- og byggingafulltrúa, úr
33% í 100% sem að vonum mun nýtast til utanumhalds um víðtækt svið fráveitulausna.

Styrkveitingar til lista- og menningarstarfs

Alls bárust félags- og menningarmálanefnd fjórar umsóknir um styrkveitingar vegna seinni
úthlutunar 2017 til lista- og menningarstarfs, tvær þeirra voru ekki metnar styrkhæfar.
Nefndin lagði til við sveitarstjórn að styrkjum verði úthlutað sem hér segir:

Sumartónleikar og kórastefna við Mývatn 500.000 kr.
Músík í Mývatnssveit 200.000 kr.

Sveitarstjórn samþykkti tillögu félags- og menningarmálanefndar. Styrkirnir rúmast innan
heimildar fjárhagsáætlunar 2017.

Hænsnahald í þéttbýli

Sveitarstjórn samþykkti nýlega reglugerð um hænsnahald í þéttbýli. Á fundi sveitarstjórnar lá fyrir umsókn um hænsnahald frá Garðari Finnssyni að Birkihrauni 12. Sveitarstjórn
samþykkti erindið enda í samræmi við samþykkt um hænsnahald í þéttbýli í Skútustaðahreppi sem kveður á um leyfi fyrir allt að 6 hænsnum en hanar eru með öllu
óheimilir.

Í skugga valdsins

Fundargerð 854. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 24. nóvember
2017 var lögð fram á fundi sveitarstjórnar Skútustaðahrepps í morgun. Sveitarstjórn tekur
heils hugar undir bókun stjórnar sambandsins undir lið 1: Í skugga valdsins. Þar segir:
“Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga lýsir yfir ánægju með það frumkvæði sem konur í
stjórnmálum á Íslandi hafa tekið undir merkjum”Í skugga valdsins” og hvetur sveitarstjórnir landsins til að taka þátt í umræðu um kynferðisofbeldi og áreiti og hvernig koma megi í veg fyrir slíkt athæfi á vettvangi stjórnmála og á vinnustöðum sveitarfélaga. Nauðsynlegt er að öll sveitarfélög setji sér formlega stefnu og viðbragðsáætlun vegna eineltis, ofbeldis og kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni enda er slík hegðun ólíðandi með öllu. Þau sveitarfélög sem ekki hafa gert slíkt eru hvött til að nýta sér sem fyrirmynd stefnu og viðbragðsáætlun sambandsins í þessu efni sem aðgengileg er á heimasíðu þess. Stjórnin samþykkir einnig að málefnið verði tekið til sérstakrar umfjöllunar á landsþingi sambandsins á næsta ári og verði einnig hluti af því námsefni sem kennt verður á
námskeiðum fyrir sveitarstjórnarmenn í kjölfar næstu sveitarstjórnarkosninga.”
Samkvæmt nýlegri Mannauðsstefnu Skútustaðahrepps er kafli þar sem sérstaklega
er fjallað um einelti og kynferðislega áreitni og lögð til leiðbeinandi viðbragðsáætlun.
Sveitarstjórn samþykkir að á næsta sameiginlega starfsmannadegi Skútustaðahrepps verði sérstaklega tekin fyrir umræða um kynferðisofbeldi og áreiti og hvernig koma megi í veg fyrir slíkt athæfi. Jafnframt verði rýnt í kaflann í mannauðsstefnunni um kynferðislega áreitni og hann endurskoðaður á starfsmannadeginum.

Lestur á hitaveitumælum – Sendið sjálf inn álesturinn

Kæru Mývetningar. Nú biðlum við til ykkar um aðstoð við álestur á hitaveitumælum í ykkar
fasteign og bjóðum upp á að þið sendið inn álestur með mynd.
Svona farið þið að:
 Takið mynd af hitaveitumælinum, sendið með tölvupósti á netfangið alma@skutustadahreppur.is.
 Eftirfarandi upplýsingar þurfa að fylgja í tölvupóstinum: Heimilisfang, nafn og kennitala sendanda og hvaða dag lesið er af.

Athugið að ef fleiri en einn hitaveitumælir er í fasteigninni þarf að senda inn mynd af öllum
mælunum. Skilafrestur er til og með 20. desember 2017.
Leiðbeiningar um álestur á hitaveitumælum má sjá hér:

Eins og ykkur er kunnugt um eru hitaveitureikningar ársins byggðir á áætlun um
hitaveitunotkun sem við reynum að láta endurspegla sem best raunverulega notkun.
Notendur fá þá mánaðarlega senda áætlunarreikninga. Eftir álesturinn er uppgjörsreikningur sendur út til viðskiptavina. Þar kemur raunnotkun liðins árs fram og þar með kemur í ljós hvort viðskiptavinur á inneign eða er í skuld vegna næstliðins árs. Viðskiptavinir geta því átt von á reikningum með annarri krónutölu en þeir eru vanir.
Oft liggur skýringin á aukinni notkun eins og á heimilinu en stundum kann að vera að um bilun sé að ræða. Dæmi um þetta eru bilaðir ofnkranar eða bilun í stýribúnaði húsveitu sem
veldur sírennsli vatns. Þá er mögulegt að áætlun eða álestur sé rangur. Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofu Skútustaðahrepps í síma 464 4163.

Skemmtilegir jólatónleikar

Jólatónleikar tónlistarskólans fóru fram í Reykjahlíðarskóla fyrir skömmu. Allir nemendur
tónlistarskólans komu fram og stóðu sig með stakri prýði. Þá tróð hljómsveit upp með
nokkrum nemendum og yngstu nemendur skólans sungu jólalög. Leikskólabörnin komu
einnig fram. Gaman var að sjá hvað nemendurnir hafa lært mikið í vetur með nýjum
kennurum. Jafnframt er ánægjulegt að sjá að flestir nemendur Reykjahlíðarskóla eru í
hljóðfæranámi.

HRÓS DAGSINS…
fá nemendur elsta stigs í Reykjahlíðarskóla. Í síðustu viku komu þeir færandi hendi í
samverustund aldraðra í íþróttahúsinu með smákökur og brúntertu sem þeir höfðu bakað
heima. Frábært framtak hjá krökkunum. Veitingarnar smökkuðust ljómandi vel og hér
má sjá sýnishorn af þeim.

Ýmislegt

Að vanda hef ég sótt ýmsa fundi og ráðstefnur að undanförnu og má þar nefna árlegan fund samstarfsnefndar lögreglu og sveitafélaga í umdæminu, undirbúningsfund um nýja
persónuverndarlöggjöf, með fulltrúa Mýsköpunar, fulltrúum nángrannasveitarfélaga,
KPMG, forstöðumannafund, fundi í skipulagsnefnd og skólanefnd, svo eitthvað sé
nefnt.

Sem fyrr er hér er stiklað á stóru. Ætlunin er að pistill sveitarstjóra birtist tvisvar í mánuði, í kjölfar sveitarstjórnarfunda. Tilgangurinn er að efla upplýsingastreymi sveitarstjórnar. Sveitarstjórapistillinn er sendur út í tölvupósti, í pósti og birtur á heimasíðu
sveitarfélagsins.

Bestu óskir um gleðileg jól og farsæld á nýju ári.
Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri