Jafnréttislög brotin við ráðningu sýslumanns á Húsavík

0
157

Ögmundur Jónasson braut jafnréttislög þegar hann skipaði Svavar Pálsson í embætti sýslumanns á Húsavík 29. desember 2011. Halla Bergþóra Björnsdóttir, sem einnig sótti um stöðuna, kærði ákvörðunina og samkvæmt fréttum Rúv hefur kærunefnd jafnréttismála komist að þeirri niðurstöðu að ráðningin hafi verið brot á jafnréttislögum.

Rök nefndarinnar eru þau að Halla Bergþóra hafi verið metin hæfari en Svavar í fjórum hæfnisþáttum af átta og jafnhæf í þremur en Svavar verið metinn hæfari í einum hæfnisþætti.

Sýslumenn landsins eru að miklum meirihluta karlar og samkvæmt jafnréttislögum skal ráða umsækjanda af því kyni sem hallar á ef umsækjendur eru jafnhæfir.

Í rökstuðningi sínum vísar innanríkisráðherra í meðmælabréf starfsmanna embættisins á Húsavík þar sem Svavar var settur sýslumaður en kærunefndin gagnrýnir að hann hafi ekki leitað álits hjá umsagnaraðilum kæranda. Í úrskurði kærunefndarinnar segir að ekki verði séð að ráðherra hafi lagt málefnalegt mat á hæfni kæranda vegið hana á móti hæfni þess er skipaður var og einnig er þar bent á að gjalda verði varhug við því að leggja meðmæli undirmanna til grundvallar.

Rúv.is