Íslenska mjólk, kjöt og grænmeti á diskinn minn – JÁ takk

Hólmgeir Karlsson skrifar

0
463

Íslenskir bændur hafa frábæran og einstakan málstað, sem við neytendur verðum að kynna okkur áður en við leifum sérhagsmunaöflum í samfélaginu að kippa fótunum undan atvinnugreininni sem við eigum svo margt að þakka.

Á íslandi erum við að framleiða hágæða heilnæma matvöru með náttúrulegum aðferðum þar sem dýravelferð er í öndvegi og umgengni við náttúruna og samfélagið er til fyrirmyndar. Slíkt á sér fáar samlíkingar í veröldinni. Ef grannt er skoðað þá er eiginlega bara Noregur sem getur státað af sömu aðstæðum og við.

Rétt eins og góðir vandaðir leðurskór kosta meira en einfaldir strigaskór, þá kostar meira að framleiða slíka hágæða náttúrulega og næringarríka matvöru en þá sem er af lakari gæðum.

Ýmis öfl í samfélaginu þrýsta á um frjálsan innflutning á matvöru án verndartolla eða annarra influtningshindrana og markaðssetja þá hugmynd sem hag okkar neytenda sem þá fái matvöru á lægra verði.

Látum ekki blekkjast af slíkum áróðri því sambærilegar vörur og íslenskir bændur eru að framleiða eru hvergi í boði í dag á lægra verði nema þá sem stórlega niðurgreiddar í viðkomandi framleiðslulandi.

Mikið framboð er hinsvegar af landbúnaðarvörum af allt öðrum og minni gæðum. Vörur sem framleiddar eru með óhóflegri sýklalyfjanotkun, með vaxtarhvetjandi hormónum, með vinnuafli sem fær ekki mannsæmandi laun og þar sem velferð dýra er einnig fótum troðin.

• Stöndum vörð um okkar innlendu matvælaframleiðslu

• Segjum NEI við innflutningi á hráu kjöti

• Segjum JÁ við tollvernd, því það er sjálfsagður réttur okkar sem þjóðar að verja okkar matvælaframleiðslu líkt og aðrar siðmenntaðar þjóðir gera.

• Segjum NEI við ofríki verslunarinnar, sem bara vill ráða því hvað við fáum að kaupa á hverjum tíma og á hvaða verði

• Segjum JÁ við því að vera virkir þegnar með samfélagsábyrgð og tryggjum um leið fæðuöryggi og matvælaöryggi þjóðarinnar.

• Segjum JÁ við því að börnin okkar fái alltaf hollan og náttúrulegan mat.

Svo að endingu, þá er kominn tími til að við sem neytendur þökkum bændum þá frábæru vinnu sem þeir eru að vinna á búum sínum.