Ísland allt

Þorgrímur Sigmundsson skrifar

0
294

Miðflokkurinn er nýtt róttækt stjórnmálaafl sem leitar skynsamlegustu lausnanna sama hvort þær lausnir flokkast sem hægri eða vinstri. Stjórnmálaafl sem hefur kjark til að ryðjast í gegnum þær hindranir sem kerfið getur verið þegar mikilla breytinga er þörf.

Ísland Allt er aðgerðaráætlun sem Miðflokkurinn hefur lagt upp með til að ná mörgum þeirra markmiða. Við ætlum að snúa margra áratuga dýrri vörn í arðbæra sókn. Við ætlum að innleiða skattalega hvata fyrir fólk og fyrirtæki utan höfuðborgarsvæðisins. Við ætlum að lækka tryggingagjaldið og lækka það meira fyrir fyrstu 10 starfsmenn fyrirtækis sem aftur hentar sérstaklega vel fyrir mörg landsbyggðar-og nýsköpunarfyrirtæki. Við ætlum að efla á ný heilsugæslu og sérfræðilækningar á landsbyggðinni. Við ætlum að gera átak í byggingu þjónustuíbúða, bæta heimahjúkrun og fjölga hjúkrunarrýmum.

Við viljum og ætlum að endurgreiða virðisaukaskatt af byggingu húsnæðis á „köldum svæðum“  en víða á landinu er skortur á leiguhúsnæði þar sem ekki hefur verið byggt svo nokkru nemi jafnvel árum saman og því róttækra aðgerða þörf til að örva nýframkvæmdir.

Við ætlum að niðurgreiða innanlandsflug vegna þess að allir í samfélaginu eiga rétt á að geta sótt sér opinbera þjónustu og segja má að flugsamgöngur sé hið íslenska lestarkerfi. Tryggja þarf að sú niðurgreiðsla skili sér í lækkun fargjalda til notenda en verði ekki styrkur til flugfélaga. Það munum við gera. Eitt af lykil atriðum til að þessar nauðsynlegu samgöngu bætur virki sem best fyrir landsbyggðina er að tryggja flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni og að þar rísi samgöngumiðstöð fyrir alla landsmenn. Það ætlum við að gera. Við ætlum að gera ríkinu auknar skyldur í að uppfylla ákveðið þjónustustig um land allt. Við verðum og ætlum að eyða óvissu í ferðaþjónustu og tryggja samkeppnishæfni hennar og því eðlilegt að „kaldari svæði“ njóti skattalegshagræðis svæðunum og landinu öllu til heilla.

Við ætlum að stjórna heildaruppbyggingu landsins frá einum stað svo ábyrgðin sé alveg skýr. Sumt af þessu er róttækt og það verða hindranir. En lausnirnar eru til og þær kalla á pólitískan vilja, kjark, þor og úthald fyrir Ísland Allt.

Þorgrímur Sigmundsson