Innfluttir lambahryggir – Þórarinn Ingi hefur óskað eftir fundi í Atvinnuveganefnd

0
576

Ráðgjafanefnd í inn- og útflutningi landbúnaðarvara hefur lagt til við ráðherra landbúnaðarmála að heimilað verði innflutningur á lambahryggjum og nýr tollkvóti verði gefinn á lækkuðum tollum til að bregðast við meintum skorti á lambahryggjum. Tillaga nefndarinnar er að magntollur sé 172 kr/kg og án takmarka í magni.

“Þetta þýðir að flutt verður inn ótakmarkað magn af lambakjöti í mánuð og sláturtíð hefst um miðjan ágúst. Meintur skortur !, því ekki hefur fengið staðfest að það vanti lambahryggi í landinu. Ég hef óskað eftir að ráðgjafanefnd í inn- og útflutningi landbúnaðarvara leggi fyrir Atvinnuveganefndina þau gögn sem þau byggja þetta mat á og að Atvinnuveganefnd verði kölluð saman til að fara yfir þetta mál”, sagði Þórarinn Ingi Pétursson þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi í spjalli við 641.is í morgun.

Landssamtök sauðfjárbænda og Bændasamtök Íslands hafa sent frá sér sameiginlega umsögn um drög að reglugerð um úthlutun á opnum tollkvótum á lambahryggjum og má sjá það hér: https://www.saudfe.is/images/umsogn_tollkv__bi_ls_260719.pdf

Þar segir m.a.  „það þurfa að vera markvissari forsendur fyrir upphæð magntolls, þ.e. 172 kr/kg . Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands hefur verið verðhjöðnun í smásölu á lambakjöti síðan 2015 og hafa þarf í huga að innflutningurinn raski ekki verðmyndun á innanlandsmarkaði“

“Ég tel að Atvinnuveganefnd þurfi að bregðast við þessu og til þess að taka afstöðu þarf hún að hafa þau gögn sem liggja á bak við þessa ráðgjöf ráðgjafanefndarinnar. Það er skylda stjórnvalda að undirbyggja allar ákvarðanir með þeim hætti að réttu upplýsingar liggi fyrir ásamt því að huga að áhrifunum. Hvorugt hefur verið gert í þessu tilfelli”, sagði Þórarinn Ingi Pétursson að lokum við 641.is.