Í orði og á borði

0
121

Á hverju ári frá stofnun Þingeyjarsveitar árið 2002  hafa sveitarstjórnarmenn og sveitarstjóri farið á fund þingmanna kjördæmisins og fjárlaganefndar alþingis og biðlað til þeirra þingmanna sem þar hafa setið fyrir svörum. Í bænaskránni sem lesin er þar upp  hefur verið óskað eftir vegabótum í sveitarfélaginu og þar helst verið talað um Bárðardalsveg, Útkinnarveg og  vegi í Fnjóskadal. Um fleira hefur að sjálfsögðu verið rætt og þá helst Framhaldsskólann á Laugum og mikilvægi hans fyrir sveitarfélagið Þingeyjarsveit.

Ragnar Bjarnason
Ragnar Bjarnason

Síðast núna í haust var þetta gert á fundi með þingmönnum og lögð mikil áhersla á.

Það er því ljóst að meirihlutinn í  sveitarstjórn Þingeyjarsveitar gerir sér grein fyrir ávinningi sveitarfélagsins af því að hafa hér framhaldsskóla, að minnsta kosti í orði, en svona löguðu þarf að fylgja eitthvað í verki heima fyrir.

En nú hefur meirihluti Samstöðu í sveitarstjórn lagt fram tillögu sem snýr að því að leggja af grunnskólastarf á Laugum.

Þetta er gert án þess að fyrir liggi nokkur úttekt á því hvaða áhrif aðgerðin muni hugsanlega hafa á Framhaldsskólann á Laugum. Það verður að teljast undarlegt að þrátt fyrir allar þær úttektir og skýrslur sem hafa verið gerðar um skólahald í Þingeyjarsveit hafi aldrei verið beðið um þessháttar úttekt í ljósi þess að meirihlutinn virðist skilja mikilvægi þess að framhaldsskóli starfi í sveitarfélaginu.

Sigurður Hlynur Snæbjörnsson
Sigurður Hlynur Snæbjörnsson

Framhaldsskólinn á Laugum er Þingeyjarsveit mikilvægur meðal annars vegna þess að þar skapast mörg störf bæði bein og afleidd, mörg þeirra hálaunastörf miðað við það sem gengur og gerist í sveitarfélaginu.

Það má heldur ekki gera lítið úr þeim jákvæðu samfélagslegu og menningarlegu áhrifum sem stofnun á borð við framhaldsskóla hefur á lítið samfélag.

Talandi um skýrslur.

Árið 2010 gerðu Kristín Erla Harðardóttir, Gunnar Þór Jóhannesson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson, í nafni Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, skýrslu um skólamál í Þingeyjarsveit.

Mikil vinna og mikill metnaður var lagður í skýrsluna sem var um 40 blaðsíður en hún virtist ekki höfða til þáverandi sveitarstjórnar.

Raunar virðist hún ekki heldur höfða til núverandi meirihluta því að í henni stendur til dæmis orðrétt:

Svör við þeim spurningum sem lagðar voru fyrir hníga öll að sömu rökum. Í fyrsta lagi, að hagstæðast sé, út frá fjárhagslegum, faglegum og samfélagslegum forsendum að byggja upp eina skólastofnun á Laugum sem samþættaði grunnskóla og tónlistarskóla og jafnvel leikskólastig einnig, að minnsta kosti á þann hátt að það væri undir sömu stjórn þó að starfið væri unnið á ólíkum stöðum. Í öðru lagi, að þessi uppbygging er ekki raunhæf eins og sakir standa í efnahagsmálum. Það verður þó ekki ljóst nema látið sé reyna á það. Í þriðja lagi, að skref í rétta átt sé að hefja sameiningarferli. Það getur haft mismunandi útfærslur en þær sem nefndar hafa verið hér hafa allar faglega og félagslega kosti. Óvissa ríkir um hvort að fjárhagslegur ávinningur verði strax af þeim breytingum. Í fjórða lagi, að koma skólastofnununum undir eina yfirstjórn þar sem leik- og tónlistarstarskólar væru einnig innan vébanda skólans.

Vissulega renndu menn sér í sameiningu á skólum og Þingeyjarskóli var búinn til. Ákvörðunin var tekin að því er virðist í mikilli skyndingu þegar skólastjóri Litlulaugaskóla sagði starfi sínu óvænt lausu.

Á þessum tíma sat hvorugur okkar í fræðslunefnd eða sveitarstjórn en við samþykktum með þögninni ásamt stórum hluta íbúa skólasvæðisins þennan gerning.

Tíminn hefur leitt í ljós að einhver mistök voru gerð þegar Þingeyjarskóli var stofnaður.

Aftur að skýrslunni frá 2010.

Þar stendur nefnilega eins og þið munið.

Svör við þeim spurningum sem lagðar voru fyrir hníga öll að sömu rökum. Í fyrsta lagi, að hagstæðast sé, út frá fjárhagslegum, faglegum og samfélagslegum forsendum að byggja upp eina skólastofnun á Laugum“

Af hverju er þetta ekki skoðað með opnum huga áður en tillaga eins og sú sem nú er til umfjöllunar í Fræðslunefnd er lögð fram?

 

Sigurður Hlynur Snæbjörnsson
Ragnar Bjarnason

Fulltrúar T lista Sveitunga í Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar.