Í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga 2018

0
667

Það styttist óðum í sveitarstjórnarkosningar og sem íbúi í Þingeyjarsveit fæ ég á ný tækifæri til þess að velja fólk til forystu í rekstri og umsýslu sveitarfélagsins míns. Núverandi meirihluti sendi nýlega frá sér stefnuyfirlýsingu ásamt því sem hann minnti okkur kjósendur á þau verk sín sem hann sá ástæðu til þess að flagga. Það eitt er víst að allir sem sátu í sveitarstjórn á síðasta kjörtímabili hafa lagt í það góðan hug, orku og mikinn tíma – og fyrir það ber að þakka. Um árangur og ágæti verða svo menn síðan seint sammála og þó svo að tíminn leiði stundum í ljós að sumt hafi reynst vera óráð þá er maðurinn að eðlisfari seinn til að viðurkenna mistök. Sumir læra það aldrei.

Þær grundvallarbreytingar sem gerðar voru á sveitarfélagi okkar á líðandi kjörtímabili hafa haft víðtækar afleyðingar. Sem betur fer er uppvaxtarskeið í landinu og nær það, ólíkt síðasta slíka tímabili, að þessu sinni út fyrir höfuðborgarsvæðið, líka til Þingeyinga. Það kom því ekki að sök þó svo að lítið færi fyrir raunverulegum mótvægisaðgerðum líkt og lofað hafði verið. Margir, þ.á.m. konan mín og ég, gátu stokkið á „ferðaþjónstuvagninn“ og skapað sér áframhaldandi búsetugrundvöll í sveitarfélaginu. (Kannski er það þá líka sökum þessa góðæris sem núverandi meirihluti hefur ekki séð ástæðu til þess að halda fund í atvinnumálanefnd sveitarfélagsins síðan á fyrsta ársfjórðungi 2015.)

Íbúum á því svæði sem í dag myndar stjórnsýslueininguna Þingeyjarsveit hefur fækkað um 15% á síðustu 20 árum. Almennt er að verða viðsnúningur í landinu og fjölgaði í mörgum sveitarfélögum frá 1. janúar 2017 til 1. janúar 2018 þar sem hafði um árabil verið viðvarandi fólksfækkun. Í Þingeyjarsveit fjölgaði um 47 manns, eða 5%, og er þetta mesta fjölgunin sem orðið hefur á einu ári um langt skeið. Þetta er ánægjuleg þróun og er vonandi að hún haldi áfram. Fjöldi segir auðvitað ekki allt og er langt því frá það eina sem skiptir máli. Mestu máli skiptir að samfélagið búi dugandi einstaklingar sem leggja sitt að mörkum til að halda við og bæta það samfélag sem þeir búa. En fjölgunin gefur okkur vísbendingu um að skilyrði séu góð, hér séu möguleikar til búestu og tækifæri til atvinnu. Fögur fyrirheit fyrir komandi kosningar um að nú standi til að gera góða hluti í íbúðarmálum vekur manni vonir en óneitanlega spyr maður sig hvort vöxtur sveitarfélagsins hefði ekki getað orðið meiri ef fyrr hefði verið farið af stað. Vandséð verður hvers vegna þurfti að bíða þar til nú, rétt fyrir kosningar.

Íbúum í byggðarkjarna sveitarfélagsins, Laugum, hefur fækkað um 15% á síðustu 4 árum. Nánast allar íbúðir sem losnuðu eða voru á lausu fóru í útleigu til ferðamanna og erfitt hefur reynst fyrir fólk að finna húsnæði hafi hugur þess staðið til þess að búa á Laugum. Íbúum þar fjölgaði þó aðeins á síðasta ári en þó hlutfallslega heldur minna en í sveitarfélaginu öllu, eða um tæp 3%.

Forvitnilegt er að skoða aldurssamsetningu íbúa. Ef bornir eru t.d. saman 1. janúar 2005 og 1. janúar 2018, en í báðum tilfellum bjuggu 962 einstaklingar í Þingeyjarsveit (2005 tvö sveitarfélög), þá voru íbúar yngri en 17 ára 227 í fyrra tilfellinu en 162 í því síðara. Þannig var 2005 fjórði hver íbúi yngri en 17 ára, í dag er það sjötti hver íbúi. Þetta er sama þróun og verið hefur víðast hvar um landið þar sem hlutfallsleg fækkun íbúa á aldrinum 0-16 ára er mun meiri en fullorðinna. Ef gömlu hrepparnir eru skoðaðir kemur í ljós að á síðustu 20 árum hefur börnum undir framhaldsskólaaldri fækkað um 64% í Hálshreppi, 60% í Ljósavatnshreppi, 43% í Bárðdælahreppi, 18% í Reykdælahreppi og 22% í Aðaldælahreppi. Ef síðustu hrepparnir tveir, sem nokkuð skera sig úr, eru skoðaðir sérstaklega, en breytingar í skólamálum á síðasta kjörtímabili hafði mest áhrif á þá tvo, má sjá að íbúum á þessu aldursskeiði hefur fækkað á síðustu fjórum árum í Reykdælahreppi um 27 (-37%) en fjölgað í Aðaldælahreppi um 5 (+9%).

Opinber umræða fyrir komandi kosningar hefur ekki verið mikil og ég hugsa að sjálfsagt séu margir því fegnir að hún hafi ekki snúist um skólamál. Frambjóðendur Samstöðu fullyrða að skólar sveitarfélagsins séu betri og sterkari í dag en þeir voru fyrir síðustu breytingar. Góður skóli er auðvitað það sem við öll óskum og viljum en því miður eru þessar fullyrðingar með öllu marklausar því engin úttekt hefur farið fram. Það er líka harla erfitt að mæla skóla því breyturnar eru margar og samspil fólks, umhverfis og menningar flókið. Vissulega eru margar af forsendum þess að skólarnir okkar séu góðir til staðar. Ábyrg stjórnun, menntaðir kennarar, góð aðstaða, velviljaðir foreldrar og síðast en ekki síst gott upplag af börnum. Engu síður er það svo að ég hef ástæðu til þess að ætla að Þingeyjarskóli hafi nokkuð veikst á síðustu árum og eigi enn nokkuð langt í land með að ná þeim styrk sem fyrrverar hans höfðu og því enn lengra í það að verða þeim fremri. Ég óska þess að skólinn styrkist og fagna því að þau framboð sem í boði eru til sveitarstjórnar ætli sér ekki í neinar stórvægilegar breytingar í skólamálum á komandi kjörtímabili. Það þarf að gefa þeirri uppbyggingu sem nauðsynleg er tíma. Ég tel hluta af því ferli felast í því að þora að taka þá umræðu hvað sé nauðsynlegt að gera til þess að skólinn verði betri. Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar vorum við svo upptekin að ræða hvar skólabyggingin ætti að vera staðsett að ég held að við gleymdum alveg að hlúa að því sem miklu meira máli skiptir. Staðsetning húsnæðisins hefur nefnilega ekkert að segja ef börnum líður ekki nógu vel, árangur þeirra í námi er minni en þau hafa forsendur til, starfsfólk upplifir of mikið álag og foreldrar ná ekki að mynda eina heildstæða einingu með jafna velferð allra barna að leiðarljósi. Hér þarf hver maður að líta í eigin barm og spyrja sig hvort þar bærist það eitt í brjósti hans sem byggir upp gott samfélag og sameinar eða hvort þar leynast í skuggum og skúmaskotum þær hvatir, sem vel geta tekið sér bólfestu og vaxið í hverju hjarta sem ekki fær það aðhald sem á þarf að halda, hvatir sem vilja sundra og eyðileggja.

Förum og kjósum. Hver og einn eftir sinni sannfæringu. Mætti okkur svo í kjölfarið, sama hver niðurstaðan verður, bera gæfa til þess að vinna saman á opinn og heiðarlegan hátt með háleitt markmið, að gera samfélag okkar sterkara, betra og hagkvæmara fyrir alla íbúana.

Aðalsteinn Már Þorsteinsson