Hvítönd sést á Mývatni

0
205

Í gærmorgun sást Hvítönd á Mývatni fyrir utan Fuglasafn Sigurgeirs og sást til hennar af og til í gær. Fuglaskoðunarmenn flyktust á staðinn í gær til þess að ná myndum af Hvítöndinni, sem er steggur og er einn á ferð. Þorgeir Gunnarsson hjá Fuglasafni Sigurgeirs í Mývatnssveit sagði í spjalli við 641.is í morgun að Hvítöndinn hefði ekki sést í dag, en hann vonaðist til að hún væri ekki farin á brott. Samkvæmt eftirgrennslan 641.is hefur hún sést áður á Mývatni fyrir rúmum áratug.

Hvítöndin á Mývatni í gær. Mynd: Aðalsteinn Örn Snæþórsson
Hvítöndin á Mývatni í gær. Mynd: Aðalsteinn Örn Snæþórsson

 

Aðalsteinn Örn Snæþórsson fuglaáhugamaður og starfsmaður náttúrustofu Norðausturlands sem náði myndinni hér að ofan af Hvítöndinni, sagði í spjalli við 641.is að Hvítönd væri sjaldgæfur flækingur hér á landi.

Hvítendur verpa í norður- og austurhluta Skandinavíu, í Norður-Rússlandi og Síberíu. Á veturna sjást þær aðallega kringum Norðursjó. Karlfuglarnir eru mjög auðgreindir, þeir eru mjög hvítir með svart kringum augað og svartar rákir hér og þar á skrokknum. Náskyldustu tegundirnar eru toppönd og gulönd.

Hér má skoða mynd af Hvítöndinni sem Þorgils Sigurðsson tók af henni í gær.