Hvítasunnuhugleiðing – Fylgdarlaus börn

0
211

Gleðilega hvítasunnuhátíð, gleðilega fermingarhátíð! Jesús sagði: „Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlaus.”

Fylgdarlaus börn. Ég rak augun í frétt um daginn þar sem talað var um fylgdarlaus börn. Þegar ég fór að lesa kom fljótt í ljós að svokölluð fylgdarlaus börn væru þau sem hatur meðal þjóða í þessum heimi elur af sér.

Börn sem verða viðskila við fjölskyldur sínar á vígvellinum, börn sem ráfa eins og týndir sauðir um heiminn og hver veit hvar þau lenda?

Fréttin fjallaði m.a. um það að fylgdarlaus börn væru auðveld bráð misviturra manna sem ýmist seldu þau í kynlífsþrælkun eða nýttu sér þau sem hryðjuverkamenn framtíðarinnar.

Fylgdarlaus börn eru fórnarlömb, þau eru vanrækt börn, börn sem upplifa höfnun heimsins. Þau eru á flótta vegna stríða eða annarra hörmunga.

Fylgdarlaus börn koma líka til Íslands, sum þessara barna fá heimili hjá fósturfjölskyldum en þó ekki öll, því þau passa misjafnlega innan ramma laga og reglugerða.

Þau sem gera það ekki halda áfram að ráfa stefnulaust um veraldagrundir, gerast þá vitanlega beisk og reið enda eiga þau miklu betra skilið. Það á enginn skilið að ráfa stefnulaust um veröldina, afskiptur og hunsaður.

Helga Þórólfsdóttir sem hefur áralanga reynslu af mannúðarstarfi erlendis benti á í fréttaviðtali, að stundum séu þessar reglur, sem mjög oft er verið að breyta, vel skiljanlegar á pappírum en séu síðan miklu snúnari þegar kemur að því að fjalla um lifandi fólk. Afleiðingar reglnanna verði oftar en ekki sárar og erfiðar.

Við eigum kannski erfitt með að setja okkur í spor þessara fylgdarlausu barna, því við lifum við allt annan veruleika, við lifum við meira öryggi og umhyggju, allt er þetta okkur framandi í friðsömu landi, en þó má ekki gleyma því að vanræksla og umhygguleysi er til hér á landi eins og í öðrum löndum, því miður.

Með umhyggju er hægt að hafa sterk áhrif á hverja manneskju. Það er nefnilega manneskjunni svo óendanlega dýrmætt að vita það að um hana sé hugsað, að hún sé einhvers virði, að á hana sé „lækað”, að hún sé viðurkennd og tekin inn í samfélagið, að hún finni það að hún sé metin að verðleikum og að það sé ekki bara fyrir það hvað hún geri, heldur líka vegna þess að hún sé eins og hún er.

Hryðjuverkamenn sem vilja ala upp börn til að verða hryðjuverkamenn koma auga á slík börn fljótt, vanrækt börn má greina af löngu færi og áhrifagjörn eru þau í meira lagi. Ofbeldismennirnir sýna þeim áhuga, láta þau finna að þau skipti máli, gefa þeim fæði og klæði og skjól.

Fylgdarlausu börnin þiggja þetta allt, eðli málsins samkvæmt, þau hafa ekkert annað, fljótlega eru þau síðan komin með vopn í hendur og annarlegan boðskap og standa í þeirri trú að þau séu að gera bæði sjálfum sér, „uppalendum” og Guði greiða með því að berjast fyrir málstað sem hefur límst við heilann þeirra, m.a. með því að sprengja sig í loft upp á opinberum  samkomum eða keyra trukka inn í mannþvögur á torgum.

Þau halda að allt sé það sem þau eiga að gera gott og eðlilegt því í öllu stefnuleysinu, ráfinu, tóminu, foreldraleysinu var þeim sýnd umhyggja af mönnum sem höfðu illt í huga.

Við erum þarna að tala um falska umhyggju, varasamt stjórntæki, þar sem áhugi hryðjuverkamanna er síst sprottinn út frá því hver blessuð börnin eru í grunninn, heldur hvað þau geta gert, hvernig þau geta þjónað málstaðnum sem er sveipaður rökkri öfga og haturs.

Og þetta þekkist ekki bara í hryðjuverkaheiminum, þetta þekkist sömuleiðis í eitulyfjaheiminum, þar sem varnarlaus börn, vanrækt börn eru lokkuð, þau finna þar fyrir áhuga fólks á þeim, fólks sem býður þeim gull og græna skóga og býður þeim    fölsku umhyggjuna, sem fyrir börnunum er betri en engin.

Auðvitað er óhuggulegt og niðurdrepandi að hlusta á svona hugleiðingu á annars björtum hvítasunnu-og fermingardegi, en  þetta er veruleikinn í kringum okkur og fréttatímar eru fullir af afleiðingum þessa.

En það er ljós í myrkrinu, mótvægið birtist t.a.m. í orðum Jesú er hann talar til lærisveina sinna í guðspjalli dagsins og segir:

„Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlaus.”

Þar birtist sönn umhyggja. Það er umhyggja sem beinist að því hver við erum í grunninn, en ekki bara hvað við getum gert. Við getum víst sagt að við séum þar hvött til að þjóna Jesú en í hverju felst sú þjónusta? Að hjálpa honum að boða heiminum ríki Guðs sem er ríki kærleikans, sannleikans, réttlætisins, að við munum eftir náunga okkar og minnum hann á tilgang hans og mikilvægi þegar kemur að því að láta gott af sér leiða, þegar kemur t.d. að því að hjálpa fylgdarlausum börnum.

Það er vilji Jesú að við tökum höndum saman og bjóðum fylgdarlausum börnum þessa heims samfylgd, ekki bara í hlutlægum myndum heldur ekki síður í þeim huglægu eins og einmitt umhyggjunni, bænum okkar og boðskap trúar, vonar og kærleika. Við tökum höndum saman og látum ekki hið vonda yfirbuga okkur heldur sigrum illt með góðu.

Við minnum hvert annað á það að við erum dýrmæt og höfum ótalmargt gott og fallegt fram að færa bæði með nærveru okkar, hugsunum og verkum.

Og til þess að við munum eftir þessu sendir Jesús okkur anda sinn sem er umfjöllunarefni hvítasunnunar. Andi Jesú er bæði umhyggjusamur og áminnandi, hann er kærleiksríkur og sannur, hann er heilagur.

Hann segir að enginn eigi að vera fylgdarlaus í heiminum, hvorki börn né fullorðnir, enginn eigi að vera vanræktur né varnarlaus, því í þeirri stöðu getur ráfið og tómið og illskan hæglega náð tökum á fólki.

Í þessu ljósi er það svo gott og gefandi að sjá fermingarbörn stíga heillaskref og játa Jesú, það er gleðiefni og þakkarefni að vita að hér séu börn sem eru ekki fylgdarlaus.

Megið þið alla tíð njóta fölvskalausrar umhyggju hvort sem um er að ræða umhyggju Jesú, ykkar sjálfra, foreldra ykkar eða annarra ástvina, þá standið þið sterk frammi fyrir raunveruleikanum sem í senn getur verið krefjandi og gefandi.

Jesús sagði: „Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlaus. Ég kem til yðar.”  Amen.

Bolli Pétur Bollason.