Hvernig verður árið 2015 ?

0
81

Á nýarsdag brá tíðindamaður 641.is sér í heimsókn til konu sem þekkt er fyrir spádómsgáfu og fékk hana til þess að spá fyrir þrónun mála í Þingeyjarsýslu á nýbyrjuðu ári. Hún var treg til þess til að byrja með ,en féllst þó á að gera það gegn nafnleynd. Það helsta sem fram kom hjá henni var eftirfarandi.

Gosið í Holuhrauni.
Það mun draga hægt og rólega úr gosinu í Holuhrauni og það deyr út í apríl. Í kjölfarið verður fólki hleyp inn á svæðið. Einhverjir munu þó fara á gosstöðvarnar í vetur meðan að gosið er enn í gangi, í óleyfi yfirvalda og verður eitthvað vesen út af því. Ferðaþjónustuaðilar í sýslunni munu þá ná vopnum sínum aftur í sumar eftir lélegt haust og verður mikið að gera í því að ferja ferðamenn í Holuhraun til að skoða nýja hraunið. Hún sér ekki að það gjósi í Bárðarbungu né á öðrum stað á Norðurlandi á árinu.

Sveitarstjórnarmál.
Hún spáir frekar rólegu ári hjá sveitarstjórnarfólki ef undan eru skilin skólamálin, því ekki eru öll kurl komin til grafar í þeim málum. Hún spáir að nemendum fækki eitthvað í Þingeyjarskóla í haust. Hún telur að ljósleiðararvæðing þingeyjarsveitar muni ganga eftir en sér þó einhverja erfiðleika í kringum það.

Vaðlaheiðargöng.
Eitthvað klúður mun koma upp á yfirborðið vegna Vaðalheiðarganga en hún er ekki viss um hvernig klúður þetta er, en það seinkar gangagreftrinum meira en þegar er orðið. Göngin opna ekki fyrr en haustið 2017 segir hún.

Veðrið.
Veðurfarið verður erfitt framan af vetri. Góð tíð verður í mars en slæm tíð í apríl og maí og það mun vora seint. Hún spáir köldum júnímánuði og sumarið kemur ekki fyrr en í júlí. Haustið verður í meðallagi gott og það vetrar um miðjan október. Hún sér fyrir mikið óveður sem gengur yfir Þingeyinga í nóvember og verður foktjón víða í sýslunni. Heyfengur verður minni í ár en í fyrra og meðalþyngd dilka lægri. Hún sér þó engin sérstök áföll tengdum búskap í sýslunni.

Þeistareykir og Bakki.
Meiri tafir verða en hafa þegar orðið, vegna uppbyggingar á Bakka og segir hún það tengjast eitthvað ESA og þýskum banka. Hún telur þó að ráðist verði í þessar framkvæmdir og verksmiðjan rísi á endanum. Hún segir að mun meiri orka leynist á Þeistareykjum en menn haldi og ekki þurfi að virkja eitt né neitt í viðbót í sýslunni á næstu áratugum, svo mikil orka leynist á Þeistareykjum. Mikil pressa mun þó verða á því að flytja eitthvað af orkunni suður yfir heiðar. Hún er þó ekki viss um hvernig það endar allt saman. Hún sér fyrir sér miklar deilur þessu tengt.

Mannlífið.
Kvikmyndin Hrútar verður frumsýnd í haust og fær hún góða dóma, en aðsóknin hér innanlands verður ekki alveg í samræmi við það. Hún mun þó njóta velgengni erlendis og vinna til einhverra verðlauna á erlendri grund. Myndin mun koma Bárðardal á kortið og munu innlendir og erlendir ferðamenn flykkjast í göngur og réttir í Bárðardal og reyndar víðar í sýslunni, á næstu árum. Hún telur einnig að hrútasýningar verði endurvaktar í kjölfar myndarinnar. Bárðdælsk ferðaþjónusta mun einnig eflast í kjölfar myndarinnar þó að það taki nokkur ár að koma fram. Hún segist viss um að mjög þekkt Hollywood-stjarna eigi eftir að fara hér um næsta sumar. “Ég sé viðkomandi gæða sér á hamborgara og frönskum í Dalakofanum með öryggisverði allt í kring um sig”, segir hún.

Ferðamennska
Ferðaþjónustan mun blómstra á árinu sem aldrei fyrr og munu ferðaþjónustuaðilar sem tapað hafa á gosinu í Holuhrauni ná tapinu til baka og vel það á árinu. Fleiri gistimöguleikar verða í boði en í fyrra en dugar það varla til að anna eftirspurn. Hún sér nokkra bændur bregða búi á næstu árum til þess eins að snúa sér að ferðaþjónustu.

Íþróttir.
Hún segir margt ungt og efnilegt íþróttafólk eiga eftir að koma fram á næstu árum í Þingeyjarsýslu. Hún er ekki frá því að amk. tvær ungar stúlkur og einn drengur eigi eftir að ná mjög langt innan fárra ára. Hún telur að Hafdís Sigurðardóttir eigi eftir að vinna stærri afrek en hún hefur nú þegar gert og hún eigi eftir að verða kjörin íþróttamaður ársins einhverntíman á ferlinum. Hún er þó ekki viss um að hún verði kjörinn á morgun. “Það verður sennilega einhver boltamaður”, segir hún vonsvikin.

Ýmislegt fleira smálegt kom fram í spjalli tíðindamanns við konuna sem ekki verður tíundað nánar. Tíðindamaður 641.is þakkaði fyrir sig og hélt heim á leið.