Hvernig getum við gert skólana okkar enn betri ?

0
74

Á fundi Fundafélagsins sem haldinn var í Dalakofanum á Laugum sl. þriðjudag skýrði Arnór Benónýsson stuttlega frá því hvernig staðið verður að gerð skólastefnu fyrir Þingeyjarsveit, sem er ekki orðin til.  Innihald skólastefnu Þingeyjarsveitar verður „hvernig við ætlum að hafa skólana“, en ekki „hvar við ætlum að hafa skólana“.  Skólastefnunni er ætlað að svara því hvernig sveitarfélagið getur náð markmiðum aðalnámskrár grunnskóla.

Frá einum af fundum Fundafélagsins á liðnu ári
Frá einum af fundum Fundafélagsins á liðnu ári

Lögfest var árið 2008 að sveitarfélög skuli setja skólastefnu og skólamálin hafa verið í brennidepli í Þingeyjarsveit undanfarin ár.  Við undirbúning  hefur verið litið til þeirra sveitarfélaga sem búin eru að móta skólastefnu sína.  Stefnumótunin tengist námi Arnórs, en Ingvar Sigurgeirsson, prófessor við KÍ, kemur einnig að þeirri vinnu.

 

Hlustað verður eftir framtíðarsýn íbúa Þingeyjarsveitar, starfsmanna skólanna og ekki síst barnanna sjálfra.

Hlutverk Arnórs og Ingvars er að „sjá sameiginlega gegnumgangandi skólastefnu“, sem felur ekki  í sér að allir skólarnir þurfi  að verða eins.  Fyrstu drög ættu að vera tilbúin í mars og verða þau birt á Netinu.  Fólki gefst tækifæri til að hafa áhrif á stefnumótunina á meðan á þessari vinnu stendur. Endanleg greinargerð um mótun stefnunnar  á að liggja fyrir í byrjun apríl.  Hún verður birt á Netinu og gefin út í bæklingi.

Arnór nefndi samstarf leikskólastigsins og grunnskólastigsins, sem dæmi um það sem þyrfti að koma fram í skólastefnunni.  Hugmyndin er sú að stefnan taki yfir tónlistarskólana líka.  Hann lagði áherslu á gagnsæ lýðræðisleg vinnubrögð með þátttöku íbúanna í ferlinu.  Meginhugsunin væri þessi: „Hvernig getum við gert skólana okkar enn betri“.

Hægt er að senda Arnóri tillögur vegna vinnu að skólastefnunni á þetta netfang, arnor@thingeyjarsveit.is

Eins og sagt var frá hér á 641.is um daginn eru á dagskrá hugarflugsfundir með nemendum, starfsfólki og foreldrum skólanna í Þingeyjarsveit í næstu viku. Sjá nánar um þá dagskrá hér.