Hvalasafnið á Húsavík og Sparisjóður Suður-Þingeyinga í samstarf

0
265

Í dag endurfjármagnaði Hvalasafnið á Húsavík lán sín hjá Sparisjóði S-Þingeyinga. Í tilkynningu kemur fram að Hvalasafnið hafi ekki verið áður í viðskiptum við Sparisjóðinn sem býður Hvalasafnið velkomið í ört stækkandi hóp viðskiptavina sinna.

Hvalasafnið og Sparisjóðurinn eiga það sameiginlegt að vera ekki með hagnaðarmarkmið sem lokamarkmið í rekstri.

Þannig er Hvalasafnið sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri og allur hagnaður rennur óskiptur í að efla starfsemi og húsakynni safnsins sjálfs. Safnið er dýrmætur stuðningur við hvalaskoðunarferðir frá Húsavík og styður þannig við vaxandi ferðamannaiðnað á svæðinu.

Sparisjóðurinn er einnig sjálfseignarstofnun og starfar skv. lögum um fjármálafyrirtæki. Hlutverk sparisjóðsins er að stunda sjálfbæra svæðisbundna fjármálastarfsemi á grundvelli samfélagslegrar ábyrgðar, starfsemi sem stendur vörð um og þróar atvinnulif, mannlíf og velferð svæðisins. Sem dæmi um þau verkefni sem sparisjóðurinn styrkti á síðasta ári má nefna:

Ristilskoðun Lionsklúbbs Húsavíkur, Nemendafélög framhaldsskólanna á Laugum og á Húsavík, Kvenfélagasamband Suður-Þingeyinga, Félag eldri borgara á Húsavík, Karlakórinn Hreimur, Tónkvísl FL, Marimba í Þingeyjarskóla, Leikfélag Húsavíkur, Orkugangan, Mývatn Open, Músík í Mývatnssveit, Íþróttafélagið Völsungur, Velferðarsjóður Þingeyinga, UMF Geisli, UMF Efling, UMF Mývetningur, Sumartónleikar við Mývatn, Sjómannadagurinn á Húsavík, Firmakeppni Grana, Golfklúbbur Mývatnssveitar, Mærudagar Húsavík, Hrútadagar Raufarhöfn, Hestamannafélagið Þjálfi, Skákfélagið Goðinn, Árbók Þingeyinga, Björgunarsveitin Garðar, Kiwanisklúbburinn Herðubreið, útskriftargjafir til framhaldsskólanna á Laugum og Húsavík, Forvarnir og fræðsla svo eitthvað sé nefnt. Auk þessa er sparisjóðurinn einn af hornsteinum HSÞ ásamt Framsýn og Jarðböðunum í Mývatnssveit.